Traust félag og góður árangur

 


Hilmar Harðarson
Formaður

- Sameiningar hafa eflt félagið gríðarlega

Hilmar Harðarson er formaður og framkvæmdastjóri Félags iðn- og tæknigreina. Félagið varð til á vormánuðum árið 2003 þegar Bíliðnafélagið - Félag blikksmiða, Málarafélag Reykjavíkur, Sunniðn, Félag byggingaiðnaðarmanna í   Hafnarfirði og Félag garðyrkjumanna sameinuðust. Seinna bættust við Sveinafélag málmiðnaðarmanna á Akranesi, Iðnsveinafélag Suðurnesja, Sveinafélag járniðnaðarmanna í Vestmannaeyjum og Sveinafélag pípulagningarmanna. Hilmar segir að félagið sé stéttar- og fagfélag fyrir iðn- og tæknigreinar í nútíma samfélagi með áherslu á hagsmunagæslu og menntun fyrir félaga sína. Félagsmenn eru tæplega 4000 talsins og fer fjölgandi enda erum við stærsta einstaka iðnaðarmannafélagið á landinu, og mikil gróska í félaginu. 
“Í upphafi voru efasemdir um að þessi ólíku félög ættu samleið en það er ljóst að allir sprotar félagsins hafa eflst við sameininguna”, segir Hilmar. Hann segir að allir séu að vinna að sömu markmiðum og nú hafi verið náð hagkvæmari rekstri á félagseiningunni og því sé meira fé í að efla bæði endurmenntun og fræðslu á meðal félagsmanna. Nýi kjarasamningurinn kemur í fyrsta skipti inn á endurmenntun á launum. Þar eru mikil sóknarfæri fyrir félagið að ná til þess fólks sem vill frekar sinna faglegum en ekki pólitískum málum í félagsstarfinu. Við höfum verið að halda sérstaka faggreinafundi, þar sem menn í öllum greinum félagsins hittast og ræða faglegan þátt sinnar greinar. Þeir fundir hefjast gjarnan á sameiginlegum fundi þar sem haldnir eru áhugaverðir fyrirlestrar og svo skiptast hóparnir upp og hver grein heldur fund um sín mál. segir Hilmar. ,,Við erum að sameina nokkrar ólíkar greinar en iðnaðarmenn á Íslandi eiga mjög margt sameiginlegt. Til dæmis eiga garðyrkjumaðurinn og málarinn sameiginlega hagsmuni í launum og kjörum þó faglegu þættirnir séu ólíkir. Sameiginlega geta þeir verið þátttakendur í sterku og öflugu félagi þar sem faggreinarnar fá að njóta sín.” Hilmar segir að aðalverkefni félagsins séu alltaf kjaramál og réttindamál þeirra greina sem standa að félaginu. ,,Auk þess erum við með öfluga sjóði, sjúkrasjóð, sem sífellt er að auka greiðslur og þjónustu, orlofssjóð sem margir öfunda okkur af, menntasjóð, sem innan fárra ára verður einn sá öflugasti, félagssjóð sem stendur mjög vel og góðan verkfallssjóð sem í dag vex og vex af vaxtatekjum. Við erum því gríðarlega öflugt félag á íslenskan mælikvarða”, segir Hilmar.
 

Aukin þjónusta

Hilmar segir að í nútíma samfélagi vilji félagsmenn fá þjónustuna nær sér. ,,Þess vegna erum við að taka vefinn okkar í gegn og munum leggja mikla áherslu á aukið þjónustustig þar, með upplýsingum um félagið og þjónustu þess ásamt rafrænum samskiptum. En að sjálfsögðu munum við taka fullt tillit til eldri félagsmanna og sú þjónusta sem við höfum verið með fyrir mun ekki skerðast við þessa auknu þjónustu á netinu. Hilmar segir einnig frá auknu framboði orlofsíbúða, en félagið býður upp á 27 orlofsbústaði víðs vegar um landið og tjaldvagna. ,,Við erum að taka íbúð í Vestmannaeyjum í gagnið sem við höfum endurnýjað mikið. Við erum nýlega búin að kaupa hús á Flórída og hafa viðtökurnar við því verið frábærar og nú erum við að skoða fleiri möguleika eins og kaup á íbúðum í Kaupmannahöfn og Berlín. Svo höfum við íbúð á Spáni sem okkar félagsmenn hafa einnig nýtt mikið á veturna. Síðan er verið að taka sumarhúsin okkar í gegn. Við viljum að fólk njóti dvalarinnar í orlofshúsum félagsins, og við þolum allan samanburð í þessum efnum, fá ef nokkur félög standa okkur á sporði í orlofsmálum”, segir Hilmar.

