Viðtal við Helga Grétar málara, listamann og kennara

I AthenuMR 004

Haukur Már Haraldsson spjallar hér við Helga Grétar Kristinsson málara, listamann og kennara. 
 
Helgi Grétar Kristinsson er Austfirðingur, fæddur á Eskifirði á ársafmælisdegi lýðveldisins. Er búinn að mennta sig meira í sínu fagi en margir kollegar hans og hefur fengist við ýmsar hliðar þess. Og er enn að miðla af þekkingu sinni. Þegar hann fæddist og ólst upp á Eskifirði var samfélagið þar byggt af öfum og ömmum, mæðrum og börnum. Feðurnir voru flestir annars staðar obbann af árinu, á vertíð hér og þar á landinu. „Þannig var það með pabba; hann var fjarri heimilinu á vertíðum, kom svo heim og barnaði áður en hann fór á næstu vertíð.“
Það var nóg að gera fyrir krakka á Eskifirði. Leikirnir tengdust sjónum að sjálfsögðu, þannig er það í minningunni. Strákarnir fengu að fara með körlunum út á fjörðinn á trillunum þeirra og veiða; tóku upp net og sýsluðu við það sem tengdist lífinu í svona plássi þar sem allt mannlífið tengdist sjónum.
Og það var samt í þessu mannlífi, þar sem allt snerist um sjóinn, sem Helgi Grétar fékk sín fyrstu kynni af litum og málun.
„Í næsta húsi við okkur bjó málari sem hét Auðbjörn Eiríksson. Hann hafði vinnustofu í kjallaranum hjá sér. Ég sótti mikið í að heimsækja hann og einhvern tíma kallaði hann í mig og spurði hvort ég hefði ekki áhuga á að koma í vinnustofuna sína. Ég hélt nú það. „Þá þarftu að gera mér smágreiða; þú þarft að fara niður í beinamjölsverksmiðju – gúanóið – og gella fyrir mig fisk.“
Gella? Ég hafði ekki hugmynd um hvað það var. Þá setti hann þumal og vísifingur sitt hvoru megin við barkann á hálsi sér og sagði: „Þú tekur bara svona og kúttar á.“
Ég komst inn á verkstæðið til hans og hafði voðalega gaman af því. Hann var auðvitað að sýsla þarna með liti, verandi bæði húsamálari og listmálari. Um sumarið vildi hann koma mér í smávinnu og bað mig að mála stakketið í kringum húsið sitt. Það var talsvert verk og ekki gert á einum degi. Þá réði ég Örn bróður minn og skólabróður hans í vinnu til að hjálpa mér við verkið. En þeir voru fljótir að láta sig hverfa  þegar þeir komust að því að ég borgaði þeim helmingi minna en ég fékk greitt.“
Þetta voru fyrstu kynni Helga af litum og málun.
 
Suður með sjó
Líf fjölskyldunnar breyttist þegar faðir hans fékk vinnu á Keflavíkurflugvelli, fasta vinnu. Það var í kringum 1952 og fjölskyldan fluttist suður til Keflavíkur 1956.
–Var eitthvað líkt með þessum tveimur stöðum? Saknaðirðu einhvers að austan?
„Vitaskuld einhvers. Þar var skyldfólkið mestallt. Við vorum sjö systkini og flest þeirra söknuðu vina sinna. En ég var á einhvers konar millialdri og enginn djúpur söknuður hjá mér eftir lífinu fyrir austan. Svo komst ég mjög fljótlega inn í menninguna þarna suðurfrá; náði góðu sambandi við skólafélaganna.
Ég kynntist fljótlega skemmtilegum strák og við urðum miklir vinir. Hann hét  Rúnar Júlíusson. Við vorum jafnaldrar og skólafélagar. Hann útvegaði okkur starf í fiskvinnu þegar við vorum 15 ára, hjá frænda sínum sem rak hf. Keflavík, útgerðarfyrirtæki með marga báta. Árið efir fannst okkur einhvern veginn að það væri ekki við okkar hæfi að vinna í fiski. Þá þekkti Rúnar menn sem voru nýútskrifaðir sem málarar og voru búnir að stofna fyrirtækið Kristinn og Birgir. Við fengum vinnu þar. Þetta var alhliða málningarfyrirtæki; þeir máluðu hús og báta og allt sem til féll. Þannig að það má með sanni segja að Rúnar hafi komið mér í málninguna.“
–En Rúnar hefur ekki ílengst í málningunni?
„Nei, hann var ekki nema stuttan tíma, kunni ekki við þetta starf. Hann vildi frekar komast upp á völl og vinna þar. Svo fór hann að spila músikk.“
–Heldurðu að þú hefðir farið að spila músikk með honum ef tækifæri hefði skapast?
Helgi hlær. „Nei, það held ég að hefði aldrei gerst.
 
