Óvissa í samningamálum á aðventunni

Hilmar Harðarson
Hilmar Harðarson, formaður FIT

Undanfarnar vikur hefur verið unnið markvisst að skammtímasamningi sem átti að gilda í mesta lagi í eitt ár og tryggja launafólki aukinn kaupmátt, lága verðbólgu og stöðugt verðlag. Stefnt var að því að um svokallaðan aðfarasamning yrði að ræða, það er að segja að í lok samningstímans yrði hægt að gera nýjan langtímasamning á grundvelli þessa skammtímasamnings.

Þessi vinna gekk að mörgu leyti vel í fyrstu. Þær töfðust að vísu nokkuð meðan beðið var eftir því að tillögur ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í skuldamálum heimilanna litu dagsins ljós. Þær tillögur reyndust síðan ekki fela í sér jafnmikinn örlætisgerning lofað hafði verið í aðdraganda kosninganna og höfðu ekki sjálfstæð áhrif á viðræður aðila vinnumarkaðarins.

Þegar hins vegar kom að því við samningaborðið að ná niðurstöðu um launahækkanir og kaupmáttaraukningu til launafólks kom í ljós að milli verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekanda var djúpstæður ágreiningur um hækkun launa. Það var niðurstaða samninganefndar ASÍ að miðað við afstöðu Samtaka atvinnulífsins til launaliðarins væru forsendur brostnar fyrir þeirri leið sem unnið hafði verið að. Því var talið rétt að vísa framhaldi viðræðna um nýja kjarasamninga til aðildarsamtakanna.


DÆMALAUSAR AUGLÝSINGAR SAMTAKA ATVINNULÍFSINS


Samtök atvinnulífsins kynntu landsmönnum afstöðu sína til launamála og kaupmáttaraukningar launafólks í dæmalausum sjónvarpssauglýsingum sem samtökin létu sýna á dýrustu auglýsingatímum sjónvarpsstöðvanna nýlega.

Þar kom fram sá boðskapur Samtaka atvinnulífsins að kröfur launafólks væru helsta ástæða hárrar verðbólgu á Íslandi. Þetta er beinlínis rangt og villandi. Í þessum auglýsingum töldu Samtök atvinnulífsins hvorki ástæðu til að nefna einu orði gjaldeyrishöftin eða það hrun sem varð á gengi krónunnar fyrir fimm árum sem er að sjálfsögðu meginástæðan fyrir þeirri kaupmáttarskerðingu sem launafólk hefur orðið fyrir.

Staðreyndin er sú, eins og forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins vita vel, að þegar gengisbreytingar eru teknar inn í myndina eru launahækkanir á Íslandi hlutfallslega sambærilegar við það sem gerst hefur á Norðurlöndunum. Hins vegar eru þau laun sem félagsmenn Samtaka atvinnulífsins greiða íslensku launafólki miklu mun lægra hlutfall af landsframleiðslu en á hinum Norðurlöndunum.


STRÍÐSHANSKA KASTAÐ Í FJÁRLAGAFRUMVARPI


Það eru ekki síður vonbrigði með hvaða hætti ríkisstjórnin hefur ákveðið að stíga inn í kjarasaviðræðurnar með nýjum og óvæntum hætti síðustu daga. Afstaða ríkis og sveitarfélaga til gerðar kjarasamnings ASÍ og SA hafði áður verið könnuð á fundi og var það mat verkalýðshreyfingarinnar að niðurstaða þess fundar hefðu verið jákvæð. Þegar breytingartillögur ríkisstjórnarmeirihlutans við fjárlagafrumvarpið voru lagðar fram komu þar í ljós tillögur um niðurskurð sem ekki er hægt að líta öðrum augum en að verið sé að kasta stríðshanska í átt að verkalýðshreyfingunni. Hugmyndir um að leggja á sjúklingaskatta í formi komugjalda, leggja niður starfsendurhæfingarsjóð og skerða barnabætur og vaxtabætur munu aldrei ná fram að ganga í sátt við verkalýðshreyfinguna. Óhjákvæmilegt er að verkalýðshreyfingin bregðist af hörku við þessum hugmyndum í þeirri vinnu sem nú er framundan.

Það eru vissulega vonbrigði að slitnað hafi upp úr viðræðum við Samtök atvinnulífsins en verkefnið framundan er að vinna úr þessari nýju stöðu. Næstu skref verður að stíga fljótt og örugglega eigi að nást árangur fyrir áramót. Það má því segja að staða kjaramálanna sé í óvissu nú á aðventunni. Verkefnið er að beita samtakamætti okkar til að sækja löngu tímabæra kaupmáttaraukningu fyrir félagsmenn.


Ég sendi félagsmönnum og fjölskyldum þeirra bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár.