Berjum í brestina

Hilmar Harðarson
Hilmar Harðarson, formaður FIT

 

FORSENDUR SAMNINGA BROSTNAR, REYNA ÞARF ENDURSKOÐUN TIL ÞRAUTAR.

Í upphafi næsta árs þarf verkalýðshreyfingin að taka ákvörðun um endurskoðun kjarasamninga fyrir 21. janúar næstkomandi. Ljóst er að forsendur kjarasamninganna sem gerðir voru í maí 2011 hafa ekki staðist.

 

Tvær leiðir koma til greina.

 

Annars vegar er sá möguleiki að beita uppsagnarákvæði kjarasamninganna. Það mun meðal annars þýða að ákvæði samninganna um 11 þúsund króna hækkun á kauptaxta og 3,25% almenn kauphækkun frá 1. febrúar næstkomandi kemur ekki til framkvæmda.

 

Hins vegar er að leita lausnar innan ramma gildandi samnings og ná þannig fram kjarabótum og fá bættar þær skerðingar sem launafólk og lífeyrisþegar hafa orðið fyrir. Undanfarnar vikur og mánuði hefur verið unnið mikið starf á okkar vettvangi. Lögð hefur verið áhersla á að undirbúa næstu skref vandlega og kanna vel hug félagsmanna til þessa máls.

SJÓNARMIÐ FÉLAGSMANNA

Haldnir hafa verið fimm félags- og faggreinafundir. Í Reykjavík, á Akranesi, í Reykjanesbæ, á Selfossi og í Vestmannaeyjum þar sem farið hefur verið yfir málin og leitað eftir sjónarmiðum félagsmanna. Einnig hefur málið verið rætt á sérstökum trúnaðarráðsfundi FIT og á útvíkkuðum fundi sambandsstjórnar Samiðnar og trúnaðarmanna aðildarfélaga. Þá hefur að sjálfsögðu verið fjallað um málið hjá miðstjórn sem jafnframt er samninganefnd Samiðnar.

 

Eftir þessa fundi er ljóst að langflestir félagsmenn telja að vegna mikillar óvissu í íslensku samfélagi sé rétt að leita allra leiða til þess að ná lausn á grundvelli gildandi kjarasamninga. Skapa þurfi forsendur fyrir sátt um leiðir út úr þeim vanda sem íslenskt efnahagslíf stendur frammi fyrir þar sem lögð verði áhersla á að tryggja stöðugleika, draga úr verðbólgu,auka kaupmátt og fjölga störfum.

 

Stjórnvöld þurfa að standa við þau fyrirheit sem áður hafa verið gefin en ekki hafa gengið eftir. Þar má nefna ákvæði kjarasamninga um jöfnun lífeyrisréttinda, eflingu vaxtabótakerfisins og að dregið verði úr tekjutengingum í almannatryggingakerfinu, bæði vegna lífeyristekna og annarra tekna.

 

Einnig er mikilvægt að við endurskoðun kjarasamninga verði stjórnvöldum haldið við efnið varðandi fyrri yfirlýsingar um að þau ætli sér að vinna gegn svartri atvinnustarfsemi og kennitöluflakki.

SVÖRT VINNA – STJÓRNVÖLD DRAGA LAPPIRNAR

Í sumar var haldið áfram með átaksverkefni sem ASÍ, SA og ríkisskattstjóri hafa staðið fyrir um eflingu góðra atvinnuhátta. Athugun var gerð á því hvort þeir starfsmenn, sem teknir voru til skoðunar í vinnustaðaeftirliti, fengu greiðslur frá Vinnumálastofnun, Tryggingastofnun, lífeyrissjóðum eða verkalýðsfélögum auk launa frá viðkomandi fyrirtækjum.

 

Niðurstöður úr þessu átaki liggja nú fyrir. Þær staðfesta enn einu sinni að svört atvinnustarfsemi er útbreitt vandamál hér á landi.

 

Vegna þess að könnunin var tímafrek og ítarleg varð úrtakið lítið en hún náði aðeins til 247 starfsmanna í ýmsum starfsgreinum og eru skekkjumörk því all nokkur. Þó er óhætt að fullyrða að könnunin gefi ótvíræðar vísbendingar því af þessum 247 reyndust 36 vera í svartri vinnu eða 14,6%. Ellefu einstaklingar, eða tæpur þriðjungur af þeim sem voru í svartri vinnu, þáðu greiðslur frá Vinnumálastofnun auk launanna. 22% þeirra starfsmanna sem kannaðir voru í byggingariðnaði reyndust vera í svartri vinnu. Í farþegaflutningum var hlutfall starfsmanna í svartri vinnu 27,3%; á veitingastöðum 4,6% og á gistiheimilum 13%.

 

Svört atvinnustarfsemi kemur niður á samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem fara að lögum og reglum og dregur úr möguleikum fyrirtækja á því að ráða nýtt fólk til starfa með löglegum hætti. Launagreiðendur sem standa fyrir svartri vinnu axla ekki ábyrgð sína gagnvart samfélaginu og taka ekki þátt í að greiða fyrir sameiginlega þjónustu og brjóta grundvallarréttindi varðandi tryggingar og lífeyri starfsmanna.

 

Hér vantar eftirfylgni stjórnvalda. Þau þurfa án frekari tafa að grípa til aðgerða og tryggja nauðsynleg úrræði, bæði í gegnum skattkerfið og með öðrum hætti og ráðast þannig gegn þessu vandamáli af hörku.