Endurskoðun kjarasamninga, launahækkun 1. febrúar

Hilmar Harðarson
Hilmar Harðarson, formaður FIT

Samninganefndir Félags iðn- og tæknigreina og Samiðnar ákvaðu að veita ASÍ umboð til að framlengja kjarasamninga þann 21. janúar. Það kom því ekki til þess að samningunum yrði sagt upp nú um mánaðamótin. Launataxtar hækka því um kr. 11.000 á almenna markaðnum þann 1. febrúar en laun umfram taxta hækka um 3,25%.


SAMNINGSTÍMI STYTTUR UM TVO MÁNUÐI


Samkomulag um endurskoðun samninganna felur einnig í sér að samningstíminn er styttur um tvo mánuði frá því sem áður var ákveðið og munu samningarnir því renna út þann 30. nóvember á þessu ári.


Einnig var samið um mótun atvinnustefnu, stefnu í gengismálum og verðlagsmálum og um aukin framlög atvinnurekenda til starfsmenntasjóða.


Eins og kunnugt er lá fyrir að flestar forsendur kjarasamninganna frá 5. maí 2011 voru brostnar.


Forsendurnar höfðu verið þær að á árinu 2012 færi kaupmáttur vaxandi, verðbólga yrði innan við 2,5%, gengi krónunnar hefði styrkst þannig að gengisvísitalan yrði undir gildinu 190 í desember 2012 og loks að stjórnvöld stæðu við þau fyrirheit sem ríkisstjórnin gaf í yfirlýsingu sinni í tengslum við kjarasamningana.


FORSENDAN UM KAUPMÁTT GEKK EFTIR


Það var einungis forsendan um kaupmátt sem gekk eftir. Kaupmáttur lægstu launa hefur aukist og nokkur hluti launafólks hefur notið meiri launahækkana en gert var ráð fyrir í kjarasamningi. Vonir um styrkingu krónunnar hafa hins vegar ekki orðið að veruleika og eins hefur verðbólga verið meiri en miðað var við þegar samningarnir voru undirritaðir. Vegna mikillar verðbólgu minnkaði kaupmáttur launa mikils fjölda launafólks á árinu 2012.


Síðast en ekki síst vantaði mikið upp á að ríkisstjórnin hefði efnt þau fjölmörgu fyrirheit sem gefin voru í tengslum við gerð samninganna í maí 2011. Þar má bæði nefna vilyrði um hækkun bóta almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga í samræmi við almennar launahækkanir og lækkun tryggingagjalds í samræmi við minnkandi atvinnuleysi. Stjórnvöld eru einnig ábyrg fyrir því að mikilvægustu efnahagslegu forsendur samninganna um auknar fjárfestingar í atvinnulífinu gengu ekki eftir.


Þrátt fyrir þessa forsendubresti var það nánast einróma mat forystumanna verkalýðshreyfingarinnar að rétt væri að berja í brestina og endurnýja samninga í stað þess að segja þeim upp. Það gekk eftir með samkomulagi því sem nú liggur fyrir.


KOMIÐ VERÐI Í VEG FYRIR VERÐHÆKKANIR


Eftir þessa niðurstöðu er lögð megináhersla á það af hálfu verkalýðshreyfingarinnar að atvinnurekendur og einnig ríkið og sveitarfélögin komi í veg fyrir verðhækkanir og tryggi að skriða verðhækkana fari ekki af stað svo að tryggt sé að launahækkunin 1. febrúar skili auknum kaupmætti.


Ef þróunin verður hins vegar sú að þetta gengur ekki eftir og sá aukni kaupmáttur sem að er stefnt hverfur vegna verðlagshækkana má búast við hörðum átökum á vinnumarkaði þegar samningarnir renna út í haust.