80% sveina í bílgreinum mundu mæla með námi í greininni við ungt fólk

Hilmar Harðarson
Hilmar Harðarson, formaður FIT

 

Meira en fjórir af hverjum fimm sveinum í bílgreinum mundu mæla með því við ungt fólk að hefja nám í greininni. Þetta kemur fram í umfangsmikilli könnun sem IÐAN lét gera á vinnuumhverfi í bílgreinum í lok síðasta árs. 69,9% telja sig búa við frekar mikið eða mjög mikið starfsöryggi.

 

Tekið var slembiúrtak sveina í bifreiðasmíði, bifvélavirkjun og bílamálun sem útskrifuðust á árunum 1980 til 2009. 392 svör bárust, eða frá 64,1% hópsins. Niðurstöðurnar voru meðhöndlaðar til þess að gefa endursegla rétt hlutföll einstakra greina með sama hætti og gert var í könnunum á vinnuumhverfi í málmiðnum og byggingagreinum, sem áður hefur verið sagt frá hér á fit.is.

 

55,4% telja að námið fyrir sveinspróf hafi búið þá vel undir starf í faggreininni. 22,7% telja undirbúninginn í meðallagi góðan en 21,9% telja sig hafa fengið slæman undirbúning í námi.

 

Athygli vekur að þeim sem starfa ekki við faggrein sína í dag finnst námið hafa undirbúið þá betur en hinum sem starfa enn við fagið. 67% þeirra sem ekki starfa í greininni eru ánægðir með þann undirbúning sem námið veitir en 51,5% þeirra sem enn starfa í greininni. Ánægja bílamálara með námið er heldur minni en meðal sveina í öðrum bílgreinum.

 

Tæp 70% svarenda eru starfandi í sinni faggrein í dag. 30,4% starfa ekki í grein sinni og á sama tala þar við um allar þrjár greinarnar, - bifvélavirkjun, bifreiðasmíði og bílamálun.

 

Um það bil níu af hverjum tíu þátttakendum sögðust stoltir í sínu starfi. 86% svarenda segjast vera frekar ánægðir eða mjög ánægðir í núverandi starfi sínu þegar á heildina er litið. 3,4% segjast óánægðir. Þeir sem hafa mannaforráð eru líklegri til þess að segjast mjög ánægðir í núverandi starfi en þeir sem ekki hafa mannaforráð en einungis 0,7% þeirra sem hafa mannaforráð segjast óánægðir í núverandi starfi.

 

Um það bil þrír af hverjum fjórum segjast hafa áhuga á að kynnast nýjungum í faggrein sinni en 10,9% segjast ekki hafa þann áhuga. Eins og við er að búast er áhuginn meiri hjá þeim sem starfa í greininni en hjá hinum en mestur er áhuginn hjá þeim sem hafa 21-30 ára starfsaldur að baki en 87,6% þeirra segjast hafa áhuga á að kynna sér nýjungar en einungis 50% þeirra sem aldrei hafa unnið við greinina og 45,7% þeirra sem hafa skemmri en fimm ára starfsaldur að baki.

 

Þegar spurt er myndir þú mæla með því við ungt fólk að hefja nám í þinni iðngrein? svara 80,5% játandi, 14,7% neitandi en 4,8% segjast óvissir. 60% þeirra sem ekki mæla með náminu nefna annað hvort að starfið sé illa launað eða ekki spennandi.

 

Flestir hafa séð upplýsingar um námskeið

57,2% svarenda svöruðu játandi spurningunni: Hefur þú á síðustu sex mánuðum séð upplýsingar frá IÐUNNI fræðslusetri um námskeið sem eru í boði fyrir þig? 42,8% höfðu ekki orðið varir við slíkar upplýsingar.

 

Af þeim sem enn eru starfandi í greininni höfðu 69% séð upplýsingar frá IÐUNNI um námskeið í boði fyrir þá. Þeir sem voru í elsta hópnum, 55 ára og eldri, höfðu síður orðið varir við upplýsingar en þeir sem yngri eru. Einnig var hlutfallið nokkru lægra meðal bifvélavirkja en meðal bílamálara og bifreiðasmiða.

