Kjarasamningar

- Breytingar þær sem hér er fjallað um eiga við kjarasamning Samiðnar og SA, Samiðnar og Meistarasambands byggingamanna, Samiðnar og Sambands garðyrkjubænda og Samiðnar og Bílgreinasambandsins, nema annað sé tekið fram í millifyrirsögn.

LAUNATAXTAR HÆKKA

Umsamdir lágmarkstaxtar hækka þann 1. febrúar um kr. 21.000 hjá iðnaðarmönnum en kr. 18.000 hjá aðstoðarmönnum iðnaðarmanna.


BREYTINGAR Á LAUNAFLOKKUM

Launaflokkur 1 gildir nú um iðnaðarmenn meða sveinspróf eða sambærilega menntun.Inn kemur nýr kauptaxti, launaflokkur 2 fyrir iðnaðarmenn sem ekki uppfylla launaflokk 1 en hafa starfsréttindi frá sínu heimalandi til iðnaðarmannastarfa. Starfsmaður skal þó ekki taka laun skv. þessum launaflokki lengur en 2 ár, enda sýni hann fram á að hann hafi unnið í a.m.k. 2 ár í iðn sinni hér á landi. Starfstími samkvæmt launaflokki þessum telst ekki til starfstíma skv. launaflokki 1. Við tilfærslu í launaflokk 1 byrjar starfsmaður að ávinna sér sjálfstæðan ávinnslurétt skv. launaflokki 1.


LAUNAÞRÓUNARTRYGGING

Starfsmaður sem starfað hefur hjá atvinnurekenda 2. jan. 2007 til 1. febr. 2008 á rétt á 5,5% launahækkun. Frá dragast þó hækkanir sem starfsmaðurinn hefur fengið á tímabilinu.

Starfsmaður sem hóf störf á tímabilinu 2. janúar til loka september á rétt á 4,5% hækkun. Frá dragast þó hækkanir sem starfsmaðurinn hefur fengið fram til 1. febr. 2008


DESEMBER OG ORLOFSUPPBÓT

Full desemberuppbót ársins 2008 verður kr. 44.100. Full orlofsuppbót ársins 2008 verður kr. 24.300. Uppbætur iðnnema reiknast nú sem hlutfall af vinnuframlagi ársins.


STARFSMANNAVIÐTÖL

Starfsmaður á rétt á viðtali við yfirmann einu sinni á ári um störf sín, þ.m.t. frammistöðu og markmið og hugsanlegar breytingar á starfskjörum. Óski starfsmaður eftir viðtali skal það veitt innan tveggja mánaða og niðurstaða þess liggja fyrir innan mánaðar.
 

ORLOFSAUKI MÁLMIÐNAÐARMANNA OG AÐSTOÐARMANNA Í IÐNAÐI

Starfsmaður sem unnið hefur í 5 ár í sömu starfsgrein á rétt á orlofi í 25 virka daga og orlofslaunum sem nema 10,64%. Starfsmaður sem unnið hefur 10 ár í sömu starfsgrein á rétt á orlofi í 27 virka daga og orlofslaunum sem nema 11,59%. Starfsmaður sem unnið hefur 5 ár í sama fyrirtæki á rétt á orlofi í 28 virka daga og orlofslaunum sem nema 12,07%. Starfsmaður sem unnið hefur 10 ár í sama fyrirtæki á rétt á orlofi í 29 virka daga og orlofslaunum sem nema 12,55%. Á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2009 breytast 29 dagar í 30 daga og orlofsprósentan í 13,04%. Starfsmaður sem öðlast hefur aukinn orlofsrétt vegna starfs hjá sama vinnveitanda öðlast hann að nýju hjá nýjum vinnuveitanda eftir þriggja ára starf, enda hafi rétturinn verið sannreyndur.
 

ORLOFSAUKI BYGGINGA-, GARÐYRKJU- OG BÍLIÐNAÐARMANNA
Þeir sem starfað hafa lengur en 5 ár í iðn sinni skulu fá fjóra daga til viðbótar, í heild 28 daga, og hafa orlofsprósentu sem er 12,07%. Starfsmaður sem unnið hefur 5 ár í sama fyrirtæki á rétt á 29 virkum dögum og orlofslaunum sem nema 12,55%. Starfsmaður sem unnið hefur samfellt í 10 ár í sama fyrirtæki á rétt á 30 virkum dögum og orlofslaunum sem nema 13,04%.

 

Starfsmaður sem öðlast hefur aukinn orlofsrétt vegna starfs hjá sama vinnveitanda öðlast hann að nýju hjá nýjum vinnuveitanda eftir þriggja ára starf, enda hafi rétturinn verið sannreyndur.
 

AUKINN RÉTTUR IÐNNEMA

Námstími iðnnema í fyrirtæki telst til vinnu í starfsgrein eða til vinnu innan sama fyrirtækis. Veita ber a.m.k. 20 virka daga á tímabilinu 2. maí til 15. september. Orlof umfram það má veita utan þess tímabils og ákvarðast með minnst eins mánaðar fyrirvara. Þeir sem samkvæmt ósk atvinnurekanda fá ekki 20 orlofsdaga á sumarorlofstímabili eiga rétt á 25% álagi á það sem vantar uppá 20 daga.
 

FAGTENGD NÁMSKEIÐ
(ALLAR GREINAR NEMA BÍLGREINAR)

Eftir eins árs starf hjá sama fyrirtæki eiga starfsmenn rétt á að sækja fagtengd námskeið fræðslustofnana samtaka atvinnurekanda og launamanna. Við það er miðað að árlega geti þeir varið allt að 16 dagvinnstundum til námskeiðssetu án skerðingar á föstum launum þó þannig að a.m.k. helmingur námskeiðsstunda sé í þeirra eiginn tíma, utan dagvinnutíma viðkomandi. Heimilt er að geyma þennan rétt milli ára þannig að greiðsluréttur getur orðið allt að 24 dagvinnustundir.
 

