Sjúkrasjóðir - besta tryggingin


Ármann Ægir Magnússon, gjaldkeri FIT

Ekkert tryggingafélag getur veitt sömu tryggingu og sjúkrasjóður enda er honum ætlað að vera framúrskarandi örugg trygging. Félagsmenn FIT sem lent hafa í áföllum og þurft að nota þessa tryggingu eru afar ánægðir með félagið sitt og margir hafa haft á orði að þeir hefðu ekki trúað því að félagið væri jafn öflugt og raun bæri.
 

Metnaður sjúkrasjóðs FIT er mikill til að standa þétt við bakið á þeim sem lenda í heilsufarshremmingum.  Langstærsti hluti af þeim sem
nota þjónustuna gera það rafrænt eða í beinu sambandi við þjónustufulltrúa FIT. Örfá sérstæð mál þurfa að bíða eftir samþykkt stjórnar sem teygir sig mjög langt í að þjónusta félagsmenn.

Erfiðast er að eiga við mál sem eru bótaskyld hjá tryggingafélögunum. Þar hafa tryggingafélögin fengið þá sérstöku stöðu að geta dregið aðstoð sjúkrasjóða frá slysabótunum. Þannig eru sjúkrasjóðir farnir að niðurgreiða bætur fyrir tryggingafélögin. FIT hefur brugðist við þessu með því að heimila ekki bótagreiðslur ef um tryggingarskylt slys er að ræða, en í boði er að þeir sem á því þurfa að halda fái lán hjá sjóðnum til að brúa bil sem kann að myndast í tekjuöflun félagsmanns. Þetta er að sjálfsögðu afar óhentugt fyrirkomulag og vandséð hversvegna launþegi sem lendir í bótaskyldu slysi má ekki þiggja greiðslur frá sjúkrasjóði án þess að dregið sé af tryggingarbótum, hann þarf örugglega meira á þeirri aðstoð að halda en tryggingafélagið. Þessu þarf löggjafinn að breyta sem fyrst.
 

Með stofnun VIRK - starfsendurhæfingarsjóðs hefur orðið gríðarleg bylting í þjónustu við einstaklinga sem lenda í langtíma veikindum. VIRK var stofnað af aðilum vinnumarkaðarins á grundvelli kjarasamninga á árinu 2008. Strax um haustið 2009 komu fyrstu ráðgjafarnir til starfa og núna í janúar 2011 hafa um 1550 einstaklingar fengið þjónustu á vegum VIRK. Með þátttöku FIT í VIRK - starfsendurhæfingarsjóði er félagsmönnum fylgt eftir af bestu getu til að ná fram einstakri og persónulegri þjónustu allt frá kulnun í starfi til mikilla veikinda eða slysa. Lögð er áhersla á að aðstoða alla leið, þ.e. að fundin séu úrræði sem henti hverjum og einum til framtíðar. Þeir félagar sem notið hafa þessarar þjónustu bera henni mjög góða sögu. Á heimasíðu VIRK má finna frásögur þeirra sem notið hafa þjónustunnar, „Einfaldlega frábært"„Lífið brosir við mér á ný", eða „aðstoðin opnaði mér nýjar leiðir" . FIT kemur að starfsendurhæfingu í Reykjavík, Reykjanesi, Suðurlandi, Vestmannaeyjum og Vesturlandi, auk þess sem félagsmenn annarsstaðar á landinu fá sambærilega þjónustu í heimabyggð.
 

Um leið og ég hvet alla til að tryggja sig á ódýran og öruggan hátt með félagsaðild að FIT, vil ég enda þennan pistil á broti úr reynslusögum félagsmanns FIT sem finna má á heimasíðu virk.is
 

„Það eru oft á lofti raddir um að það sé til lítils að borga í verkalýðsfélög. Þegar ég þurfti á FIT að halda kom í ljós að ekkert tryggingafélag getur gert nálægt því jafn vel. Mér var bjargað og nú ljómar lífið við mér á nýjum brautum".