„Það var alltaf draumur minn að fara í fara í auglýsingateiknun, alveg frá því ég man eftir mér. Það var fastgreipt í mínum huga. Svo ég fer að ræða málið við Birgi, að ég sé að reyna að safna mér fyrir fargjaldi til að fara utan til náms. Þá segir Birgir: „Sko, þú bara kemur á samning hjá okkur og svo áttu bara fullt af peningum.“ Og það varð úr. Þeir Kristinn og Birgir voru dugnaðarstrákar og mikill uppgangur hjá þeim.“
 
Til Álaborgar
„Ég átti mjög erfitt með að standa í stiga við vinnuna en hafði mikinn áhuga á auglýsingum og skiltum, þannig að ég eiginlega helgaði mig því. Þannig að í raun var ég kominn á samning í skiltamálun.
Svo fara þeir Birgir og Kristinn á meistaraskóla í Álaborg. Birgir skrapp svo heim vegna þess að tengdafaðir hans dó og hann segir við mig: „Nú verður þú klár eftir viku og kemur með mér út. Ég er búinn að útvega þér skóla í auglýsinga- og skiltamálun.“ Svo ég fór til Álaborgar og var þar í tæpt ár í skilta- og auglýsingamálun. 
Eftir Álaborgardvölina var ég orðinn fullnuma í auglýsinga- og skiltagerð og fór að vinna fyrir Ósvald Knudsen og Daníel Þorkelsson, sem ráku þá fyrirtæki í Brautarholtinu. Þar vorum við fimm til sjö starfsmenn í skiltamálun og þarna var ég þar til ég tók sveinspróf. Á þessum tíma voru húsamálun og skiltamálun sama iðngrein. Á hinum Norðurlöndunum voru þetta hins vegar aðgreindar greinar eins og eðlilegt er. En ég sem sagt tók sveinspróf í skiltamálun.“
 
Keldnaholt
„Um það bil sem ég tók sveinsprófið slitu þeir Birgir og Kristinn samstarfinu og Kristinn stofnaði eigið fyrirtæki sem ég keypti hlutabréf í. Hann var meistari, en vildi að ég og fjórir aðrir í Keflavík yrðu sveinar. Fyrsta stórverkefnið sem hann fékk var að mála nýbyggingar rannsóknarstofanna á Keldnaholti. Hann bauð í þetta verkefni ásamt níu meisturum af Reykjavíkursvæðinu og fékk það. Þá stóð ég frammi fyrir spurningunni um hvað ég ætlaði að gera. Ég var að vinna hjá einu stærsta fyrirtæki landsins á þessu sviði, þar sem Ósvaldur og Daníel voru bæði með húsamálun og skiltamálun, en átti jafnframt hlutabréf í fyrirtæki Kristins. Niðurstaðan varð sú að ég hætti hjá Ósvaldi og Daníel og fór að vinna að verkefninu í Keldnaholti.
Það urðu mikil málaferli út af þessu verkefni. Við vorum kærðir á þeim forsendum að við mættum ekki vinna utan okkar svæðis. Við vildum meina að hugtakið vinnusvæði gilti gagnvart sveinunum, verkalýðsfélaginu. Við bentum á Keflavíkurflugvöll sem dæmi; allir málarameistarar þar væru úr Reykjavík en sveinarnir af Suðurnesjunum. Þetta væri sambærilegt þar sem meistararnir hjá okkur væri að sunnan en sveinarnir úr Reykjavík. En þá sögðu mótherjarnir að þetta væri frísvæði.
Þetta var mikið blaðamál áþessum tíma. Við – eða Kristinn sem meistari og í forsvari – vorum algerlega á því að virða fullkomlega vinnusvæðið. Þannig  myndum við aðeins ráða starfsmenn úr borginni. Við vorum með tvo lærlinga og svo þrjá sveina úr Reykjavík.
Þetta var stórt verkefni og framfleytti okkur lengi. Í kjölfarið fengum við vinnu við að mála símstöðvar víðsvegar um landið, þá var verið að byggja þær.“
–Svo fórstu að kenna, hvernig stóð á því?
 
