Mikil óvissa með framtíðina

   
  Hilmar Harðarson
Formaður

ÞARFAGREINING, NÁMSKEIÐ OG HEILSURÆKT
 

Undanfarna mánuði hefur verið unnið að þarfagreiningu meðal atvinnulausra félagsmanna. Þar  hefur verið reynt að greina hvaða námskeið og önnur úrræði hentuðu flestum atvinnulausum. Afraksturinn er að skila sér í fjölda ókeypis námskeiða hjá Iðunni og fleiri stofnunum sem vinnumarkaðsúrræði og styrkt eru af Vinnumálastofnun og stéttarfélögunum. Eins og fram kemur annarsstaðar hér í blaðinu mun FIT styrkja atvinnulausa félagsmenn sína til að stunda líkamsrækt, en FIT er aðili að samningi ASÍ við Samtök heilsuræktarsstöðva.

VIÐTÖL VIÐ RÁÐAMENN

Í janúar og febrúar ræddi Samiðn við ráðamenn stofnana og fyrirtækja um horfur í atvinnumálum. Meðal annarra sem rætt var við voru fulltrúar Orkuveitunnar og Landsvirkjunar, ráðherra vegamála og ráðherra iðnaðarmála einnig forsvarsmenn viðhalds fasteigna ríkisins. Á fundunum var lögð sérstök áhersla á að sjónum yrði beint að mannfrekum verkefnum Sérstaklega voru ráðherrarnir minntir á að Samiðn hefði lagt áherslu á 100%  endurgreiðslu virðisauka á byggingarstað og við viðhald húsnæðis. Fjármálaráðherra lagði fram frumvarp um þetta þann 9. febrúar og var það rætt þann 10. febrúar en hefur setið fast í nefnd síðan.

SAMBANDSSTJÓRNARFUNDUR, FRESTUN
LAUNAHÆKKANA


Í síðasta mánuði boðaði Samiðn til sambandsstjórnarfundar sem haldinn var á Grand Hótel. Eitt af því sem þar var til umræðu var sú ósk Samtaka atvinnulífsins að fresta umsömdum launahækkunum 1. mars. Á fundinum kom fram að mikil hætta væri á að SA segði upp gildandi kjarasamningi eins og heimild var fyrir og var samþykkt með þorra atkvæða að heimila samninganefnd ASÍ að semja um frestun á launahækkunum frekar en að honum yrði sagt upp og þar með glötuðust verðmæti úr samningnum sem semja þyrfti þá um að nýju. Þarna munar mestu fyrir málmiðnaðarmenn og aðra sem ekki hafa fengið 30. orlofsdaginn eftir 10 ára starf í fyrirtæki, að 1. maí n.k. munu þeir ná honum inn og fá 13,04% orlof á laun. Niðurstöðu samninganefndar ASÍ má lesa um hér annarsstaðar í blaðinu.

AÐGERÐIR STRAX


Nú fara menn að verða langeygðir eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að sporna við atvinnuleysi og horfa flestir þá til lækkunar á stýrivöxtum. Það getur ekki gengið lengur að fyrirtæki og heimilum sé siglt í strand með vaxtaokri. Öll lönd í hinum vestræna heimi hafa lækkað stýrivexti t.d. eru stýrivextir á Englandi þeir lægstu í sögunni en hér á Íslandi eru þeir í sögulegu hámarki. Svo koma eftirlitsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fram í fjölmiðlum og undrast að atvinnuleysi skuli aukast jafn mikið og raun ber vitni. Eigum við að hlæja eða gráta yfir svona málflutningi. Það verður að lækka stýrivexti mikið og það strax til að koma hjólum atvinnulífsins aftur á snúning.