Ástandið í þjóðfélaginu

   
  Hilmar Harðarson
Formaður

Enn virðist nokkuð í að botninum sé náð í þeirri miklu efnahagslægð sem íslenskt þjóðfélag er í um þessar mundir. Daglega heyrum við fréttir af ótrúlegum, siðlausum viðskiptum sem viðgengust í bönkunum þar sem þeir lánuðu stórar fjárhæðir til hlutabréfakaupa í sjálfum sér gegn veði í þeim sjálfum, allt til að falsa raunverulegt eigin virði. Við hljótum að spyrja okkur, er þetta löglegt? Hvernig má það vera að svona geti viðgengist mánuðum saman án þess að fjárlmálaeftirlitið lyfti fingri til aðvörunar. Fljótlega eftir hrunið fóru að koma fréttir um pappírsfyrirtæki sem eftirlitið segist hafa verið með til skoðunar löngu áður en bankarnir hrundu. Er ekki að vænta neinnar niðurstöðu? Voru þetta eðlileg viðskipti eða var þetta lögbrot?

Það er eins og enginn geti eða vilji upplýsa um hvert rannsóknum miðar. Það eru flestir sammála um að Fjármálaeftirlitið hafi algerlega brugðist sínu hlutverki, er þá við því að búast að menn á þeim bæ séu tilbúnir að rannsaka þessar ávirðingar? Auðvitað er öllum ljóst að með því að upplýsa um óeðlilega eða ólöglega viðskiptahætti þá væri eftirlitið að segja að þeir hafi ekki staðið sig. Því hljótum við að spyrja hversvegna er ekki skipt um áhöfn þar á bæ. Þetta á reyndar við um alla sem áttu að gæta þess að þjóðin lenti ekki í þessu stórfellda skipsbroti. Hvar annarsstaðar í lýðræðisríki  væri ekki búið að skipta um ráðamenn sem sigldu þjóðarskútunni svo rækilega upp á sker eins og hér hefur verið gert.

Erlendir hagfræðingar hafa marg bent á að erlend fjármálafyrirtæki og fjárfestar munu ekki koma nálægt Íslandi meðan ekkert breytist. Og meðan ekkert breytist fá íslensk fyrirtæki eða bankar engin lán til framkvæmda, atvinnan dregst saman og fyrirtæki og heimili stefna hraðbyri í fjöldagjaldþrot. Það er ekki nóg að líta í eigin barm og segjast ekki ætla að hlaupast undan ábyrgð og sitja sem fastast. Stundum verða menn nefnilega að axla ábyrgð með því að víkja. Við krefjumst þess að hagsmunir almennings verði hafðir í fyrirrúmi og sérhagsmunir, hvort sem þeir eru hjá embættis- eða stjórnmálamönnum, verði látnir víkja svo hér verði sem fyrst hægt að hefja alvöru uppbyggingu. Sú uppbygging verður að grundvallast á hagsmunum fjöldans, þ.e. hagsmunum launafólks.  Jafnhliða hljótum við að setja á oddinn kröfuna um nýtt siðferði þar sem grundvallarreglur um rétta og ranga mannlega breytni eru hafðar að leiðarljósi. 

ENDURSKOÐUN LAUNALIÐS KJARASAMNINGA

Nú eru hafnar viðræður um endurskoðun á launalið síðustu kjarasamninga. Ljóst er að það er erfitt verk sem þar er á ferð því sannarlega er staðan allt önnur og verri en menn væntu þegar skrifað var undir í fyrra. Forsvarsmenn atvinnurekenda hafa lýst því yfir að engar forsendur séu til launahækkana, heldur þvert á móti. Við blasir uppsögn samninga takist ekki að finna leið út úr vandanum. Bent hefur verið á að hugsanlega megi semja um að fresta til haustsins umsamdri launahækkun 1. mars og fresta jafnframt endurskoðun á launaliðnum að öðru leyti . Allt er þetta álitamál sem þarf að skoða mjög vandlega. En spurningin virðist snúast um hvort sé betra fyrir hreyfinguna að semja um frestun eða fá uppsögn samninga. Og þó ástandið sé vissulega slæmt hjá fyrirtækjunum má heldur ekki gleyma því að heimilin í landinu eru líka í mjög slæmri stöðu. Matvara hefur hækkað mikið, afborganir lána eru að sliga mörg heimili og tekjusamdráttur er mjög víða í formi minni yfirvinnu og reyndar líka í formi hreinna launalækkana. Mörg heimili eiga því mikið undir þvi að vel takist til og að kjarasamningar haldi.