Óðinsvé og Málning hf.
„Þannig var að ég kynntist skóla í Óðinsvéum (Odense) í Danmörku. Þar fannst mér vera kominn í algjör draumaskóli fyrir mig. Þeir höfðu sameinað í eina deild teiknikennslu, dekórasjónmálun (skrautmálara?) og forverði. Þessir þættir höfðu verið sameinaðir í eitt, en höfðu áður verið sérdeildir sem útskrifuðu með diplómu. Ég sótti um og fékk skólavist haustið 1967 og var þar til 1970 – og þarna var hver þátturinn öðrum skemmtilegri. 
Ég hugsaði alvarlega um að setjast að í Danmörku, en hafði verið í sambandi við Kristján Guðlaugsson hjá meistarafélaginu. Hann vildi endilega að ég kæmi hingað heim og tæki við Málaradeildinni í Iðnskólanum í Reykjavík. Þá var Jón Björnsson nýhættur þar kennslu og Sæmundur Sigurðsson, hinn kennarinn, á síðasta ári. Og þá vantaði mann til að taka við skólanum. Ég hafði mikinn áhuga á því, en þegar ég kom heim var Sæmundur þarna enn og sagðist ætla að vera í eitt ár til viðbótar. Aðeins var pláss fyrir einn kennara í einu. Ég hefði svosem getað komist þar inn, en þá hefði vinnan bara minnkað hjá Sæmundi.
Þá fréttu þeir hjá Málningu hf. að ég væri kominn til landsins með þessa menntun og báðu mig að koma til sín í starf sem litafræðingur. Ég ákvað að taka því boði og lét kennsluna lönd og leið, utan hvað ég kenndi á námskeiðum í Keflavík.
Starfið hjá Málningu var mjög fjölþætt. Ég var bæði með að útbúa litakort og stilla upp litum fyrir viðskiptavini að velja úr. Gera litatillögur. Blokkabyggingar voru mjög að aukast á þessum tíma og ég útbjó tillögur fyrir litaval fyrir þær, innanhúss og utan. Þetta var eiginlega alveg ný þjónusta, mikið að gera og vinnan mjög skemmtileg. Á þessum tíma var plastmálningin einmitt að ryðja sér til rúms.
 
Erro Helgi Arnar Dagur crop
 
Húsgaflinn við Álftarhóla. Þegar ákveðið var að færa mynd eftir málverki Errós á húsgaflinn á Álftahólum 4–6 í Breiðholti var Helga Grétari falið það verkefni ásamt Arnari Óskarssyni málara. Hér eru þeir félagar ásamt listamanninum og Degi B. Eggertssyni við afhjúpun myndarinnar 6. september 2014. „Þetta var mikil vinna og miklir útreikningar,“ sagði Helgi Grétar, „en geysilega skemmtilegt verkefni.“
 