 

54,3% sveina í bílgreinum hefur ekki sótt námskeið tengt sínu fagi síðastliðin tvö ár. 32,2% hafa sótt eitt til þrjú námskeið en 13,4% hafa sótt fjögur námskeið eða fleiri. Þeir sem eru með sveinspróf í bifvélavirkjun hafa síður sótt námskeið en þeir sem hafa sveinspróf í öðrum iðngreinum.

 

Rúmur þriðjungur þeirra sem ekki hafa sótt námskeið segja að ekkert hafi verið í boði sem þeim hentar en 21,8% nefna tímaleysi. 8,1% töldu sig ekki hafa þörf fyrir að sækja námskeið en 5,2% báru við áhugaleysi.

 

Þegar spurt var hversu ánægðir menn væru með möguleika sína á að þróast í starfi sem fagmenn sögðust 18,7% mjög ánægðir með möguleikana en 40,1% voru frekar ánægðir. Hjá 27,6% var ánægjan í meðallagi en 13,6% kváðust frekar eða mjög óánægðir með möguleikana. Starfsánægja þeirra sem voru ánægðir með möguleikana til að þróast sem fagmaður í starfi var marktækt meiri en hjá öðrum.

 

Sáttir við möguleika á símenntun

Þá sögðust 53,2% ánægðir með framboð á símenntun í faggrein sinni en 19,4% voru óánægðir. Svörin voru svipuð hjá öllum hópum hvað þetta varðar.

 

51,2% sögðust ánægðir með möguleikana á að sækja símenntun í faggreininni en 18,4% óánægðir.

 

69,3% voru sammála því að stjórnendur á vinnustað sköpuðu svigrúm fyrir stafsþróun með því að gefa þeim færi á að sækja námskeið og fundi um fagleg málefni. 16,5% voru óánægðir.

 

Þá var spurt hvort fyrirtækið sem menn starfa hjá væri með stefnu í símenntunar- eða endurmenntunarmálum og svöruðu 58,4% spurningunni neitandi.

 

Þá var spurt hvort menn hefðu sótt námskeið eða endurmenntun á vinutíma og svöruðu 73,7% þeirri spurningu játandi.

 

56,4% svarendanna segja að til sé starfslýsing á vinnustaðnum um þeirra starf. 80,7% þeirra sem segja að starfslýsing sé til segja að hún sé almennt mjög skýr en 8,5% segja starfslýsinguna óskýra.

 

69,9% telja starfsöryggi mikið

Þegar spurt var um starfsöryggi telja 22,1% að það sé mjög mikið en 47,8% að það sé frekar mikið. 15,8% segja starfsöryggið í meðallagi en 14,2% telja öryggið lítið.

 

88,7% svarenda sögðust sammála því að þeir væru stoltir í starfi sínu. 57,7% sögðust mjög sammála og 31% að þeir væri frekar sammála. 2,9% sögðust ósammála.

 

Spurt var hvort gott samræmi væri milli vinnu og einkalífs hjá mönnum og svöruðu 79,9% að samræmið væri gott en 6,7% að það væri slæmt. Þeir sem starfa við greinina í dag telja samræmið betra en hinir.

 

69,1% svarenda eru launþegar, 12,4% atvinnurekendur og 9,2% sjálfstætt starfandi einyrkjar. 2,3% svarenda sögðust atvinnulausir. 44,5% svarenda hafa mannaforráð.

 

72% svarendanna hafa unnið lengur en 11 ár í sinni faggrein en 46,6% hafa meira en 21 árs starfsaldur að baki. 2,1% luku aldrei við fagið að loknu námi en 12,8% hafa skemmri starfsaldur en fimm ár.

 

25,9% svarenda hafa lokið meistaraprófi í inni grein en 42,8% hafa ekki lokið öðru námi að loknu sveinsprófi. 5,4% hafa lokið háskólagráðu.

 

Bauðst betra starf

 

21,3% þeirra segjast hafa hætt í greininni af því að þeim bauðst betra starf en 11,5% nefna léleg laun og um 7% tala um líkamlegt ástand sitt og það að vinnan sé erfið sem skýringu á því af hverju þeir hættu í faginu.

 

Rúmlega fjórðungur þessa hóps segist hafa áhuga á að hefja að nýju störf við sína faggrein en 67,6% segjast ekki hafa slíkan áhuga og tala flestir þeirra um að núverandi starf sé betra og að léleg laun séu í boði í bílgreinum en samtals nefna 47,2% þessar tvær ástæður fyrir því að faggreinin heilli þá ekki.