Dvöl í orlofshúsum FIT að vetri til

Það hefur færst í vöxt að félagsmenn nýti húsin á veturna.  Enda er útivist að vetri til orðin mjög vinsæl og notalegt að eiga stund með ástvinum og vinum fjarri skarkala borgarinnar og nauðsynlegt að láta svolítið eftir sér yfir þessa dimmu mánuði.
Vart er þörf að nefna nauðsyn þess að vera við öllu búin á ferðum um vegi landsins yfir vetrartímann. Eins og við bendum reglulega á þá ber ýmislegt að varast þegar farið er í bústað að vetri til en þó er aðal atriðið ávallt að hafa fyrirhyggjuna í fyrirrúmi. Veður getur breyst með skömmum fyrirvara. Við minnum einnig á mikilvægi þess að menn séu á vel búnum bifreiðum og létt skófla ætti ætíð að vera með í för. Góður hlífðarfatnaður er að sjálfsögðu nauðsynlegur í allar vetrarferðir. Ávalt skal athuga með veðurhorfur áður en ákveðið er að fara í orlofshús og um veðurspá og viðvaranir má lesa hér; http://www.vedur.is/vidvaranir
Umgengni félagsmanna FIT í orlofshúsum félagsins er að jafnaði mjög góð og til mikillar fyrirmyndar en því miður kemur það fyrir að gestir í orlofshúsum okkar ganga illa um og þrífa ekki við brottför. Ef eitthvað er athugavert við umgengni eða þrifnað húsanna við komu þá bendum við á að hafa samband við viðkomandi þjónustuaðila.
Það er óvíst að heitir pottar virki sem skyldi, kólni mikið á þeim svæðum sem kaldast er og hefur stundum einnig borið á heitavatnsskorti. Félagið getur ekki ábyrgst að hægt sé að láta renna í potta allsstaðar þegar frís og alls ekki má skrúfa fyrir vatnsinntak í bústöðunum. Sums staðar hefur verið skrúfað fyrir heita vatnið og þá frosið í lögnum með tilheyrandi viðgerðum og fyrirhöfn fyrir félagið. Upplýsingar varðandi Úthlíð; Það er mokað alltaf á föstudögum (þegar snjóar) og svo aftur á sunnudögum og þau eru að sjálfsögðu alltaf tilbúin að reyna að aðstoða gesti og gangandi eftir mætti.
Gangi ykkur sem allra best á næstkomandi vetrarmánuðum. 
Góða ferð og njótið dvalarinnar.
Ondverdarnes vetur