Þetta er maðurinn!
Einn atburður í þessu starfi mínu hjá Málningu er mér mjög eftirminnilegur. Vorið 1973 hringdi Kolbeinn Pétursson forstjóri fyrirtækisins í mig og bað mig koma niður á skrifstofu til sín. Þegar ég kom þangað voru þar hjá honum tvær konur, Guðrún Jónsdóttir arkitekt og önnur kona með henni, sem ég man því miður ekki hvað hét. Ég var kynntur fyrir þeim og Kolbeinn sagði: „Þetta er maðurinn.“ Obb obb obb, hugsaði ég, hvað hef ég nú gert?
Á þessum tíma var verið að taka Bernhöftstorfuna í gegn. Guðrún var þá formaður Bernhöftssamtakanna og þau Kolbeinn og hin konan höfðu rætt saman og kynntu þarna fyrir mér um hvað málið snerist. Bernhöftstorfan skyldi máluð. Ég átti að velja litina á húsin og segja til um hvaða efni skyldu notuð. Búið væri að kalla til fjölda fólks, unga listmálara, arkitekta og fjölda annarra. Þannig að ég yrði að vera með mitt alveg á hreinu þegar stundin mikla rynni upp.
Verkefnið var mér ekki alveg óþekkt eftir námið í Óðinsvéum. Við gerðum nokkur tillögu að H. C. Andersen-hverfinu þar í bæ og það var til þess tekið hve vel við settum að upp. Þannig að ég var aldeilis til í slaginn.
Viku seinna var ráðist í herferðina; byrjað kl. þrjú að nóttu og við urðum að klára þetta í síðasta lagi klukkan níu um morguninn. Og einmitt á því slagi var síðasta pensilfarið dregið. Þetta var auðvitað bara leiktjaldamálun, en vakti þó almenning til umhugsunar um þessi mál. Margir gjörbreyttu um skoðun á þessum gömlu húsum. Eiginlega má segja að varla megi snerta við gömlum húsum eftir þetta. Þarna voru spennandi hlutir að gerast á spennandi tímum.“
–Er það á þessum tíma eða fyrr sem þú ferð að stússa í gömlum kirkjum, velja liti og mála?
„Já. Þótt ég væri þarna í vinnu við að velja liti og veita ráðleggingar sem byggðu á nýmóðins efnum, þá hafði ég alltaf mikinn áhuga á þessu gamla, fyrri tíð. Ég var til dæmis alltaf með alls konar gamla muni hjá mér á vinnustofunni hjá Málningu, hluti sem ég var að gera upp. Einu sinni var ég þar með gamalt altari úr gamalli kirkju. Þetta voru verkefni sem ég var sjálfur að skapa; ekki mikið um viðgerðir, þær komu seinna þegar ég fór að helga mig þessu.
Sæmundur var áfram við kennsluna í fjögur ár og ég var kominn á fremsta hlunn með að fara utan aftur. Það var ekki samkvæmt mínu eðli að hanga svona og bíða. Ég leitaði mér ekki að verkefnum í forvörslu, en tók að mér tilfallandi verkefni á því sviði. Svo ég ætlaði mér að fara úr landi. Þegar það kvisaðist út myndaðist líklega einhver þrýstingur frá sveinafélaginu gagnvart Sæmundi. Geri ég ráð fyrir.“
–Þú hefur þá vænti ég verið búinn að skapa þér einhvern orðstí, úr því að farið var að leita til þín með verkefni.
–Já, ég held að það hljóti að vera. En svo sem sagt byrjaði ég að kenna á fullu haustið 1978. Þá var ég eini kennarinn í deildinni, en réði til mín efnafræðing til að létta mér starfið.“
 
