Vakna þú mín Þyrnirós

   
  Hilmar Harðarson
formaður

Hagstofan mælir verðbólguna í 7,3% um þessar mundir. Þegar hrunið mikla varð, var okkur sagt að verðbólgan mundi hjaðna mjög hratt og krónan styrkjast. Fljótlega áttuðu menn sig þó á því að þetta tæki eitthvað lengri tíma og við tók óvissan.
 

Og óvissan virðist engan enda ætla að taka. Hver hagspáin rekur aðra sem segir að þetta verði svona nokkra mánuði í viðbót svo fari þetta að lagast.  En það bara gerist ekki. Úrræði ríkisstjórnarinnar eru lítil og fálmkennd og allur tími og kraftur fer í Icesave-deiluna. Stöðugleikasáttmálinn er að verða marklaust plagg og efnahagsáætlun Íslands og AGS í uppnámi. Ekki bætir úr skák að þjóðaratkvæðagreiðslan sem er framundan mun enn auka á óvissuna sem fyrir er og hættan á stjórnarkreppu eykst sem ef af verður mun enn auka á óvissuna. Allt þetta þýðir enn meiri samdrátt í efnahagslífinu sem mun enn auka á atvinnuleysið. Hagdeild ASÍ spáir nú að atvinnuleysið verði yfir 10% á árinu sem er að líða því landsframleiðslan muni dragast saman um 5%. Þetta eru algerlega óásættanlegar tölur og kominn tími til að þingmenn þjóðarinnar hætti að deila og snúi bökum saman.  Þessi mikli samdráttur sem blasir við, mun hafa domíno áhrif. Aukinn samdráttur mun leiða til aukins halla á ríkissjóði, sem aftur þýðir auknar skattaálögur sem sóttar verða í launaumslög landsmanna, en jafnfram þýðir þetta aukinn niðurskurð sem auka atvinnuleysið.
 

En af hverju er verðbólga á Íslandi á tímum þessa gífurlega samdráttar þar sem viðskiptajöfnuðurinn er hagstæður?


Hann hefur ekki verið jafn hagstæður í marga áratugi. Jú verðbólgan er innflutt. Þegar krónudruslan hrapaði, þurfti fleiri krónur til að borga fyrir innflutninginn. Fyrst héldu menn að sér höndum og vonuðu að gengisfallið kæmi að einhverju leyti til baka en þegar harðna tók á dalnum og lagerar innflutningsfyrirtækjanna fóru að tæmast, varð ekki hjá því komist að kaupa á háa genginu. Vöruverð hefur því farið hækkandi, ekki í einsstafa prósentum heldur í tugum  prósenta.  Þessar hækkanir þýða verðbólgu og þeir sem lánuðu peninga á Íslandi verða að geta keypt jafn mikið af vöru fyrir peninginn þegar þeir fá endurgreitt. Þetta kallast verðbætur.
 

Lítum til áranna 2006 og 2007.


Menn rekur kannski minni til að á þessum tíma kom það æði oft fyrir að gengi krónunnar var á dálitlu flökti. Helst var það þó rétt fyrir mánaramót sem slíkt varð. Enginn þóttist vita af hverju þetta stafaði, en svo kom í ljós að þetta stafaði af þeirri einföldu ástæðu, að fjármálafyrirtækin tóku stöðu gegn krónunni. Ef þessi aðgerð orsakaði ranga gengisskráningu sem leiddi til hækkunar á verðtryggðu lánunum , t.d. húsnæðislánum allra sem voru með þau í íslenskum krónum, þarf að leiðrétta það. Af hverju er þessi aðgerð fjármálafyrirtækjanna ekki skoðuð betur. Þetta er eitt af því sem hafa þarf í huga við leiðréttingu lána. Það er réttlætismál að fjármálafyrirtækin skili til baka ofteknu fé sem þau fengu í formi verðbóta, sem urðu af gjörðum þeirra sjálfra. Við krefjumst þess að allt sé skoðað, líka verðbótaþáttur lána fyrir hrun.
 

Rannsóknarskýrsla Alþingis, sem koma átti út í nóvember er svo viðamikil og harmþrungin, að ekki hefur enn tekist að ljúka henni. Með reglulegu millibili koma nefndarmenn í fjölmiðla og tilkynna klökkum rómi, að útgáfu sé frestað. Hvað á þetta að ganga svona lengi? Við krefjumst þess að allt komi upp á borðið, STRAX!