 

Nýir kjarasamningar

Hilmar segir að menn hafi tekist á við erfitt verkefni við gerð kjarasamninga. Það var haldin trúnaðarmannaráðstefna síðastliðið haust um hvað við ættum að leggja upp með í þessum kjarasamningum. Við fengum það hlutverk að semja um aukið frí og hækkun lægstu launa.,,Það er ljóst að efnahagsmálin hafa verið í uppnámi og miðað við stöðuna tel ég að við höfum náð ásættanlegum árangri. Niðurstaða kosninga um samningana sýnir að félagsmenn virðast einnig vera sáttir. Það var mikilvægt að hækka lægstu launin sérstaklega, annars hefði bilið enn aukist á milli greiddra launa og launataxtanna. Ef menn hækka ekki lægstu launin þá verður öryggisnet félagsmanna lægra. Við verðum að passa að launataxtar séu ekki allt of lágir því að á samdráttartímum eru launin það fyrsta sem ráðist er á við hagræðingu í rekstri fyrirtækja. Það er einnig ljóst að í þeim greinum þar sem ennþá er þensla og vöntun á starfsfólki, mun launaskrið halda áfram, segir Hilmar.

Hilmar segir að félagið hafi viljað kynna nýjan kjarasamning vel. ,,Við kynntum samninginn á mörgum mjög vel sóttum fundum með okkar félgsmönnum, allt frá Akranesi til Vestmannaeyja. Við náðum að skýra vel hvað þessi nýi kjarasamningur gengur út á. “Það sem stendur upp úr samningunum er auk hækkunar lægstu launa möguleikinn á endurmenntun á launum, sem er mál sem ég tel gríðarlega mikið framfaraspor, bæði fyrir starfsmenn og fyrirtækin. Þetta er nú komið inn í kjarasamninga og mun sanna sig á næstu árum, með þátttöku bæði stórra og smárra fyrirtækja. Einnig er ávinningur í verulegri breytingu á slysatryggingunum, þar sem náðist að tryggja hækkun á bótum fyrir þá sem eru yngri. Það er þó alveg ljóst að besta kjarabótin verður ef við náum verðbólgunni niður og að kaupmáttur helst áfram og jafnvel eykst. Við höfum þá trú að þessir kjarasamningar stuðli að verðbólguhjöðnun og kaupmáttaraukningu eins og ætlast er til af þeim og endurskoðunarákvæðin segja skýrt til um.

 

Starfið framundan

Hilmar segir það ljóst að samkeppni muni aukast á komandi árum á milli stéttarfélaga. ,,Tímarnir eru að breytast. Fólk er að spyrja hvað það fær fyrir sína aðild að stéttarfélögum. Við ætlum að gera okkar allra besta og standast samkeppnina “ við erum í forystu í dag og ætlum að vera það áfram”. Félaginu hefur gengið mjög vel á síðustu árum. Okkur hefur verið boðið á nokkra félagsfundi annarra félaga þar sem við höfum kynnt það sem við höfum verið að gera. Það hefur leitt til þess að menn vildu ganga til liðs við Félag iðn- og tæknigreina. Stærðin og hagkvæmnin er alltaf að aukast og vonandi mun félagið fá enn fleiri til liðs við sig á næstu misserum. Samlegaðaráhrifin hafa ekki látið á sér standa og við gátum lækkað félagsgjöldin hjá okkur í 0,7% um síðustu áramót og við höfum einnig getað verið með þak á félagsgjöldunum. Við erum með algjöra sérstöðu í þessum efnum”, segir Hilmar “ með þessu gátum við sýnt félagsmönnum að það gengur vel og þeir fá góða þjónustu hjá sínu félagi”. 
Félag iðn- og tæknigreina er aðili að Iðunni fræðslusetri sem er endurmenntunarstofnun iðngreina. Þar er verið að vinna gríðarmikið starf á sviði sí- og endurmenntunar. Tilraunaverkefnið ,,Bættu um betur” er gott dæmi um það og hefur gengið ótrúlega vel. Þar reynum við að ná í þá einstaklinga sem hafa af einhverjum ástæðum fallið út úr námi, og reynum að endurmeta þá aftur inn í kerfið. Það er frábært að sjá þátttökuna, en þarna erum við að ná í einstaklinga og aðstoða þá við að ljúka sínu námi”, segir Hilmar. ,,Öll þessi þjónusta gerir okkur að sjálfsögðu sýnilegri fyrir fólki sem er að vinna í þessum starfsgreinum, og með því vonumst við til þess að þeir sem hafa ekki séð hag sinn í því hingað til að vera í stéttarfélagi nýti sér það að ganga inn í svo öflugt félag. Ég vil líka hvetja alla félagsmenn til að kynna sér og nýta alla þjónustu sem félagið býður uppá. Þeir sem nýta sér endurmenntun njóta almennt betri launakjara. Betri menntun leiðir til meiri framleiðni sem er svo arðsamara fyrir viðkomandi fyrirtæki”. Hilmar hvetur einnig félagsmenn til að mæta á aðalfund félagsins þann 29. mars næstkomandi þar sem verður m.a. kynnt ný heimasíða félagsins og nýr orlofsvefur opnaður. “Þar geta félagsmenn fylgst með og fræðst um stöðu okkar bæði varðandi fasteignir okkar og sjóði", segir Hilmar að lokum.