Efnin 
–Þetta gefur tilefni til að spyrja: Þegar þú kennir fagmálun, ertu þá að fjalla um efnasamsetningu málningarinnar? Þetta snýst ekki bara um að draga úr pensli eða rúllu?
„Ekki aldeilis.“
–Hvað er það þá nákvæmlega? Ef ég segi að ég vilji efnagreinda ákveðna málningu í einhverjum ákveðnum lit frá einhverju fyrirtæki, get ég þá komið til þín með prufu og spurt hvaða efni séu í þessum lit.?
„Já, þú gætir sannarlega gert það. Þetta er misjafnt milli málningargerða. Upphafið að öllum málningartegundum sem við eigum og þekkjum í dag eru kalkmálningar. Þær eru fyrstar á markaðinn. Síðan kemur línolíumálning, á 16. öld. 
Öll málning dregur heiti sitt af bindiefninu og í línolíumálnngu er bindiefnið línolía, eða hörfræ. Hörfræ verður að línolíu með ákveðinni vinnsluaðferð. Fræin eru pressuð og þannig fæst olían. Svo er hægt að breyta olíunni eftir verkefninu sem vinna skal.“
–Og hvaða kosti hefur línolían umfram gamla kalkið?
„Hún er allt öðruvísi. Við getum borið kalkmálninguna og línolíumálninguna saman við plastmálninguna í dag. Línolían sogast inn í efnið. Þess vegna er nauðsynlegt að grunna allt lífrænt efni, tré og annað, með línolíu. Hún sest ekki bara utan á tréð heldur fer hún inn í það. Og það er nauðsynlegt fyrir til dæmis viðinn að fá olíuna. Ef þú ert með nýjan við og málar hann bara með plastmálningu að utan, þá húðar þú efnið en allt fyrir innan fer að fúna. Þannig að línolían varnar fúa. Þess vegna er hún í öllum fúavarnarefnum.
Kalkið var notað vegna þess að það var svo meðfærilegt; menn gátu útbúið það á staðnum.“
–En það sest líka bara utan á, er það ekki?
„Jú, menn þurfa að grunna undir kalkið með olíu. Eftir því sem tæknin þróaðist fóru menn að nota svokallaðan límfarva, límbundna málningu. Hún er lítillega notuð ennþá, til dæmis hjá einstaka sérvitringum í Danmörku. Hún er að því leyti viðkvæmari að duftkornin – litarefnin – bindast. Línolían – olían – smýgur inn í kornin og vætir þau, en í límfarvanum og kalkinu tengjast þessi efni bara en fara ekki inn í þau. Þannig að það er alltaf hætta á að þau vilji smita. Það er svolítið gaman að því að í Menntaskólanum í Reykjavík og Íþöku, sem ég hef verið að snudda við, er málað með límfarva.“
 
Sagan
–Á hvaða tíma kemur límfarvinn til söunnar?
„Sennilega á svipuðum tíma og línolían, á miðri 16. öld. Hún var mikið notuð hér á landi eitthvað framyfir 1900, þá fer hún að detta út. Þetta var svolítið öðruvísi hjá okkur og öðrum Norðurlandaþjóðum og Evrópu. Við notuðum mikið af línolíufarva, en Ameríkanar notuðu mikið efni úr safa gúmmítrjáa; það var kallað latex og var notað sem bindiefni.  Þeir kalla olíumálninguna ennþá latexmálningu.“
–Hver er svo þróunin  á eftir límfarvanum?
„Hér á landi var límfarvinn notaður alveg framyfir aldamótin 1900. Þá var ekki mikið verið að mála á landinu. Fyrstu lærðu málararnir komu til sögunnar 1905 eða 06 og ekki mikið málað áður en þeir komu til sögunnar.
Þegar farið var að mála hér var línóleummálning mest notuð, en kalkmálningin líka. Efnin voru löguð á vinnustofum málaranna, sem fengu þá jafnframt vinnuna við að mála. Hér verður að hafa í huga að málningin kom ekki hingað tilbúin til notkunar, heldur þurftu málararnir að blanda hráefnunum saman, búa til málninguna.
Á þessu tímabili, frá 1900 til 1950–60, er eiginlega eingöngu notuð línóleummálning á það sem málað var hér á landi, hún er svona lengi. Eitthvað voru menn að nota kalkmálningu, en ég held að hún hafi verið notuð vitlaust hér. Hjá öðrum þjóðum, til dæmis Dönum, notuðu menn kalkmálningu mun lengur en við. Það var vegna þess að hún var rétt meðhöndluð. Við fengum hráefnið, duftið til að laga úr, en löguðum málninguna alltof þykka. Við vildum fá hvíta litinn upp strax. Þetta varð til þess að efnið náði ekki að síga inn í það sem verið var að mála. Ef það var múr, náði kalkið ekki að smjúga inn í múrinn, heldur lagðist bara utan á. Var of þykkt til að síast inn. Maður þarf að mála fimm til sex sinnum með kalki, það gerðu Danir. Þess vegna nota þeir kalkmálningu ennþá, vegna þess að þeir kunna að fara með hráefnið. Þetta hefur samt svolítið breyst hjá okkur.
Svo verður nýbylgja á Íslandi, ef svo má segja, eftir 1950. Þá kemur plastmálningin á markaðinn.“
–Var hún auðveldari í meðförum?
„Já, hún var það, miklu þægilegri en til dæmis límfarvinn; hann vildi alltaf smita og sama var með kalkmálninguna. En þegar menn byrja að framleiða plastið var það vegna þess að það var svo mikið umframframboð á gúmmíi eftir heimsstyrjöldina og þaðan kemur bindiefnið í plastmálninguna.
Áður var þetta mjög frumstætt, lélegt bindiefni sem hét polivinil asetate. Þannig efni notar maður ekki í dag.
–Þannig að gúmmíið gefur hráefnið í bindiefni plastmálningarinnar? 
„Já, og plastmálningin bindst ekki því sem málað er. Hún sígur mjög lítið inn í efnið sem verið er að mála. Mólikúlin eru það stór, einsog í límfarvanum; þau ná ekki að smjúga inn.
 
