Strákar hafa ekki meðfædda píparahæfileika

Bryndís Heiða, Eyja og Ágústa eru sammála um að pípulagnir séu fag sem henti konum vel. Eftir viðkomu í sameindalíffræði, á viðskipta- og hagfræðibraut og múraranámi völdu þær fag sem er að þeirra sögn bæði skemmtilegt, krefjandi og góður grunnur að frekari menntun.

pipulnemar

Eyþrúður, kölluð Eyja, vann á bílaleigu og ákvað að fara í iðnnám þegar hún varð leið á starfinu. „Ég byrjaði í múraranámi en í grunnnáminu í Tækniskólanum kynntist ég hinum fögunum, smiðnum, málara, húsgagnasmíði og pípulögnum. Ég heillaðist bara af píparanáminu og ákvað að færa mig. Í framhaldinu fékk ég starf hjá Veitum og er mjög sátt þar.“

Tæknin og leit að bestu lausnum heillaði Eyju. „Svo er þetta fjölbreytt starf og verið að vinna með ólík efni. Götulagnir og inntök er til dæmis ólíkt hefðbundnum pípulögnum. Mér hentar vel að vera á hreyfingu og vinna með höndunum frekar en að sitja kyrr yfir einhverju.“ Eyja kveðst mjög sátt við þess ákvörðun og finnst gaman að vinna við pípulagnir. Hún stefnir jafnvel á að fara í meistarann síðar.

Bryndís Heiða var á náttúrufræðibraut í menntaskóla og ætlaði í framhaldinu í læknisfræði. „Svo þorði ég ekki í inntökuprófið og eftir að hafa prófað sameindalíffræði og lyfjafræði í háskólanum ákvað ég að gera eitthvað allt annað og skráði mig í iðnnám.“ Hún segir að háskólanámið hafi ekki höfðað til sín og ekki séð sig fyrir sér vinna á rannsóknastofu. „Ég vildi þjálfa upp meira verksvit og læra eitthvað þar sem ég gæti gert hluti sjálf og þyrfti ekki á treysta á einhverja aðra. Mér finnst meira gaman að vinna með höndunum,“ segir Bryndís Heiða og bætir við að fjölbreytnin sé meiri en í mörgum þeirra starfa sem hefðbundið bóknám býr fólk undir.

„Svo ætla ég áfram í byggingatæknifræði og held að iðnnám sé skynsamlegur grunnur fyrir það. Þá er komin þekking á því hvernig hlutirnir virka í grunninn.“ Bryndís Heiða telur að úr iðngreinunum komi fólk með sýn sem bætir við það sem hægt er að læra bóklega í byggingatæknifræðinni. Og pípulagnirnar eru að hennar mati góður grunnur þótt smíðar séu algengari. „Ég held að það sé svo mikilvægt að fólk mennti sig áfram í hönnun og tæknilegum hlutum úr öllum iðngreinum en ekki bara einhverjum tilteknum. Þá hefur fólk yfirsýn út frá sínu fagi. Svo fylgja náttúrulega meistararéttindi með áframhaldandi tækninámi eins og iðnfræði eða byggingatæknifræði t.d. Það er bara mjög fín menntun.“

Ágústa fór fyrst á félagsfræðibraut í menntaskóla og prófaði svo viðskipta- og hagfræðibraut. „Ég vil fara mínar eigin leiðir og þar sem ég fann mig ekki í bóklegum greinum lá ljóst fyrir að þetta átti ekki við mig. Þá rifjaðist upp fyrir mér að báðir afar mínir eru píparar. Ég var oft með þeim í vinnunni og sá hvað þeir voru að gera. Svo ég hugsaði með mér: Af hverju prófa ég ekki bara að fara þangað?“ Ágústa segist hafa verið allt of föst í þeim kassa sem samfélagið setur fólk í til að uppgötva þetta fyrr. Hún er mjög sátt við valið og stefnir á að fara beint í meistaranám eftir sveinspróf.

rh object 4207

Menntasnobb bitnar á iðngreinunum
Þær eru sammála um að því miður sé iðnnám fyrir „utan kassann“ fyrir marga. „Ég held að fyrir fólk sem er að þrjóskast við að vera í háskóla, bara til þess að vera í háskóla, án þess að finna sig í bóklega náminu, þá geti vel verið að iðnnám henti betur,“ segir Eyja. Spurningin er bara hvort fólk fattar að prófa.

