Jákvæðar fréttir af vinnustaðanámi og starfsþjálfun

Hilmar Harðarson
Hilmar Harðarson, formaður FIT

Um síðustu mánaðamót náðist áfangi sem lengi hefur verið unnið að varðandi vinnustaðanám. Lengi hefur verið þrýst á stjórnvöld um að standa við fyrirheit að að efla iðn- og starfsnám. Margir nemar hafa ekki komist í starfsþjálfun að loknu bóknámi til að ljúka námi sínu með fullum réttindum.

Undanfarna mánuði hefur verið unnið að þessu máli í ágætu samstarfi milli ráðuneyta og aðila vinnumarkaðarins. Það starf leiddi til þess að í lok október voru í fyrsta skipti veittir styrkir til vinnustaðanáms og starfsþjálfunar á vinnustað samkvæmt nýrri reglugerð um Vinnustaðanámssjóð.

Fimmtíu og sjö milljónum króna var úthlutað til fimmtíu og fjögurra fyrirtækja og stofnana. Öll standast þau kröfur til vinnustaðanáms samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla og hafa á að skipa hæfum tilsjónaraðila á vinnustaðnum. Ríkið greiðir 20.000 krónur á viku fyrir hvern nemanda í allt að 24 vikur.

Þessi lausn tryggir að 174 nemendur úr ýmsum greinum komast í starfsþjálfun fá vinnustað nú í haust.

Ríkisstjórnin hefur einnig ákveðið að leggja fram 450 milljónir króna til að efla vinnustaðanám á árunum 2012-2014. Undirbúningur að stofnun sjóðs, sem á mæta kostnaði fyrirtækja af kennslu eða þjálfun nemenda í starfsnámi, er vel á veg kominn og lýkur væntanlega fyrir áramót.

Ástandið í þessum málum hefur verið óviðunandi en misjafnlega slæmt eftir greinum. Óformleg könnun sýnir að 25% nema í húsamálun við Tækniskólann er með samning.

Verst virðist ástandið vera í bílgreinum. Einungis 14% bílgreinanemenda við Borgarholtskóla eru komnir á samning, samkvæmt óformlegri könnun.

Atvinnulífið hefur hins vegar kvartað undan því að ekki væri nægilegt framboð á fagfólki til starfa í greininni. Þetta útspil Vinnustaðnámssjóðs ætti því að vera kærkomið tækifæri fyrir fyrirtækin til að ráða fólk til starfa og nýta þann mannauð sem bíður eftir að komast á samning í greininni.

Á samdráttartímum er hlutverk ríkisvaldsins ekki síst það að örva atvinnulífið og draga úr atvinnuleysi með opinberum framkvæmdum. Það er nauðsynlegt að ríkisstjórnin sinni því hlutverki og hysji upp um sig buxurnar í þessum málum sem allra fyrst. Ennþá hefur ekki bólað á umfangsmiklu átaki í viðhaldi á opinberum byggingum sem boðað hafði verið.

lífeyrissparnaðar mun skerða réttindi og auka misrétti

Verkalýðshreyfingin hefur lýst mikilli andstöðu við þær hugmyndir sem koma fram í fjárlagafrumvarpinu um að leggja skatt á séreignarsparnað og við aðrar hugmyndir um skattlagningu lífeyrissjóða. Þar eru á ferð tillögur um alvarlegt inngrip í frjálsa kjarasamninga og brot á því samkomulagi sem stjórnvöld gerðu við stéttarfélögin í aðdraganda gildandi kjarasamninga.

Slík skattlagning mundi þýða að almennu sjóðirnir þyrftu að skerða réttindi sinna félaga. Ólíkt réttindum á almennum markaði eru lífeyriséttindi opinberra starfsmanna hins vegar tryggð af ríki og sveitarfélögum. Skattlagning lífeyrissparnaðar mun ekki kalla á skerðingu hjá opinberum starfsmönnum heldur einungis þyngja byrðina sem skattgreiðendur bera nú þegar vegna mikils halla á lífeyrissjóðum opinberra stafsmanna.

Skattlagning lífeyrissparnaðar mun þess vegna auka það bil sem nú er á réttindum lífeyrisþega eftir því hvort þeir eiga réttindi í almennum sjóðum eða í sjóðum opinberra starfsmanna.

Þessar hugmyndir ganga þess vegna í þveröfuga átt við það sem ríkisstjórnin lofaði að beita sér fyrir í yfirlýsingu við gerð kjarasamninganna síðastliðið vor.

Láti ríkisstjórnin verða af hugmyndum um að skattleggja lífeyrissparnað er viðkvæmum stöðugleika á almennum vinnumarkaði teflt í mikla tvísýnu nú þegar endurskoðun kjarasamninganna frá því síðastliðið vor er framundan.