Starfsmenn sem unnið hafa þrjú ár samfellt hjá sama fyrirtæki skulu á tveggja ára fresti eiga rétt á allt að 40 dagvinnustundum til námskeiðssetu á fagtengdum námskeiðum án skerðingar á föstum launum, þó þannig að a.m.k. helmingur námskeiðsstunda sé í hans eiginn tíma. Réttur þessi kemur í stað þess réttar sem getið er í 1. mgr.
Tími til námskeiðssetu skal valinn með hliðsjón af verkefnastöðu viðkomandi fyrirtækja.
 

FAGTENGD NÁMSKEIÐ Í BÍLGREINUM

Til viðbótar áður umsömdum rétti til að sækja fagtengd námskeið verður starfsmönnum nú heimilt að geyma rétt sinn milli ára þannig að greiðsluréttur getur orðið allt að 32 dagvinnustundir.
 

Starfsmenn sem unnið hafa þrjú ár samfellt hjá sama fyrirtæki skulu á tveggja ára fresti eiga rétt á allt að 40 dagvinnustundum til námskeiðssetu á fagtengdum námskeiðum án skerðingar á föstum launum . Réttur þessi kemur í stað þess réttar sem getið er í 1. mgr.
 

VEIKINDI BARNA

Á fyrsta starfsári hjá sama vinnuveitanda skal foreldri heimilt að verja tveimur dögum fyrir hvern unninn mánuð, þangað til rétturinn verður 12 dagar á hverju 12 mánaða tímabili, til aðhlynningar sjúkum börnum sínum undir 13 ára aldri, enda verði annari ummönnun ekki við komið og halda þá dagvinnulaunum sínum, svo 
og vaktaálagi þar sem það á við.
 

NÝ ÁKVÆÐI UM UPPSAGNIR

Almennt um uppsagnir

Uppsagnarfrestur er gagnkvæmur. Allar uppsagnir skulu vera skriflegar og gerðar á sama tungumáli og ráðningarsamningur starfsmanns.

Viðtal um ástæður uppsagnar

Starfsmaður á rétt á viðtali um starfslok sín og ástæður uppsagnar. Beiðni um viðtal skal koma fram innan fjögurra sólarhringa frá því uppsögn er móttekin og skal viðtal fara fram innan fjögurra sólarhringa þar frá.

Starfsmaður getur óskað þess að loknu viðtali eða innan fjögurra sólarhringa að ástæður uppsagnar séu skýrðar skriflega.

Fallist atvinnurekandi á þá ósk hans, skal við því orðið innan fjögurra sólarhringa þar frá.

Fallist atvinnurekandi ekki á ósk starfsmanns um skriflegar skýringar, á starfsmaður innan fjögurra sólarhringa rétt á öðrum fundi með vinnuveitanda um ástæður uppsagnar að viðstöddum trúnaðarmanni sínum eða öðrum fulltrúa stéttarfélags síns ef starfsmaður óskar þess.
 

SAMNINGSFORSENDUR
- FRAMLENGING EÐA UPPSÖGN

Sérstök forsendunefnd skipuð tveimur fulltrúum tilnefndum af samninganefnd ASÍ og tveimur af SA skal taka þegar til starfa. Hún skal fjalla um þróun efnahagsmála á samningstímanum og eftir atvikum leita eftir samstarfi við stjórnvöld, í því skyni að stuðla að því að markmið samnings þessa um lága verðbólgu og sérstaka hækkun lægstu launa nái fram að ganga. Í byrjun febrúar 2009 skal fjalla sérstaklega um framlengingu samningsins fyrir tímabilið 1. mars 2009 til 30. nóvember 2010 Samingurinn framlengist til 30. nóvember 2010 hafi báðar forsendur samningsins staðist.
 

1. Annars vegar þarf kaupmáttur launa á almennum vinnumarkaði að hafa haldist eða aukist á samningstímanum (tímabilinu janúar 2008 - til desember 2008) samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands.
 

2. Hins vegar þarf verðbólga að hafa farið lækkandi. Með lækkandi verðbólgu er átt við að verðbólga innan ársins 2008 þ.e. 12 mánaða verðbólgan í desember 2008 sé lægri en 5,5%. Ennfremur að verðbólga á 6 mánaða tímabilinu ágúst 2008 - janúar 2009 sé innan við 3,8%, miðað við árshraða.
 

Nú hefur önnurhvor samningsforsendan eða báðar ekki staðist skal þegar í stað kalla saman fund samninganefndar ASÍ og SA sem leita skal samkomulags um viðbrögð til að stuðla að framgangi markmiðs samningsins, festa forsendur hans í sessi og tryggja að samningurinn haldi gildi sínu. Nú næst ekki samkomulag og skal þá sá aðili sem ekki vill framlengingu samningsins skýra frá þeirri ákvörðun og fellur þá samningurinn úr gildi frá lokum febrúar 2009, ella framlengist samningurinn til 30. nóvember 2010.
 

AÐKOMA STJÓRNVALDA

Af hálfu stjórnvalda koma aðgerðir í skatta¬málum með hækkun skattleysismarka og barnabóta. Í húsnæðismálum er dregið úr skerðingu vaxtabóta vegna eigna, húsaleigubætur hækka og framboð aukið af félagslegu húsnæði.