Bryndís og Ágústa telja menntasnobb hindrun. „Ég fann alveg fyrir því,“ segir Bryndís, „sem er fáránlegt því starfið er skemmtilegt, launin síst verri en í fögum sem kalla á háskólamenntun og alltaf nóga vinnu að hafa. Ágústa segir pípulagnir ekki hátt skrifaðar hjá sumu fólki. „En fólk er yfirleitt ánægt með að ég hafi valið þetta, farið mína eigin leið og staðið mig vel. Ég var alltaf mikið tölvunörd og margir áttu von á að ég færi í nám tengt tölvum. En ég þarf að vinna með höndunum og gæti ekki setið við tölvuskjá allan daginn. Í þessu fagi er enginn dagur eins og það hentar mér mjög vel.“

Eyja segir kynningar á iðngreinum því miður gjarnan settar þannig fram að þær séu frekar fyrir þá sem eiga erfiðara með nám. „Þannig upplifir maður það allavega en þessi ímynd er ofsalega röng. Þessari hugmynd þarf að breyta og það er að breytast en maður verður ennþá var við svona viðhorf.“ Hún segir þetta líka snúast um metnað: „Ætlarðu að velja þetta og verða góður pípari? Eða læra að setja saman hluti og hafa kannski ekki hugmynd um hvernig þeir virka? Það þarf að hafa skilning á bak við til að hafa tök á að finna nýjar lausnir og sjá hvort er hægt að gera hluti sem kannski virka betur.“

Bryndís kveðst hafa verið mikill bókaormur sem krakki. „Ég varð stúdent 18 ára og algert nörd, góð í raungreinum og með áhuga á vísindum. Þess vegna kom það mörgum mjög á óvart þegar ég fór að læra pípulagnir.“ Hún segist hafa tekið eftir því að þótt hún hafi verið með nefið ofan í bókunum þá hafi vantað upp á skilning á sumum verklegum hlutum. „Ég vildi víkka þetta út og verða góð í fleiru.“ Námið í pípulögnunum er flókið en á skemmtilegan og mjög krefjandi hátt,“ segir Bryndís. „Það gagnast að skilja eðlisfræði svo sá grunnur nýtist mér alltaf vel. Ég held að það sé gott fyrir fólk sem gengur vel í bóknámi að víkka sjóndeildarhringinn.“ Hún segir að það krefjist líka góðs skilnings að gera hluti vel. Og jafnvel þótt hún kysi síðar að gera eitthvað annað telur hún pípulagnirnar góðan grunn. „Þetta er hagnýtt nám og þekking sem nýtist alltaf og maður býr að. Svo væri alltaf hægt að hlaupa í verkefni þegar þau gefast.“

rh object 3893

Hættum að sjá þessi störf sem karla- eða kvennastörf
„Ég skil ekkert í því af hverju það eru ekki fleiri stelpur í þessu námi,“ segir Ágústa og bætir við að hún hafi sjálf haft litla trú á því í fyrstu að hún gæti lært pípulagnir. „En ef áhuginn er til staðar verður námið svo auðvelt og skemmtilegt líka.“

Eyja kveðst alltaf reyna að mæla með iðnnámi við aðra, en það séu alls ekki allir til í slíkt, sérstaklega ekki stelpur. Hvað veldur því getur átt sér margar skýringar. Eyja nefnir viðhorf í samfélaginu, þrýsting, skort á upplýsingum og svo bara venjurnar. Konur leiti jafnvel í störf þar sem konur eru fyrir í meirihluta og þannig viðhaldi kynjahallinn sér á vissan hátt. „Kannski eru stelpur bara hræddar við að fara í önnur fög en hefðbundin kvennafög. Þær óttast að litið verði niður á þær eða þær ráði ekki við þetta.“

Bryndís nefni mikilvægi fyrirmyndanna. „Miklu fleiri eiga pabba sem er pípari heldur en mömmu. Það hefur mikil áhrif.“ Hún kallar líka eftir viðhorfsbreytingu. „Þegar við hættum að sjá þessi störf sem kynbundin, karla- og kvennastörf og hættum bara að pæla í þessu, þá verður sjálfsagt að vinna við hvað sem er,“ segir Bryndís. „Fyrr verður ekki eðlilegt að velja sér hvað sem er. Það er orðið fullþreytt að heyra athugasemdir eins og; ert þú stelpa að vinna við þetta? Hverju breytir það? Þegar við erum öll hætt þessum hugsunarhætti þá verður þetta ekkert til að tala um.“

