Það eru erfiðir tímar Það er atvinnuþref

Hilmar Harðarson
Hilmar Harðarson, formaður FIT

Í kjarasamningum sem gerðir voru í desember var áhersla lögð á samstöðu um efnahagslegan stöðugleika. Til þess að sem flestir njóti efnahagslegs stöðugleika er nauðsynlegt að tryggja aukinn jöfnuð. Til að það náist þurfa allir að leggja sitt af mörkum og það var forsenda kjarasamninganna á almennum vinnumarkaði. Bætt lífskjör og lífsgæði fást með auknum jöfnuði.


Því veldur það óánægju að aðrir sem gert hafa kjarasamninga í kjölfarið hafa samið um mun meiri launahækkanir. Forsenda almennu samninganna var yfirlýsing ríkisstjórnarinnar, sveitarfélaganna og atvinnurekenda að þeirri stefnu yrði fylgt að allir sætu við sama borð þegar til næstu samninga kæmi. Nú eru þessar forsendur nánast brostnar.


Verðbólga undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans og þróun verðlags undanfarna mánuði sýnir að það er möguleiki að skapa þennan stöðugleika og auka jöfnuð, ef allir spila með. Því miður vantaði uppá að stjórnvöld efndu sín loforð og að samstaðan væri almenn á vinnumarkaði. Þannig hefur almennt launafólk sýnt ábyrgð í verki með því að semja um hógværar launahækkanir.


Það getur ekki gengið að ábyrgðin verði eingöngu hjá almennu launafólki að viðhalda stöðugleika á meðan aðrir axla ekki ábyrgð og sýna ekki samstöðu. Því hlýtur krafan að verða sú í næstu samningum að leiðrétta kjör á almennra vinnumarkaðnum til jafns við aðra.


Barátta fyrir auknum jöfnuði og lífsgæðum er mannréttindabarátta, barátta sem tilheyrir öllum og er öllum í hag. Þess vegan er yfirskrift 1. maí í ár: “Samfélag fyrir alla”.
Félag iðn- og tæknigreina hvetur alla til að taka þátt í kröfugöngum og baráttufundum stéttarfélaganna um allt land.