Margir plastpokar utan á húsunum
Þannig er lífið, eilíf þróun. En við erum alltaf við sama útgangspunktinn; þetta er plastefni. Og ég segi í dag; þegar við – mannskepnan – erum á fullu að ryðja frá okkur öllum plastpokum og plastefnum ýmiss konar, hvað skyldi vera ígildi margra plastpoka utan á húsunum okkar? Örugglega ansi margra. Það plast molnar ekki síður en pokarnir. Það flagnar af en eindirnar eru til staðar. Við þurfum að fara að hyggja að því.
Það er svo merkilegt með t.d. kalkmálninguna. Áður fyrr voru menn hér að kalka að innan gripahús og slíkar byggingar. Þá voru föt og húð útbíað í kalkblettum. Það var vegna þess að efnið var rangt notað. Danir nota þetta enn í dag og í Evrópu er ekkert annað notað en kalkmálning, til dæmis á stein. Þá er það bara steinmálning sem notuð er, kalkmálning sem notuð er á réttan hátt. Þá er búið að blanda kalkið með marmarasalla og við það fæst aukin binding. Það er kallað sílikat og það þyrftum við að nota meira hér á landi. Menn vilja hins vegar ekki nota sílikatið hérna vegna þess að það er dýrara að koma því á en plastmálningunni. Það þarf að fara að hyggja að þessu. Plastefnið er bara húð. Ég man að í Óðinsvéum var mikið rætt um plastmálninguna, hvað við værum heppin að fá hana. En mönnum sýndist samt sitt hverjum. Við ræddum um rannsóknir sem gerðiar höfðu verið í Þýskalandi og voru kynntar fyrir okkur. Og þá sagði einn efnafræðikennarinn: „Þetta á eftir að koma í hausinn á okkur, það er eitthvað að.
 