Ágústa bætir við að þótt eitthvað hafi verið „stráka“ þetta og „stelpu“ hitt þá sé það úrelt núna. „Það að koma inn í skóla og hefja nám þar sem fyrir eru 70 strákar og þrjár stelpur skiptir bara engu máli.“ Hún segir engan hissa eða velta þessu fyrir sér. „Innan skólans eru við komin þangað í viðhorfum sem betur fer. Best væri að sem flestum væri sama hvors kyns viðkomandi er þegar val á námi kemur til tals.“ Bryndís tekur undir með að innan skólans séu allir mjög ljúfir og vinni sem einn hópur.
En Ágústa óttast að enn eimi eftir af fordómum utan skólans og telur að margar stelpur óttist að verða fyrir þeim ef þær velja tiltekið nám. Hún nefnir líka ótta við að verða jafnvel fyrir áreitni fyrir að hætta sér út í hefðbundin karlafög. En hafi slíkt verið þá kveðst hún ekki finna fyrir slíku núna.

Þær kannast allar við að lenda í alls kyns góðlátlegu gríni í faginu en segjast forðast að vera hörundsárar og kippa sér ekki upp við það. Eyja segir mikilvægt í þessu fagi eins og öllum öðrum að láta fólk vita ef það fer yfir ákveðin mörk. „Sumir strákar átta sig kannski ekki á því sjálfir og þá er um að gera að benda þeim á það.“
Bryndís kveðst mæta alveg ótrúlega góðu viðmóti, að fólki finnist svo jákvætt að stelpa sé pípari. Eyja bendir á að það segi samt allir eitthvað sem henni finnst benda til þess að engum finnist það alveg sjálfsagt að stelpur sé að vinna þessa vinnu þótt viðbrögðin séu í sjálfu sér jákvæð. „Svo heyri ég stundum hvað við séum heppnar að vera í pípulögnum núna því við stelpur hefðum ekki getað unnið við fagið fyrir 20 árum eða svo. Þetta er frá þessari kynslóð sem virðist hafa þurft að bera pottofna upp á fimmtu hæð í lyftulausum blokkum dags daglega.“

Eyja rifjar upp að margir verði afar hjálplegir og stundum aðeins of þótt allir vilji auðvitað vel. „Það getur verið kjánalegt að lenda í því í vinnunni sinni að einhverjir bjóðist til að hjálpa mér við að halda á einhverju eða annað slíkt. Þá er smávegis eins og fólk hafi ekki alveg trú á að ég geti unnið vinnuna mína. En þetta er alltaf vel meint.“ Hún kveðst mjög ánægð með sinn vinnustað því hjá Veitum sé lagt mikið upp úr jafnrétti og að komið sé vel fram við alla.

Þær leggja áherslu á að eyða fordómum gagnvart iðnnámi með markvissri kynningarstefnu. Markmiðið væri ekki síst að opna fögin enn frekar fyrir konum. Ágústa segir mikilvægt að koma ungu fólki í skilning um að þetta sé ekki erfitt og enginn eigi að vera feiminn við að prófa eitthvað nýtt. Eyja segir reynsluna koma hratt. „Í byrjun er allt nýtt fyrir okkur en það á við í öllum fögum og um alla nema, líka strákana. Heilt yfir er það algerlega einstaklingsbundið hvað fólk hefur snert mikið á verklegum störfum eða fengið mikla reynslu, ekki kynbundið. Svo þetta er bara spurning um að drífa sig og prófa.“ Bryndís bætir við: „Strákar eru nefnilega ekki með neina meðfædda pípulagningarhæfileika.“

Ranghugmyndir um fagið og störf pípara eru mögulega hindrun fyrir bæði stráka og stelpur. „Sumir virðast halda að við séum í kúk og pissi alla,“ segir Eyja. „En fagið er í raun mjög hreinlegt í dag. Svo eru verkefnin ólík og viðeigandi búnaður notaður í ólíkum verkum. Það er fullt af störfum sem eru mismunandi hreinleg eða óþrifaleg þannig að það er beinlínis asnalegt að einblína á óþrif varðandi þetta tiltekna fag.“

rh object 4107

Eyja: Mér hentar vel að vera á hreyfingu og vinna með höndunum frekar en að sitja kyrr yfir einhverju

