Byggingamenn búa við lítið stafsöryggi

Hilmar Harðarson
Hilmar Harðarson, formaður FIT

Byggingamenn búa við lítið stafsöryggi

Byggingamenn eru nær allir stoltir af starfi sínu og þeir eru ánægðir í núverandi starfi en telja starfsöryggi sitt lítið. Tveir af hverjum þremur byggingamönnum eru hlynntir afkastahvetjandi launakerfi. Þetta eru niðurstöður viðamikillar skoðanakönnunar sem IÐAN lét gera í lok síðasta árs.


Alls voru 1.286 í úrtakinu en svör bárust frá 754 eða 67,4% hópsins. Um 10% af úrtakinu reyndust hafa flust búferlum til útlanda, sem kemur kannski ekki á óvart í ljósi þess að umsvif á byggingamarkaði hérlendis eru ekki upp á marga fiska um þessar mundir eins og allir vita.


Úrtakinu var þannig skipt milli greina að tekið var slembiúrtak húsasmiða, húsgagnasmiða, málara, pípara, múrara og veggfóðrara, sem luku sveinsprófi á árunum 1980-2009. Allir húsgagnasmiðir, 188 talsins, og allir veggfóðrarar, 98 talsins, voru í úrtakinu, en 250 manns úr hverri hinni greinanna.

 

Mikil starfsreynsla

70,6% svarenda höfðu ellefu ára starfsreynslu eða meira í sinni grein en 10% minna en fimm ár.


53,3% svarenda voru launþegar, 23,5% sjálfstætt starfandi einyrkjar en 14,7% eru atvinnurekendur.
27% voru í atvinnuleit en 3,2% lífeyrisþegar eða öryrkjar. Þá voru 2,3% skóla.

 

86,7% svarenda sögðust ánægð í núverandi starfi og aðeins 2,6% óánægðir. Um 90% sögðust vera stoltir í starfi sínu.

 

67,4% starfa við faggrein sinna í dag en tæpur þriðjungur, eða 32,6%, starfa ekki við greinina. 81% þeirra, sem höfðu minna en fimm ára starfsreynslu innan sinnar greinar, starfa ekki við greinina í dag. Rúmur helmingur þeirra, sem hafa sex til tíu ára starfsreynslu, eða um 53%, eru enn starfandi en afgerandi meirihluti þeirra sem lengstu starfsreynsluna hafa er enn að störfum.

 

Af þeim byggingamönum sem starfa utan greinarinnar segjast rúm 29% hafa misstu vinnuna eða hætt  vegna þess að litla vinnu er að hafa. Álíka stór hópur hætti störfum þar sem hann hafði farið í nám eða menntað sig til annarra starfa. Rúm 42% þessa hóps segist hafa áhuga á að snúa aftur í byggingagreinar. Áhugasamastir um að snúa aftur eru lærðir píparar, en um helmingur þeirra vill snúa aftur. Málarar eru hins vegar ólíklegastir til að vilja snúa aftur í gamla fagið, aðeins fjórðungur lýsir áhuga á því.

 

Ánægðir með námið

Byggingamenn telja almennt að námið hafi búið þá vel undir starf í greininni. Alls eru um 63% þeirrar skoðunar.  Húsgagnasmiðir og veggfóðrarar eru ánægðastir með námið en pípulagningamenn óánægðastir.

 

Meirihluti svarenda hefur bætt við sig menntun að loknu sveinsprófi. 22% svarenda höfðu lokið meistaraprófi og 14,8% höfðu lokið háskólagráðu,  5% stúdentsprófi og 5,1% höfðu bætt við sig sveinsprófi í annarri grein. 43,4% höfðu engu framhaldsnámi lokið að loknu sveinsprófi.

 

Í hópi þeirra, sem aldrei unnu við iðngreinina eða hafa minna en fimm ára starfsreynslu innan hennar, að baki hafa á bilinu 40,6 - 44,4% bætt við sig háskólagráðu. Um 17% húsasmiða og húsgagnasmiða utan greinarinnar hafa bætt við sig háskólagráðu og þar var hlutfallið hæst. Pípararnir höfðu hins vegar helst allra bætt við sig öðru sveinsprófi, 10,3% þeirra höfðu gert það. Píparar og veggfóðrarar eru einnig langlíklegastir til að hafa lokið meistaraprófi en 33,3% beggja hópa hefur lokið meistaraprófi.

 

69,8% byggingamanna segjast mundu mæla með því við ungt fólk að hefja nám í sinni iðngrein.  25,3% sögðust ekki tilbúin til að mæla með náminu. Aðeins 41,7% veggfóðrara vildu mæla með náminu, og skar sú stétt sig úr en á hinn bóginn voru 81,3% pípara tilbúnir til að mæla með náminu við ungt fólk. Þá vekur athygli að af þeim byggingaiðnaðarmönnum sem verið hafa lengst á vinnumarkaði, þ.e.a.s. þeir sem luku námi á árunum 1965 til 1980 sögðust aðeins 51,3% vilja mæla með náminu við ungt fólk.

 

Þegar þessi hópur var spurður hvers vegna þeir mundu ekki mæla með náminu við ungt fólk sögðu 47,8% að það væri vegna þess að um hnignandi atvinnugrein væri að ræða. 13,4% nefndu að þetta væri erfið vinna en 12,7% sögðu að vinnan væri illa launuð.

 

509 svöruðu spurningunni: Hefur þú mannaforráð og svöruðu 48% játandi en 52% neitandi.