Menn þyrftu að  nota grímur 
Það er slæmt fyrir heilsuna að anda að sér uppgufuninni frá línóleummálningu. Í staðinn fyrir fyrir linoleum er þess vegna komið annað efni sem heitir alkítek. Það efni kemur í kögglum sem við skulum kalla kandís og þarf að hita og blanda gífurlega sterkum upplausnarefnum. Þá þyrftu menn að nota grímur fyrir vitunum. En það gerum við aldrei; sama hvort við ræðum um Íslendinga eða aðra; við notum ekki grímur þegar við notum alkítmálningu, eða olíumálningu eins og hún heitir á Íslandi. Við notum ekki varnartækin. Efnablandan gefur hins vegar til kynna að varna sé þörf. Af plastmálningu finnst varla lykt, en efnin eru þarna. Ég man að Málning hf. auglýsti á sínum tíma 00,0% lykt. En efnin eru þarna og þau rjúka upp við notkun þótt engin sé lyktin. Þegar svo efnin eru orðin þurr er erfitt að koma þeim fyrir kattarnef. Efnafræðingurinn í Óðinsvéum vissi sínu viti.“
–Hvað um sparslið; hvernig komst það inn í líf málara?
„Sandsparslið? Þegar menn fóru að byggja þessar stóru blokkir hér á landi, í kringum 1960–61, voru þær pússaðar með grófpússningu og fínpússningu. Áratug síðar, þegar ég kom frá námi í Óðinsvéum var verið að byrja að nota sandsparsl. Efnið var þannig að ekki mátti slípa það. Í dag er sandsparslinu sprautað á veggina, dregið úr með stórum spöðum og síðan slípað yfir. Áður var efninu smurt á veggina með sirka sex tommu spöðum og síðan filterað yfir vegna þess að í efninu var kvartssandur. Hann er svo harður að það má ekki slípa hann; þá varstu kominn í sama áhættuhóp og myndhöggvari þegar hann er að höggva út í marmara. Þetta er svo hart efni, 0,8 eða 0,9; ég held að marmari sé 0,9 í herslu. Þess vegna varð bara að pússa hann yfir. Þetta var ansi mikið stríð hérna. Þegar ég kom á markaðinn var þetta efni notað, flutt inn frá Ameríku.
Mönnum þótti þessi þróun slæm, sérstaklega málurunum. Þeir voru ekki góðir í að filtera. Það kunnu múrararnir, þannig að í raun var þetta múraravinna. Síðan var farið í að breyta efninu og nota marmarasand; hann má slípa. Sandurinn er mulinn niður í þær eindir sem óskað er eftir hverju sinni. Þetta er það efni sem notað er í dag. Breytingin í sand varð til þess að múrararnir misstu út filteringuna sem þeir kunnu frá fínpússningunni og þessi þáttur fór yfir til málaranna, 30–40% af vinnu þeirra. Það var svakalegt högg fyrir múrara og þeir börðust lengi fyrir að fá að vinna þetta með málurum. Úrskurðurinn í málinu varð sá að verkefni skyldu skiptast til helminga milli stéttanna. En það fæst enginn múrari við þetta í dag, hvorki hér á landi né í nágrannalöndunum.“
–Var þetta ekki slæm vinna fyrir öndunarfærin?
„Þegar menn filteruðu var engin hætta, það þurfti að slípa kornin til að fá ryk. En eftir að sandurinn kom myndaðist auðvitað fínt ryk og mönnum er uppálagt að nota andlitsgrímur. Ég hef ekki heyrt að kvartað sé undan rykinu.“
 
Penslar og svín
–Þetta var fljótlegt yfirlit yfir efnin sem þið málarar notið. En hvað um verkfærin?
„Verkfæri málara eru auðvitað penslar og rúllur, sem við veljum eftir þeim verkefnum sem við erum að vinna; hár í penslum af hinum ýmsu skepnum. Að vísu eru nánast eingöngu notaðir penslar með gervihárum nú til dags; svínaburstir eru að verða mjög sjaldgæfar.“
–Hvað er best?
„Svínaburst er best í ákveðnar gerðir málningar. Svo eru nælonburstir, þar sem nælonið er í raun ekkert annað en girnið á veiðistönginni þinni, talsvert fíngerðara þó. Þeir burstar eru mjög góðir í vatnsmálningu vegna þess að hún er svo miklu grófari. Ef notuð er línolíumálning eða alkít eru notuð sérstök hár. Alkít er eins konar gervilínolía, það sem við köllum olíumálningu í dag, leyst upp í gífurlega sterkum og hreinlega varasömum þynningarefnum. Í slíka málningu eru notuð svínahár.
Það er mjög erfitt að verða sér úti um svínahár. Áður fyrr voru starfræktir heilu búgarðarnir sem ræktuðu svín til pensilgerðar, í Rússlandi og fleiri austantjadslöndum.“
–Og uxu þá þessi hár aftur?
„Nei, þau voru bara tekin einu sinni. Þetti gætu hafa verið sérstök svínakyn, jafnvel eftir því í hvers konar pensla hárin áttu að fara, í hvað átti að nota þá. Maður notar til dæmis ekki sams konar pensla til að mála þök og svo aftur til að lakka glugga, jafnvel þótt þú notir sömu tegund af málningu.
Svo voru til svín sem voru alin utanhúss og hárin af þeim voru notuð harðgerðari pensla til utanhússmálningar. Einnig eru til alls konar penslar úr marðarhári, sem eingöngu eru notaðir til skiltamálunar, með löngum hárum. En nú er reyndar búið að fyrirgera þeirri framleiðslu; nú þarf að vernda mörðinn. Allt á sömu bókina lært.“
–Minnir mig á það; kenndirðu mikið skilta- eða leturmálun?
„Já, ég hef alltaf haldið því fram að það sé nauðsynlegt. Þegar við erum að mála letur erum við að æfa notkun á  skrifpensli. Og hann kemur víðar fyrir en í letri; hann kemur fyrir þegar mála þarf sveigjur. Við þurfum líka að æfa líkamann í að nota svona verkfæri.“
–Leggjast hárin þá á einhvern sérstakan hátt í sveigjum?
„Einmitt, þau reisa sig upp. Marðarhárspensillinn fer aftur í sama horf eftir strokuna. Þetta er sama lögmálið og með skrautritunarpenna, alveg rosalega fínt. 
Kennarar leggja núorðið ekki sömu áherslu á þetta, þeim er eiginlega alveg sama. Mér er það ekki. Fyrir mér er þetta spurning um metnað, að kunna þetta og kenna. En ekki ganga framhjá því. En þeir segja: „Þetta er bara fyrir skiltamálara eða svoleiðis gaura.“ Svona má ekki hugsa.“
 