Mikilvægt að grunnskólanemar fái að prófa verklegar iðngreinar
Allar sakna þær þess að hafa ekki fengið tækifæri til að kynnast iðnnámi og pípulagnafaginu fyrr. Eyja segir að í ljósi reynslunnar muni þær vonandi líta öðruvísi á málin þegar þeirra börn fara að velja sér fag. „Við myndum kannski ekki þrýsta á þau að fara í iðnnám en verðum vonandi mun opnari fyrir því en fyrri kynslóðir. Við getum líka kynnt iðnnámið fyrir okkar börnum á annan hátt en það var kynnt fyrir okkur.“ Hún rifjar upp að í grunnskóla hafi iðnnám verið lítið kynnt. „Okkur voru kynntir menntaskólar og fjölbrautaskólar en það vantaði kynningu á iðngreinum í heild. Það var kannski talað um að hægt væri að fara í iðnnám og verða t.d. smiður en iðngreinarnar voru ekki kynntar hver fyrir sig.“ Sjálf kynntist Eyja ekki pípulögnum sem fagi fyrr en hún hóf nám í Tækniskólanum, upphaflega í múrverki.

Ágústa kveðst sjá eftir að hafa ekki byrjað í faginu strax eftir grunnskólann. „Ég er búin að prufa eitt og annað sem er auðvitað ágætt en ég gæti núna verið búin með sveinspróf og jafnvel meistarann líka. Þó að það sé gaman í þessu núna hefði ég viljað byrja miklu fyrr.“ Hún telur að ef hún hefði bara fengið að prófa og kynnast faginu fyrr hefði hún líklega áttað sig á því hvað þetta ætti vel við sig. „Ef ég hefði fengið í grunnskóla að prófa að setja saman rör t.d. þá hefði þessi áhugi kviknað miklu fyrr. Allavega í mínu tilfelli. Líka ef þessi karlastarfsstimpill væri ekki á faginu þá hefði ég ekki hikað svona. En aðalatriðið er að krakkar séu látnir prófa sem mest og fjölbreyttast í grunnskóla. Í versta falli finnst þér það leiðinlegt og þú áttar þig á að þetta á ekki við þig. Þá er bara að prófa eitthvað annað.“

„Í grunnskóla er bara textílmennt og smíði,“ segir Bryndís. „Af hverju er ekki bara kynning á öllum iðngreinum í stað þess að sauma hálfan vetur og smíða hálfan? Eða gera það sem Tækniskólinn er að gera hér í grunnnáminu að kynna allar iðngreinar þar?“ Eyja rifjar upp að í smíði fengu krakkarnir að nota rennibekk og vinna aðeins úr tré. „Við fengum til dæmis ekki að prófa að sjóða neitt saman.“ Bryndís telur líklegt að flestir smíða- eða handmenntakennarar í grunnskólunum séu með smíði sem bakgrunn enda yfirleitt mun fleiri smiðir að útskrifast en úr öðrum fögum. Píparar eru því ekki mjög sýnilegar fyrirmyndir fyrir skólakrakka. „Ég þekkti engan pípara þegar ég byrjaði í þessu fagi,“ segir Eyja og Bryndís segir það sama eiga við um sig.

Samstarf Árbæjarskóla og Orkuveitunnar er gott dæmi um hvað hægt væri að gera að mati Eyju. Krakkar í 10. bekk geta tekið kynningu á verknámi sem valáfanga. „Við fáum til okkar hópa, bæði stelpur og stráka. Ég kynni fyrir þeim pípulagnir og við leyfum krökkunum að prófa að tengja blöndunartæki, sjóða saman cpr plast og pressa þunnveggjastálrör. Þetta finnst þeim mjög gaman og svo fá þau líka að kynnast vélvirkjun, rafvirkjun og fleiri fögum.“ Þetta mætti gera víðar enda mjög mikilvægt á þessum aldri að krakkar fái að prófa að vinna verkefni í höndunum, ítrekar hún.