 

Áhugi á símenntun og nýjungum

79,8% svarenda sögðust hafa mjög mikinn eða frekar mikinn áhuga á að kynnast nýjungum í faggrein sinni. Einungis 7,5% sögðust hafa lítinn áhuga á nýjungum í greininni.

 

Tæpur helmingur svarenda, 45,3% sögðust hafa séð upplýsingar frá IÐUNNI fræðslusetri um námskeið í boði fyrir þá síðustu sex mánuði. 54,7% höfðu hins vegar ekki séð slíkar upplýsingar.

 

Því lengur sem menn hafa starfað við faggrein sína því líklegri voru þeir til að hafa séð efni frá IÐUNNI. Píparar voru einnig líklegri en aðrir til þess að hafa veitt tilboðum IÐUNNAR athygli en 53% þeirra sögðust hafa veitt athygli upplýsingum frá IÐUNNI á síðustu sex mánuðum.

 

Einnig voru þeir sem hafa mannaforráð líklegri til þess en aðrir að hafa tekið eftir upplýsingum um námskeið IÐUNNAR.

 

Spurt var: Hversu mörg námskeð hefur þú sótt tengt þínu fagi síðastliðin tvö ár, það er 2010 eða 2011? 71,0% sögðust ekki hafa sótt námskeið. 23,5% höfðu sótt 1-3 námskeið en 5,5% fjögur námskeið eða fleiri.

 

Þriðjungur þeirra sem ekki höfðu sótt námskeið báru til tímaleysi. 23,5% sögðu ekkert hafa verið í boði sem hentaði. 11,1% sögðust enga þörf hafa fyrir námskeið en 8,1% sögðust ekki vita af námskeiðum. 6,6% sögðust áhugalausir um að sækja námskeið.

 

Þegar spurt var hversu ánægðir eða óánægðir menn væru með möguleika sína á að þróast í starfi sem fagmaður sögðust 60% ánægðir, 26,1 sögðu ánægjuna í meðallagi en 14% sögðust óánægðir með möguleikana á starfsþróun.

 

Starfslýsingar eru sjaldgæfar

Um helmingur svaranda sagðist frekar eða mjög ánægður með framboð af símenntun í sinni faggrein og möguleika sína á að sækja símenntunarnámskeið.   Um 4% sögðust mjög óánægðir. Húsasmiðir og pípulagningarmenn voru ánægðastir en veggfóðrarar óánægðastir.  Aðeins þrír að hverjum fjórum aðspurðum tóku afstöðu til þessara spurninga.

 

Þegar spurt var hvort stjórnendur á vinnustað sköpuðu svigrúm fyrir starfsþróun svo sem að gefa færi á að sækja námskeið og fundi um fagleg málefni tóku 74% afstöðu og af þeim sögðust 71,6% sammála en 12,1% ósammála. Því ánægðari sem menn voru í starfi því ánægðari voru þeir með það svigrúm sem stjórnendur sköpuðu.

 

Aðeins 39,2% svöruðu játandi spurningu um hvort til væri á vinnustaðnum starfslýsing um það starf sem þeir gegna. Starfslýsingar eru því sjaldgæfari því lengur sem menn hafa starfað við faggreinina. Þeir sem ekki starfa við faggreinina eru  mun líklegri til þess að hafa starfslýsingu. Af þeim sem störfuðu innan sinnar faggreinar var hlutfall þeirra sem hafa starfslýsingar um sitt starf á vinnustað aðeins 27%.

 

Fimmti hver telur starfsöryggi mikið

Er mikið eða lítið starfsöryggi í þinni faggrein? var spurt. 8,4% töldu starfsöryggið mjög mikið, 12% frekar mikið, 17% í meðallagi en 42,3% frekar lítið og 20,3% mjög lítið.

 

Píparar skáru sig úr að því leyti að 38% þeirra töldu sig búa við mikið starfsöryggi en  39,2% þeirra töldu starfsöryggi sitt lítið.  Hjá öðrum stéttum döldu 62-75% starfsöryggið lítið.

 

89,2% sögðust sammála fullyrðingunni: Ég er stoltur í starfi mínu en 2,7% sögðust ósammála.

 

Byggingamenn eru almennt þeirrar skoðunar að gott samræmi sé milli vinnu og einkalífs. 39,9% segja samræmið mjög gott, 38,7% segja það mjög gott en 7,5% mjög slæmt eða frekar slæmt.

 

Gott jafnvægi helst þarna í hendur við hækkandi aldur og aukna starfsánægju. Eins telja þeir sem fara með mannaforráð frekar en aðrir að sæmræmið milli vinnu og einkalífs sé slæmt.

 

Einungis 27,2% svarenda sögðu að fyrirtækið sem þeir vinna hjá sé með stefnu í símenntunar- eða endurmenntunarmálum. Með auknum starfsaldri dregur úr líkum á að fyrirtækið sem unnið er hjá sé með slíka stefnu. Eins var mun líklegra að þeir sem starfa ekki við faggrein sína séu í starfi hjá fyrirtækjum þar sem slík stefna er við líði en 59% þess hóps svaraði þessari spurningu játandi.

 

Meirihluti svarenda reyndist hafa jákvæða afstöðu gagnvart afkastahvetjandi launakerfum. 64,3% þeirra sögðust hlynntir slíkri mælingu en 23,1% andvígir. Veggfóðrarar voru hlynntastir en húsgagnasmiðir andvígastir.  Þeir sem voru andvígir gáfu helst upp þær ástæður fyrir andstöðu sinni að slíkt kerfi valdi óvönduðum vinnubrögðum en 52,8% hópsins sögðust þeirrar skoðunar.