Heiðaleiki, réttlæti og allt upp á yfirborðið

   
  Hilmar Harðarson
Formaður

Skattatillögur ríkisstjórnarinnar liggja nú fyrir. Álögur á millitekjufólk munu aukast mikið á næstu mánuðum og er hætt við að okkar hópur fái verulegar hækkanir. En hvað er til ráða? Einhverjir verða að borga útrásina og það hefur alltaf verið almúginn sem fær að blæða þegar auðmennirnir eru búnir að kollsteypa öllu. Við hljótum hinsvegar að gera ríka kröfu til þess í dag að umsvif ríkisins verði dregin verulega saman. Það eru víða matarholur í fjárlögunum sem hægt er að sækja í þó það kosti sársaukafullar aðgerðir. Líta þarf til þess að aukning á óbeinum sköttum s.s. virðisaukaskatti leiðir beint út í verðlagið sem aftur kallar á vísitöluhækkun sem síðan leiðir til hækkana á skuldum heimilanna. Talandi um skuldir, hvernig má það vera að fjármagnseigendur skuli vera svo rækilega tryggðir í bak og fyrir að þeir þurfi ekkert að taka þátt í samdrættinum. Fjölmörg heimili í landinu ramba á barmi gjaldþrots og það eina sem virðist vera hægt að gera fyrir þau er að lengja í lánunum. En engir peningar eru til að hjálpa almenningi, hann þarf að borga brúsann.
 

Senn líður að því að rannsóknarnefndin sem sett var á fót af þinginu skili af sér. Til stendur að setja á stofn þingnefnd sem fjalla á um meðferð mála sem ekki verður ákært í til saksóknara.  Nú viljum við fá allt upp á borðið og ekkert undanskilið. Þessa skýrslu á að birta þegar hún kemur og vinna málin af heiðarleika fyrir opnum tjöldum. Við erum nú þegar með nokkra saksóknara í vinnu til að taka á lögbrotum í kringum bankahrunið. Við hljótum að gera þá kröfu að óháðir aðilar yfirfari skýrsluna og dragi þá til ábyrgðar sem brotið hafa lög í þessu landi.  Sukkið og svínaríið sem virðist hafa viðgengist í bankakerfinu fyrir hrunið er með ólíkindum.  Ástarbréfin svokölluðu er auðvitað gjörningur sem víðast annarsstaðar væri búið að setja menn á bak við lás og slá fyrir. Þetta er ekkert annað en fals og klækir sem bitnar á okkur almúganum - hann skal hreinsa upp og borga. Krafan er skýr:
- heiðaleiki, réttlæti og allt upp á yfirborðið.
 

Á dögunum var haldinn þjóðfundur í Laugardalshöllinni.  Fundurinn heppnaðist ákaflega vel og vonandi halda menn fleiri slíka. Þarna var samankominn þverskurður þjóðarinnar sem skeggræddi og krufði málefni til mergjar. Það var mál til komið að þjóðin væri spurð hvað henni finnst og hvað hún vill. Þetta var í fyrsta skipti sem heil þjóð tekur þátt í stefnumörkun til framtíðar.  Íslendingar eru dugleg þjóð sem mun vinna sig út úr þessum tímabundna vanda. Mikilvægt er að byggja upp réttlátt og heilbrigt samfélag þar sem ástarbréfin verða notuð á sinn rétta hátt og innihalda sannar tilfinningar en ekki blekkingar.