Eyja segist hafa tekið sérstaklega eftir því hve margar af stelpunum séu fljótar að leysa verkefnin. „Þær eru svo snöggar að skoða teikningarnar, spá í vandamálið og finna lausnirnar. Ég sé ekkert í standa í vegi fyrir því að ungar stelpur byrji fyrr í iðnnámi án þess endilega að taka stúdentspróf fyrst.“ Í 9. og 10. bekk er komið að því að krakkar velji nám að loknum grunnskóla og þá þurfa að þau að hafa fengið kynningu á ólíkum leiðum til að hafa forsendur fyrir valinu, bendir Eyja á. „Þetta gætu verið styttri áfangar, t.d. að kenna ólík fög í u.þ.b. einn mánuð hvert yfir veturinn. Byrja á bóklegu, sögu fagsins, um hvað það snýst, hvaða efni eru notuð og hafa svo verklegt þar sem nemendur fá að prófa.“ Smíða- eða textílstofurnar gætu nýst að mati Eyju sem rifjar upp þegar hún fékk að prófa skartgripasmíði í skólanum. „Það var ótrúlega gaman og mikil tilbreyting. En auðvitað þarf mannskap og kennara til að þetta sé hægt.“

Grunnnámið í Tækniskólanum með kynningu á öllum iðngreinunum fær hrós frá Eyju. „Núna er ég svo ánægð með þetta en í byrjun hugsaði ég af hverju ég gæti ekki bara sleppt þessari einu önn og farið bara beint í múrverkið. Svo var þetta að mestu mjög skemmtilegt. Reyndar voru mörg fög kynnt og ég þurfti að fara gegnum kynningu á dúklögn og málaraiðn þótt ég hefði ákveðið að fara ekki í þær greinar. En eftir á að hyggja hjálpar þetta allt. Það er gott að fá innsýn í önnur fög og vita hvað hitt fagfólkið er að gera því þá eykst skilningur okkar á milli. Þegar skipuleggja þarf stærri verk verður að vera ljóst hver gerir hvað og hvenær og í hvaða röð hlutir þurfa að gerast.“

rh object 3946

Ágústa: Ég skil ekkert í því af hverju það eru ekki fleiri stelpur í þessu námi

Iðngreinar hagnýta tækniframfarir en hverfa ekki
Þær Eyja, Bryndís og Ágústa velta fyrir sér þróun fagsins, tækniframförum og starfsöryggi. Eyja kveðst ekki sjá eftir tímanum sem fór í stúdentsprófið sitt en ef hún hefði aðeins haft fjögur ár til náms hefði hún viljað fara beint í iðnina. Ein af ástæðunum er starfsöryggið en einnig tekjumöguleikar. Alltaf er verið að byggja og samfélagið að þróast. Hiti og vatn mætir grunnþörfum sem aldrei úreldast. Og ef eitthvað fer úrskeiðis þarf að lagfæra það. „Það geta líka svo sem allir skipt um blöndunartæki heima hjá sér en ef þú vilt að það leki ekki eða hafa hlutina vel gerða þá færðu fagmanneskju í verkið,“ segir Ágústa og bætir við að árlega verði vatnstjón hér á landi upp á um einn og hálfan milljarð króna að meðaltali. „Þessi tjón fást yfirleitt ekki bætt nema löggiltur aðili hafi unnið verkið.“

Ágústa bendir á að jafnvel margt háskólanám sé í dag lítil trygging fyrir starfi og svo sé tækniþróun að fækka mannlegum störfum á mörgum sviðum. Þær eru allar sammála um að iðngreinar breytist með tækniframförum en þær ógni ekki störfum iðnaðarfólks. „Þú getur afgreitt þig sjálf í verslun eða sett róbót á afgreiðslukassa en það er erfitt að skipta pípara út fyrir eitthvert vélmenni,“ segir Ágústa og bætir við að iðngreinar verði mikilvægar í framtíðinni. „Þótt hægt væri að hanna vélmenni sem geti jafnvel byggt hús þá þurfi mannlegan þátt til að átta sig á þörfum verkkaupa. Iðngreinarnar eru ekkert að hverfa þótt tæknin hafi aukist til muna.“
Allar eru þær spenntar fyrir tækniframförum í faginu og segja gaman að fylgjast með þeim. „Það er mjög mikið um nýjungar í faginu,“ segir Bryndís en bætir við að fólk átti sig kannski ekki alltaf á þeim. „Allir þurfa að nota hreinlætistæki og hafa hita hjá sér. Þetta eru svo sjálfsagðir hlutir og sjálfri fannst mér þetta ekkert rosalega spennandi í byrjun. En svo fer maður að læra meira og skilja hvað er í raun á bak við eitthvað jafn einfalt og að skrúfa frá krana til að fá vatn.“

rh object 3971

Bryndís: Það skiptir máli að vera í fagfélagi fyrir þá grein sem maður vinnur við

