Ráðningarsamningar


„Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess."

- Veist þú hvað þú ert að skrifa undir?

Inn á borð Félags iðn- og tæknigreina hafa borist kvartanir frá félagsmönnum vegna krafna sumra atvinnurekanda um að þeir skrifi undir ráðningarsamninga er hafi að geyma ýmis sérstök og óhefðbundin samningsákvæði.

 

Eins og kunnugt er hefur kjarasamningur félagsins að geyma reglur um skyldu atvinnurekanda til að gera skriflegan ráðningarsamning við starfsmenn sína. Efni slíkra samninga er með hefðbundnu sniði, þ.e. tilgreina ber heiti aðila ráðningarsamningsins, starfstöð, starfshlutfall og vinnutíma, laun o.s.frv. Félagið styður eindregið að atvinnurekendur haldi sig við þessa gerð samninga.

Dæmi eru hins vegar um atvinnurekendur sem hafa krafist þess af starfsmönnum sínum að þeir riti undir nýjan tegund ráðningarsamninga, sem m.a. hafa haft að geyma yfirlýsingu þess efnis að komi til starfsloka muni þeir ekki hefja störf hjá samkeppnisaðilum eða eftir atvikum ekki stofna sjálfir til atvinnurekstrar í samkeppni við sinn fyrri atvinnurekanda. Dæmi eru um að slíkir samningar bindi starfsmenn í allt að 1 ár eftir starfslok.
 

Að mati lögmanna FIT skerða slík ákvæði atvinnufrelsi launamanna sem nýtur verndar stjórnarskrárinnar. Ber að túlka heimildir atvinnurekanda að þessu leyti þröngt. Í 75. gr. stjórnarskrárinnar segir orðrétt: „Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess."
 

Að mati FIT er ekki ástæða fyrir félagsmenn FIT að undirgangast slíka skerðingu á atvinnufrelsi sínu nema í hlut eigi félagsmenn í stjórnunarstöðum og aðrir þeir sem hafi aðgang að viðkvæmum viðskiptaupplýsingum sem óumdeilt er að nýst geti samkeppnisaðilum til skaða fyrir fyrri atvinnurekanda. Þá verði slík ákvæði að vera mjög skýr að efni til og gildistími þeirra skammvinnur og laun séu greidd á skerðingartíma. Bent er á að hefðbundnar yfirborganir sem félagsmenn þekkja vel réttlæta ekki einar og sér að þeir undirgangist skerðingu á atvinnufrelsi sínu.

Þá eru dæmi þess að atvinnurekendur áskilji sér rétt til að krefja starfsmenn um endurgreiðslu á útlögðum kostnaði vegna námskeiða sem þeir hafa verið sendir á. Ef atvinnurekandi hefur lagt út verulegar fjárhæðir í þessu skyni þá er ekki óeðlilegt að hann geri kröfu um að starfsmaður vinni tiltekinn tíma hjá honum að loknu námskeiði en endurgreiði ella að hluta þennan kostnað. Setja verður slíkum heimildum atvinnurekanda sérstakar takmarkanir m.a. um það hve lengi starfsmenn skuli vera bundnir af slíkum ákvæðum og hvaða reglur skuli gilda um útreikning slíkrar endurgreiðslu. Ef starfsmanni er sagt upp er eðlilegt tryggja það að slíkar kvaðir falli úr gildi.

Að mati FIT á þetta þó ekki við um námskeið sem félagsmenn FIT sækja, hér heima eða erlendis, sem atvinnurekanda ber að senda þá á vegna sérstakra tengsla hans við þann aðila sem stendur fyrir námskeiðinu s.s. erlenda bílaframleiðendur. Öll almenn endurmenntunarnámskeið eiga að sjálfsögðu heldur ekki að falla undir neinar kvaðir.
 

Sérstök samningsákvæði


Nokkur dæmi eru um að atvinnurekendur setji inn sérstök samningsákvæði um að starfsmönnum sé óheimilt að upplýsa um laun og önnur starfskjör sín og segi að launakjör beri að skoða sem algert trúnaðarmál milli fyrirtækis og starfsmanns og sé starfsmanni óheimilt að ræða kjör sín við aðra starfsmenn eða utankomandi aðila. Slíkir samningar innihalda þá gjarnan ákvæði sem segja að brot á þessari þagnarskyldu varði fyrirvaralausum brottrekstri. Af hálfu FIT hefur slíkum samningsákvæðum verið mótmælt harðlega við viðkomandi atvinnurekandur. Bent er á að félagsmönnum FIT er fullkomlega heimilt að ræða um laun sín og önnur starfskjör við trúnaðarmenn stéttarfélagsins á vinnustað og við forsvarsmenn síns stéttarfélags. Þá er þeim heimilt að veita upplýsingar um sín launakjör í launakönnunum sem FIT stendur reglulega fyrir.
 

Þetta gildir um þau kjör sem félagsmönnum FIT eru tryggð með kjarasamningi, vinnustaðasamningi og öðrum samningum sem þeir eru aðilar að, þ.m.t. ráðningarsamningi. Verða félagsmenn FIT ekki bundnir þagnarskyldu um þessi atriði.

FIT leggur á að það mjög ríka áherslu að félagsmenn haldi vöku sinni í þessum málum. Geri atvinnurekandi kröfu um að ráðningarsamningi starfsmanns sé breytt á þann veg að sett séu í hann sérstök og óvanaleg samningsákvæði þá mælir FIT eindregið með því að hlutaðeigandi félagsmaður hafi samband við skrifstofu félagsins og óski eftir aðstoð eða milligöngu félagsins gagnvart atvinnurekanda.