Staðfesting á faglegum og félagslegum styrk

Hilmar Harðarson
Hilmar Harðarson, formaður FIT

Atvinnuleysi í landinu mældist 7,2% í janúarmánuði og hafði minnkað úr 8,5% í janúarmánuði 2011. Í atvinnugreinum þar sem okkar félagsmenn starfa helst hefur ástandið því miður ekki batnað á sama hátt og þær tölur gefa til kynna. Þótt það sé of snemmt að fullyrða nokkuð bendir samt ýmislegt til að það muni rofa til með hækkandi sól.

Fjölmargir atvinnulausir félagar úr okkar röðum sóttu Atvinnumessu, sem haldin var í annað skipti nú í byrjun mánaðarins með þátttöku FIT og fleiri stéttarfélaga. Þar voru kynnt um eitt þúsund ný tækifæri í störfum og starfsþjálfun á höfuðborgarsvæðinu. Atvinnumesssa var liður í átakinu Vinnandi vegur á vegum Vinnumálastofnunar sem ætlunin er að skapi 1.500 ný störf fyrir byrjun sumars. Rætt hefur verið um að samdráttur í atvinnulífinu undanfarin ár hafi neikvæð áhrif á vinnuumhverfi og starfsánægju. Umræðan hefur fram að þessu fyrst og fremst verið byggð á getgátum og tilfinningum. Það var meðal annars þess vegna sem IÐAN ákvað að ráðast í umfangsmikla skoðanakönnun og kanna hug iðnaðarmanna til ýmissa þátta í starfi sínu.

Könnunin fór fram í nóvember og desember og nú liggja fyrir niðurstöður sem byggðar eru á svörum frá meira en 2.100 iðnaðarmönnum sem luku sveinsprófi á árunum 1980-2009. Tveir þriðju hlutar þessa hóps er starfandi við sína faggrein í dag. Þegar niðurstöður þessarar könnunar eru skoðaðar kemur í ljós að áhyggjur þeirra svartsýnustu eru ekki á rökum reistar. Starfsánægja er almenn og mikill faglegur metnaður er ríkjandi meðal iðnaðarmanna. Um 90% segjast bæði vera stolt og ánægð með það starf sem þau gegna. Um tveir af hverjum þremur hafa lokið viðbótarnámi eftir sveinspróf og um átta af hverjum tíu hafa mikinn áhuga á að kynna sér nýjungar í faggreininni.

Langflestir eru ánægðir með þá möguleika sem þeim bjóðast til að þróast í starfi og flestir segjast búa við góða möguleika til starfsþróunar á sínum vinnustað. Þrír af hverjum fjórum segjast mæla með því við ungt fólk að það hefji nám í iðngreininni sem þeir hafa lokið sveinsprófi í.

Iðnarmenn framtíðarinnar voru í sviðsljósinu á Íslandsmeistaramóti iðn- og verkgreina sem var haldið um síðustu helgi. Íslandsmeistaramótið hefur fest sig í sessi og hefur aldrei verið glæsilegra en nú. Um 170 ungir iðnaðarmenn sýndu faglega færni sína og kunnáttu í tuttugu og fjórum iðn- og verkgreinum.

Þátttakendurnir voru allir undir 21 árs aldri og annað hvort nýútskrifaðir eða langt komnir í námi sínu í iðn- og verkgreinaskólum landsins.

Keppendur voru skólum sínum og iðnmenntun í landinu til sóma og góð fyrirmynd fyrir þá um það bil 2.000 grunnskólanemendur sem fylgdust með keppninni en hún er fyrst og fremst haldin til að vekja athygli á þeim tækifærum sem bjóðast til náms og starfs í iðngreinum.

Þessi atriði sem ég hef nefnt hér að ofan sýna okkur það að þótt ástandið í atvinnumálum hafi verið betra standa iðn- og tæknigreinar á sterkum grunni, faglega og félagslega.