Stéttarfélagið er mikilvægur bakhjarl
Þær hafa allir fengið námssamning.“ Eyja segir kennarana og meistarafélagið hjálpa til við að finna fyrirtæki sem taka nema. Hún hvetur iðnnema til að nýta alla aðstoð sem býðst við að komast á námssamning. „Svo skiptir máli að velja vel og kynna sér fyrirtækin fyrir fram því þau eru oft sérhæfð og misjafnt hvort neminn hefur áhuga á viðhaldsverkefnum eða störfum við nýbyggingar.“
Flestir nemar í þessu fagi fá góð verkefni og hafa góða reynslu af samningstímanum að mati Eyju. „Það er mikilvægt eins og í öllum fögum að nemi á samningi fái að prófa sem mest og sé alls ekki settur í of einhæf verkefni, þá nær neminn ekki að kynnast öllum hliðum á starfinu.“

Ágústa segir sína reynslu þá að fyrirtækjum finnist jákvætt að fá konur á samning þar sem þær eru í minnihluta og fyrirtækin vilja jafna hlut kynjanna eins og kostur er. „Þar sem ég var á samningi, var það litið jákvæðum augum að hafa konu meðal starfsfólksins.“
Stéttarfélagið er mikilvægur bakhjarl fyrir bæði nema og sveina að mati þeirra Eyu, Bryndísar og Ágústu. Þangað þarf að leita ef eitthvað kemur upp á til dæmis á samningstíma. „Fólk má alls ekki vera hrætt við að leita aðstoðar hjá félaginu sínu eða viðeigandi aðilum,“ segir Eyja. Hún hvetur félagsmenn líka til að nýta styrki og annað sem félagið býður upp á. „Ég er t.d. nýbúin að fara á logsuðu- og plastsuðunámskeið hjá Iðunni, sem boðið var uppá í gegnum vinnuna hjá mér. Það var fínt að fá þessi námskeið og vel staðið að þeim.“

Bryndís bendir á að það borgi sig að vera í réttu stéttarfélagi. „Það skiptir máli að vera í fagfélagi fyrir þá grein sem maður vinnur við.“ Hún nefnir sem dæmi aðgang að endurmenntunarnámskeiðunum hjá Iðunni-fræðslusetri gegnum Félag iðn- og tæknigreina.
„Kynning á réttindum, kjarasamningum og stéttarfélögum þarf að vera á mannamáli,“ segir Ágústa. „En það er ekki fyrr en maður þarf á aðstoð eða upplýsingum að halda sem maður fer að leita fyrir sér og þá er mikilvægt að upplýsingarnar séu sem aðgengilegastar og maður viti hvar maður á að leita.“

rh object 3893

Hvetja fólk til að skella sér í djúpu laugina
Þær stöllur mæla með að allir sem hafi minnsta áhuga á iðngreinum skelli sér í að prófa. Eyja segir sorglegt ef fólk er óhamingjusamt í starfi árum saman en þori ekki að breyta til. „Það er um að gera að stökkva þá aðeins í djúpu laugina og prófa eitthvað nýtt.“ Ágústa bendir líka á að enginn sé of gamall til að læra og í raun skipti aldur fólks engu hvað það varðar. „Eldra fólk í námi býr að annarri reynslu en í sjálfu faginu er viðkomandi jafn ferskur og 16 ára einstaklingur.“ Í upphafi náms eða starfs eru allir byrjendur og Ágústa hvetur fólk til að prófa. Fögin eru ótrúlega mörg og ólík og um að gera kynna sér fjölbreytnina sem er í boði. „Og ef það gengur ekki þá bara prófa eitthvað annað,“ segir Ágústa. „Tímanum er vel varið og það er engu að tapa að fá smá reynslu í iðngrein. Það lokar líka engum dyrum því það er alltaf hægt að halda áfram og fullt af öðrum dyrum opnast í leiðinni.