Hvernig vinnið þið kröfugerðina?


Hilmar Harðarson, formaður

Þessari spurningu er oft varpað fram þessa dagana. Það er líka eðlilegt að fólk spyrji um þetta því ekki tóku allir þátt. En er þetta þá bara fámenn klíka sem kemur að stefnumótuninni? Aðferðafræðin er mismunandi eftir félögum og samningum líka, þ.e. hvort um er að ræða samninga sem ná til fárra eða fjölda einstaklinga. FIT valdi þá leið eins og öll önnur félög í Samiðn að láta samningsumboðið liggja inni hjá Samiðn og er kröfugerðin því sameiginleg og sett fram í nafni Samiðnar.
 

Allt trúnaðarráð FIT var boðað til fundar 7. október þar sem farið var yfir stöðuna, málin rædd og hugmyndum varpað fram. Fundurinn var afar vel sóttur og gagnlegur og góður undirbúningur fyrir framhaldið, sem var kjaramálaráðstefna Samiðnar. Blásið var til mikillar ráðstefnu þann 15. október sem flest félög í Samiðn sendu fulltrúa á. Alls mættu milli 60 og 70 manns og byggði fundurinn á hinni svokölluðu þjóðfundarleið. Þegar fundurinn var boðaður höfðu jafnframt verið sendir út spurningalistar sem fulltrúar áttu að kynna sér fyrir fund. Unnið var á 5 borðum og var virkni og þátttaka afspyrnu góð og fundargestir almennt ánægðir í ráðstefnulok. Með þjóðfundarfyrirkomulaginu gafst öllum kostur á að taka þátt og tjá sig, leggja fram skriflegar tillögur í kröfugerðina og að loknum umræðum við borðið fengu allir 5 atkvæði sem þeir gátu lagt á þær tillögur (kröfur)sem þeir vildu helst veita brautargengi.
 

Þannig fóru hóparnir borð frá borði og fjölluðu um mismunandi viðfangsefni á hverju borði fyrir sig.  Borðstjórar og ritarar þeirra sáu svo um atkvæðatalningu og skýrslugerð og unnu ásamt framkvæmdastjóra Samiðnar að úrvinnslunni sem svo var lögð fyrir miðstjórn Samiðnar. Samiðn hélt einnig sambærilega ráðstefnu með trúnaðarmönnum frá ríki og sveitarfélögum sem einnig var lögð fyrir miðstjórn.  Af þessu má ráða að það er fjölmennur hópur trúnaðarmanna sem á heiðurinn af kröfugerðinni, en hana má lesa í heild sinni hér aftar í blaðinu. Þess má einnig geta að miðstjórn Samiðnar er jafnframt samninganefnd Samiðnar.

Áherslur

Á hvað verður lögð áhersla í komandi samningum?  Það sem helst verður lögð áhersla á eru þeir þættir eða tillögur sem flest atkvæði hlutu í heild þegar allt hafði verið talið saman á kjaramálaráðstefnunni.  Það má segja að varðandi launaliðinn verði áherslan  lögð á kaupmáttaraukningu og þá væntanlega með launahækkun og aðgerðum sem stuðluðu að því að verðbólgan éti hækkunina ekki strax upp. Þar mundi samningstími og þá um leið hvernig hækkunin dreifðist á samningstímabili hafa mest að segja. Stjórnmálamenn hafa tafið endurreisnina á efnahagslífinu að óþörfu. Þannig mun það takka lengri tíma að vinna sig úr þeim vanda sem þjóðin er í en það hefði þurft að gera. Hér er ekki við ríkisstjórnina eina að sakast, heldur allir sem sitja á alþingi bera þessa ábyrgð.
 

Í öðru lagi verður lögð mikil og þung áhersla á jöfnun lífeyrisréttinda. Sá mikli munur milli almenna markaðarins og starfsmanna hjá hinu opinbera. Ekki er nóg með að greiðslur launagreiðenda séu hærri í sjóði hjá ríki og sveitarfélögum heldur er verðbótaþáttur þeirra að mestu tryggður þannig að þegar þeir sjóðir rýrna vegna verðbólgu eða áfalla eins og urðu í hruninu hefur það ekki áhrif á lífeyrisgreiðslur til þeirra opinberu starfsmanna sem eru í B-sjóði. Flestir ef ekki allir sjóðir á almenna markaðnum hafa á sama tíma orðið að skerða réttindi sinna félaga. Auðvitað getur tekið einhver ár að jafna þennan rétt en það er nauðsynlegt ef sátt á að nást í samfélaginu. Þetta kostar uppstokkun og fækkun sjóða en ójöfnuðurinn er sífellt að aukast svo ekki verður lengur við unað.
 

Þriðja atriðið sem ég vil nefna snýr eingöngu að iðnaðarmönnum en það er krafa um endurskoðun á iðnaðarlögunum. Lögin eru barn síns tíma og hafa í raun aldrei náð að þjóna tilgangi sínum að fullu. Það þarf að skerpa á ýmsu þar og ekki síst að skoða viðurlagsákvæði, þ.e. hver refsingin er við brotum.
 

Ég vona að félagsmenn FIT, fjölskyldur þeirra og landsmenn allir eigi gæfurík jól og að bjartsýni og farsæld nái aftur völdum á Íslandi á komandi ári.