Samningar halda, laun hækka um mánaðamót

Hilmar Harðarson
Hilmar Harðarson, formaður FIT

Á fjölmennum fundi trúnaðarmannaráðs FIT þann 17. janúar kom fram mikil gremja í garð ríkisstjórnarinnar fyrir að standa ekki við þær yfirlýsingar sem hún gaf í tengslum við gerð kjarasamninganna 5. maí á síðasta ári.


Aðgerðir ríkisvaldsins til að efla atvinnulífið með atvinnusköpun og opinberum framkvæmdum hafa látið á sér standa. Ekki hefur orðið úr loforðum um að ljúka við gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Vilyrði um að ráðist yrði í aðgerðir til að jafna lífeyrisrétt hafa snúist upp í andhverfu sína. Nýir skattar ógna áunnum réttindum almennra lífeyrisþega en þyngja um leið þann kostnað sem launþegar og skattgreiðendur bera af lífeyriskerfi opinberra starfsmanna.

 

Engu að síður var það mat trúnaðarmannaráðsfundarins að ekki væri rétt að nýta heimild í endurskoðunarákvæði til að segja upp kjarasamningum frá og með 20. Janúar og þrátt fyrir vanefndir ríkisvaldsins yrði ekki fram hjá því litið að forsendur samningsins hafa staðist varðandi það sem snertir samskipti launafólks og atvinnurekenda.

 

Kaupmáttur launa hefur þrátt fyrir allt aukist lítillega á samningstímanum meðal okkar félagsmanna og ljóst að mikil verðmæti liggja í þeim launahækkunum sem framundan eru um næstu mánaðamót og síðar á samningstímanum.

 

STÖNDUM VÖRÐ UM KAUPMÁTTINN
Sömu sjónarmið voru ríkjandi á miðstjórnarfundi Samiðnar þann 19. janúar. Þrátt fyrir að skorti á efndir ríkisstjórnarinnar lagði miðstjórn Samiðnar það til við samninganefnd ASÍ að kjarasamningunum yrði ekki sagt upp að svo komnu máli.

Miðstjórnin samþykkti jafnframt áskorun til ríkisstjórnarinnar um að taka sér tak og standa við gefin fyrirheit. Hafi ríkisstjórnin ekki pólitískan kraft og vilja til að takast á við jafn brýnt verkefni og eflingu atvinnulífsins, beri henni að víkja og boða til kosninga sem fyrst. Þjóðin hafi ekki efni á að bíða lengur eftir aðgerðum.

Á fundi samninganefndar ASÍ kom svo í ljós að eftir miklar umræður innan allra aðildarfélaga ASÍ var yfirgnæfandi stuðningur við þessi sjónarmið. Þau atriði samninganna sem snerta samskipti milli launafólks og fyrirtækja hafa gengið eftir. Einnig eru nú skilyrði til þess að kaupmáttur almennra launa geti hækkað þriðja árið í röð. Það er mikilvægt að verkalýðshreyfingin standi vörð um það markmið. Því er ekki forsvaranlegt að segja upp kjarasamningnunum þrátt fyrir vanefndir ríkisstjórnarinnar.

Kjarasamningarnir munu því halda gildi sínu og umsamdar launahækkanir koma til framkvæmda frá næstu mánaðamótum.

TÆKIFÆRI FRAMUNDAN SEM ÞARF AÐ NÝTA
Það hefur gengið á ýmsu í samskiptum verkalýðshreyfingarinnar við ríkisvaldið síðustu mánuði og er óhætt að segja að samskipti þessara aðila hafi verið með verra móti en mörg undanfarin ár. Sú staða er mikið áhyggjuefni. Hins vegar má það ekki dragast frekar að ríkisstjórnin snúi sér að þeim mikilvægu verkefnum í atvinnumálum sem þola ekki lengri bið. Það er ástæða til að ætla að ýmsir möguleikar opnist á næstunni til að koma þjóðfélaginu tiltölulega fljótt á rétta braut, koma atvinnulífinu á skrið og draga verulega úr því mikla atvinnuleysi sem hér hefur verið í rúmlega þrjú ár. Þá möguleika þarf að nýta og þeim má ekki glutra niður vegna óeiningar og ómarkvissra vinnubragða á Alþingi og í ríkisstjórn.

Mestu skiptir að ríkisstjórnin og Alþingi láti það ekki tefjast frekar að staðfesta rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem unnið hefur verið að í tíu ár. Áætlunin getur lagt grunn að atvinnuuppbyggingu í sátt við náttúruna næsta áratug. Sú uppbygging getur verið á næsta leiti. Ef ríkisstjórnin heldur vel á spöðunum og lýkur við þau verk sem hún þarf að vinna í vetur getum við horft fram á bjartari tíma í atvinnu- og efnahagslífinu strax í vor.