Íþaka og MR og Jónas frá Hriflu 
–Snúum okkur að Íþöku og Menntaskólanum í Reykjavík.
„Já, nú er verið að endurgera Íþöku, bókasafn Menntaskólans í Reykjavík, allt húsið. Ég málaði salinn með límfarva í fyrra og hitteðfyrra. Verkefninu er ekki lokið, þannig að ég verð eitthvað áfram með þetta skemmtilega verkefnið og reyndar er byrjað á skólahúsinu líka.“
–Þú vinnur þetta sumsé með efnum sem notuð voru þegar húsið var byggt? 
„Já og það er gaman að sjá nemendur skólans sýna verkefninu mikinn skilning og virðingu. Við svona endurnýjun eru notuð mjög viðkvæm efni sem krefjast ákveðinnar tillitssemi í umgengni. Menntaskólaaldurinn er kannski versti aldurinn, svona 17 til 18 ára, en þau virða það sem verið er að gera og taka tillit til þess.
Þannig var að í kringum 1950 fóru veggir skólans að springa mjög mikið. Þá var Jónas frá Hriflu menntamálamálaráðherra. Þegar borin var undir hann ósk um að lagfæra veggina sagði hann bara: „Það er til efni sem heitir krossviður, við klæðum bara veggina með honum.“ Og það var gert, í öllum menntaskólum landsins, og loftið líka sums staðar.
En þegar verið er að eiga við þetta núna er allt krosssprungið innan við klæðninguna, gamla klæðningin var farin að molna í gegn. Þannig að verkið verður miklu meira en gert var ráð fyrir.
Skólinn er upphaflega byggður í Kristiansand í Noregi, fluttur hingað. Í milliveggjum eru sefstangir og þær sparslaðar með gifsi, sem síðan er slípað til og lagfært. Síðan málað með límfarva.
Þegar ákveðið var að ganga í endurnýjunina fyrir þremur árum var ekki gert ráð fyrir að það yrði eins dýrt og raunin varð. En veggirnir voru svo illa farnir. Yngvi Pétursson þáverandi rektor Menntaskólans í Reykjavík hafði mikinn áhuga og metnað til að skólinn fengi sitt upprunalega útlit, en auðvitað er þetta svakalegur kostnaður. En það gengur náttúrlega ekki að setja bara krossvið yfir allt.“
–Er líf eftir málningu?
„Já já. Ég er alla vega mjög ánægður með ellina. Tók upp á því að mála myndir í hitteðfyrra. Hafði farið í Myndlista- og handíðaskólann og seinna Myndlistarskólann í Reykjavík, við Freyjugötu. Ég mála mikið og er búinn að halda fjórar einkasýningar. Ég efast ekki um að það sé mikið málað hinum meginn. En það er spurning hvort maður kemst í almennilegt starf þar. Ég vona samt að ég eigi eitthvað inni hjá almættinu eftir að hafa endurnýjað allar þær kirkjur sem ég hef átt við. Gamall vinnufélagi minn var einhverju sinni að gantast með þessi mál og spurði hvort það yrði ekki nóg að banka bara á gullna hliðið og spyrja eftir Helga Grétari.
helgi og floki crop
Myndlistarmennirnir Helgi Grétar og Alfreð Flóki.
–hm