Dökkt útlit framundan

   
  Hilmar Harðarson
formaður

Það á ekki af Íslendingum að ganga þessa dagana. Ekkert virðist ganga upp í efnahagsmálunum og ástandið versnar hratt. Skuldatryggingarálag ríkisins er eins og helíumblaðra þessa dagana, beint upp.

Ástæðuna telja menn vera af tvennum toga. Í fyrsta lagi þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave og í öðru lagi ótryggt ástand á fjármálamarkaði . Í því samhengi eru fimm lönd í Evrópu nefnd sérstaklega þ.e. Portúgal, Ísland, Írland, Grikkland og Spánn og ganga þau undir uppnefninu „svínalöndin" en sú nafngift skírskotar til fyrstu stafanna í nafni landanna (PIIGS) Ekki amalegur félagsskapur það.  
 

Það virðist vera að stjórnmálamenn taki hagsmuni flokkanna framyfir hagsmuni þjóðarinnar, endalaust er karpað og öll orka fer í það. Þetta Icesave mál ætlar að þvælast fyrir okkur einhverja mánuði í viðbót og orsaka enn meiri samdrátt og hamla fjármögnun á stórum framkvæmdum.
 

Atvinnuleysi hefur fram til þessa verið undir því sem búist var við en spáð hafði verið 10% atvinnuleysi um áramót en stóð þá í 8,2%. Síðan hefur sigið hratt á ógæfuhliðina og stefnir í verulega aukningu í janúar. Lítið virðist þokast í að koma nýjum verkefnum í gang og við blasir mikið viðvarandi atvinnuleysi. Það segir meira en mörg orð að á landinu öllu skuli einungis vera 103 störf í hefðbundinni vegagerð í 7 verkum, þar af helmingurinn í tveimur. Þess utan eru 160 önnur störf í vegagerð í 4 verkum þ.e. tveimur jarðgöngum með um 50 störf í hvorum göngum, 40 störf í Landeyjarhöfn og 20 störf eru í nýrri brú yfir Hvítá. Þess utan er gegndarlaus niðurskurður á öllum sviðum hjá ríkinu og litlar efndir á  stöðugleikasáttmálanum hvað varðar framkvæmdir.
 

Við hljótum að gera kröfu til þess að fundnar verði leiðir til að fara í mannfrek  viðhaldsverkefni um allt land. Í því sambandi er rétt að benda á fjölmargar eignir ríkisins, smáar og stórar sem sárlega þarfnast viðhalds.  Sama má segja um sveitafélög og einstaklinga sem huga þurfa að eignum sínum. Nú eiga allir þess kost að fá virðisauka endurgreiddan af viðhaldsframkvæmdum, líka sveitarfélög, svo ekki stendur það í veginum og ætti einnig að hamla gegn svartri atvinnustarfsemi. Það er margt hægt að gera ef viljinn er fyrir hendi og hagsmunir  þjóðarinnar settir í forgang.