Félagsmenn FIT samþykkja kjarasamninga

Hilmar Harðarson
Hilmar Harðarson, formaður FIT

Félagsmenn FIT samþykktu kjarasamning Samiðnar við Samtök atvinnulífsins frá 21. desember. Samningurinn gildir til áramóta og kveður á um 2,8% hækkun launa og launatengdra liða, auk sérstakrar hækkunar lægstu launa.

 

Það var sameiginlegt markmið samtaka launafólks á almenna vinnumarkaðnum og samtaka opinberra starfsmanna að færa áherslur hér á landi í átt að því sem tíðkast hefur á Norðurlöndunum við gerð kjarasamninga og stuðla þannig að auknum stöðugleika. Vegna þess fóru fulltrúar frá verkalýðsfélögum á almenna markaðnum og samtökum opinberra starfsmanna saman til Norðurlandanna fyrir nokkrum mánuðum til að kynna sér gerð kjarasamninga þar. Í anda þessa sameiginlega markmiðs var einhugur um það í þessum hópi að stefna ætti að gerð skammtímasamnings sem hefði það að markmiði að ná niður verðbólgu og tryggja stöðugt verðlag. Ætlunin var að skapa þannig forsendur fyrir því að hægt yrði að gera samning til lengri tíma að þessu samningstímabili loknu.

 

Mjótt var á munum í atkvæðagreiðslu félagsmanna flestra verkalýðsfélaga á dögunum. Sú niðurstaða endurspeglar mismunandi viðhorf félagsmanna til þeirrar aðferðafræði sem samningurinn byggist á. Andstaðan á meðal annars rætur í vantrausti á að fyrirtæki og stjórnvöld standi við gefin loforð um að hækka ekki opinber gjöld og verð á vöru og þjónustu og velta þannig hinum hóflegu launahækkunum út í verðlagið.

 

Hluti félagsmanna skilaði einnig auðu og tjáði þannig óánægju sína án þess að lýsa sig tilbúinn til að fella samninginn með þeim afleiðingum sem slíkt mundi hafa. Afstaða þessa hóps réði úrslitum innan FIT en samkvæmt vinnulöggjöfinni sem gilt hefur á íslenskum vinnumarkaði árum saman þarf meirihluta greiddra atkvæða til þess að fella kjarasamninga.

 

Eins og mál höfðu þróast frá því að samningar voru undirritaðir þurfti ekki að koma á óvart að mjótt væri á munum. Strax við undirritun var ljóst að forsvarsmenn nokkurra verkalýðsfélaga innan ASÍ mundu berjast harkalega gegn því að samningarnir yrðu staðfestir. Eins stigu fram forsvarsmenn einstakra hópa opinberra starfsmanna og gagnrýndu samninginn. Það kom því í ljós að ekki var sá einhugur innan launþegahreyfingarinnar um markmiðs samningsins sem talið hafði verið.

 

Eins má segja að framganga ríkisstjórnarinnar hafi ekki aukið trú í þjóðfélaginu á að hægt yrði að ná árangri í baráttu við verbólgu og skapa grundvöll fyrir langtímasamningum næsta haust. Um áramótin tók ríkisstjórnin ákvarðanir í verðlags- og gjaldamálum sem gengu þvert gegn markmiðum samningsins. Þar má nefna 20% hækkun komugjalda í heilbrigðiskerfinu.

 

Það kom ekki síður í opna skjöldu að forsætisráðherra ákvað að ræða um nauðsyn þess að hækka lægstu launin í áramótaávarpi sínu. Nokkrum dögum áður hafði ríkisstjórnin hafnað óskum verkalýðshreyfingarinnar um að frekari hækkun persónuafsláttar yrði framlag ríkisstjórnarinnar til kjarasamninganna. Fjármálaráðherra beit svo höfuðið af skömminni með óljósum loforðum um að draga úr hækkunum gjalda en jafnframt mátti líta á ummælin sem hótanir um að efna ekki þau loforð ef samningar yrðu ekki samþykktir. Það er því enginn vafi á því að ríkisstjórnin ber umtalsverða ábyrgð á núverandi stöðu. Svo kann að fara að oddvitar ríkisstjórnarinnar eigi eftir iðrast þess að hafa ekki tekið betur undir óskir aðila vinnumarkaðarins í desember.

 

FIT á ennþá eftir að gera kjarasamninga við nokkra aðila, þar á meðal ríkið. Í ljósi niðurstöðunnar er nokkur óvissa uppi um framhaldið og erfitt að segja til um næstu skref. Samningar opinberra starfsmanna eru lausir nú um mánaðarmótin. Líklega er skynsamlegt fyrir þau verkalýðsfélög á almenna vinnumarkaðnum, sem enn eru með lausa samninga, að stíga til hliðar og gefa ríkisstjórninni og félögum opinberra starfsmanna sviðið, meðan þess er beðið að raunverulegar áherslur ríkisstjórnarinnar komi fram í kjarasamningum við félög opinberra starfsmanna. Hver sem niðurstaðan verður eru markmið núverandi samnings í fullu gildi hvað varðar að halda aftur af verðbólgunni með öflugri baráttu gegn hvers konar hækkunum á vöru og þjónustu.