Kjarasamningagerðin gengur hægt

Hilmar Harðarson
Hilmar Harðarson, formaður FIT

Á kjaramálaraðstefnu Samiðnar í haust kom fram mikill vilji til að taka höndum saman við önnur iðnfélög um samstarf við kjarasamningsgerð. Þetta hefur gengið eftir og hafa forsvarsmenn félaganna haldið marga fundi til að samræma kröfur sínar og mætt samstillir á fundi með samninganefnd SA. Kaupmáttur launa iðnaðarmanna hefur fallið mikið frá árinu 2008. Það hefur því verið aðalmarkmið samninganefndar iðnaðarmanna að semja þannig að kaupmáttur aukist að nýju.

Að sjálfsögðu eru mörg önnur atriði til umræðu og mörg mál sem þarf að ræða á þrískiptu borði þ.e. bæði við SA og ríkisvaldið. Þetta hefur reynst tímafrekara en menn áætluðu í fyrstu, og má að mestu leiti skrifa þennan seinagang á SA sem markvisst stefndi nánast öllum samningum á almennum markaði á sama tímapunktinn og getur ekki með góðu móti annað þeirri eftirspurn sem er um viðræður. Þá hafa sömu aðilar markað þá skíru stefnu að umræður um launalið verði ekki leiddur til lykta nema að stefnan hafi verið mörkuð á almenna markaðnum, þar verði launastefna fyrir alla mörkuð. Þessi afstaða hefur leitt til þess að sérkjarasamningar ganga ákaflega hægt og er vel skiljanlegt að starfsmenn t.d. Alkan, Elkem og Norðuráls finnist lítið vera að gerast í þeirra málum. Viðræður við ríkisvaldið ganga enn hægar og því erfitt að spá fyrir um lok kjaraviðræðna. Inn í þetta spinnst svo umræðan um tímalengd samningsins, en að sjálfsögðu fer tímalengdin að miklu leiti eftir því hvað um semst að öðru leiti.

Við vonum þó öll að menn fari nú að taka sig á í þessum efnum og klára samningsgerðina. Hitt er öllum ljóst að meðan ósamið er á almennum markaði er ekki að búast við að hjól atvinnulífsins snúist af miklum hraða. Atvinnuleysistölur segja okkur að rúmlega 14.000 manns séu án atvinnu um þessar mundir og er það að sjálfsögðu allt of háar tölur. Örlítill sólargeisli er þó að skrifað hefur verið undir samninga um starfrækslu á Kísilmálmverksmiðju á Reykjanesi, þar, sem eins og undanfarið, mælist mest atvinnuleysið. Vonir standa til að um 200 manns muni vinna að uppbyggingunni og u.þ.b. 90 fái framtíðarstarf við verksmiðjuna. 
 

Í þessu blaði er fundarboð aðalfundar FIT og er það von mín að sem flestir sjái sér fært að mæta. Vonandi verður á þeim fundi hægt að fagna nýjum kjarasamningum en ég er þó hóflega bjartsýnn. Margt annað er í blaðinu en helsta nýmælið sem snertir félagsmenn er sú ákvörðun að gera ekki umsóknareyðublað fyrir orlofshúsaumsóknir sumarsins heldur fá fólk til að sækja um á heimasíðu FIT. Ég hef þá trú að í félaginu sé framfarasinnað fólk sem setji slíkt ekki fyrir sig.