Félagsmenn hafa áhrif á undirbúning kjarasamninga

 

hilmar c

Þessa dagana er verið að gera skoðanakönnun meðal félagsmanna um áherslumál í komandi kjarasamningum. Könnunin verður opnuð á milli jóla og nýárs og mun standa til 15. janúar. Ég hvet alla félagsmenn til þess að taka þátt í könnuninni, því betri sem þátttakan verður, því betri og réttari verða skilaboðin til félagsins varðandi komandi samninga.

Engin sátt nema allir taki þátt

Kjarasamningar eru stóra verkefnið framundan. Viðræður um nýjan samning eru hafnar við Ísal og Norðurál. Einnig standa yfir sérkjaraviðæður við SA, Reykjavíkurborg, sveitarfélögin og ríkið auk annarra aðila. Fljótlega eftir áramót verður farið að ræða launalið nýrra kjarasamninga á almenna vinnumarkaðnum.

Við upphaf samningalotunnar nú eru ýmis jákvæð teikn á lofti en annað veldur vonbrigðum. Góðu fréttirnar eru m.a. þær að atvinnuástand er gott og segja má að full atvinna sé nú í landinu. Farið er að bera á að einn og einn iðnaðarmaður, sem fluttist til útlanda eftir hrun, sé farinn að snúa heim.

Enn getur þó brugðið til beggja vona hvað það varðar. Enginn skortur er á áhugaverðum atvinnutækifærum fyrir íslenska iðnaðarmenn í nágrannalöndunum. Starfskraftar þeirra eru eftirsóttir erlendis, ekki síður en starfskraftar annarra stétta.

Eins og félagsmönnum er líklega í fersku minni var gengið frá kjarasamningum á aðventunni í fyrra. Gerður var svonefndur aðfararsamningur, til eins árs. Lögð var áhersla á kaupmáttaraukningu og hóflegar hækkanir. Orðið aðfararsamningur felur í sér fyrirheit um frekari kjarabætur í náinni framtíð.

Helstu forsendur aðfararsamningsins gengu eftir, verðbólga hefur verið lítil og verðlag stöðugt. Í heildina er batinn hægari en vonir stóðu til. Ekki er hægt að segja annað en að það sem fram kom í fjárlagafrumvarpinu séu kaldar kveðjur til okkar launamanna. Lengi hefur verið talað um að jafna lífeyrisréttindi milli almenna og opinbera geirans en afnám jöfnunar á örorkubyrði hefur þau áhrif að lífeyrisjóðir á almenna markaðinum verða að skerða réttindi sem leiðir ekki til aukinnar jöfnunar.

Virða ekki skuldbindingu gagnvart samfélaginu

Eitt af því sem veldur vonbrigðum er að þótt fyrirtækin hafi skilað góðum hagnaði hafa eigendur þeirra tekið hann út sem arð en ekki lækkað vöruverð til almennings. Þetta er dapurleg staðfesting á að fyrirtækin virða ekki þá skuldbindingu að skila út í samfélagið árangrinum sem hefur náðst vegna ábyrgrar kröfugerðar og samningsafstöðu verkalýðsfélaganna. Einnig eru vonbrigði að þótt gengi krónunnar hafi styrkst hefur það heldur ekki skilað sér í lægra vöruverði til neytenda.

Ekki er hægt að ætlast til af launafólki á almennum vinnumarkaði, að það leggi fram það sem þarf til að búa til hagvöxt og arð í þjóðfélaginu en síðan komi aðrir og taki til sín alla uppskeruna. Ef til stendur að halda áfram að ræða um samstöðu í komandi kjarasamningum, verða allir að taka þátt í henni. Það er ljóst að félög á almennum markaði munu ekki sitja hjá á meðan aðrar stéttir semja um tuga prósenta launahækkanir, m.a. við ríki og sveitarfélög, eins og dæmi eru um.

Á félags- og faggreinafundum sem haldnir voru víða um land á dögunum var m.a. farið yfir launaþróun og skoðaðar breytingar frá 2006. Fjallað er um efni fundanna í Fréttabréfinu og glærur af fundunum eru á heimasíðu félagsins.

Vörugjaldalækkun skili sér út í verðlagið

Þessa dagana er Alþingi að afgreiða hækkun á virðisaukaskatti á matvæli og fleira en afnema um leið vörugjöld af ýmsum innflutningi. Verkalýðshreyfingin mun fylgja því eftir að lækkun vörugjalda skili sér að fullu út í verðlagið og fylgjast með því um áramótin að ríki og sveitarfélög velti ekki kostnaði af launahækkunum einstakra hópa opinberra starfsmanna yfir á herðar almennings, með hækkunum á gjaldskrám fyrir opinbera þjónustu. Að lokum vil ég óska félagsmönnum öllum og fjölskyldum þeirra gleðilegrar hátíðar og velfarnaðar á nýju ári.

Með félagskveðju

Hilmar Harðarson