Hilmar Harðarson
Hilmar Harðarson, formaður FIT

Heimasíða FIT hefur fengið nýtt útlit. Vefurinn er hannaður af Erni Smára og þróaður af AP Media í samstarfi við Object. Útlitslyfting vefsins gerir hann bæði nútímalegri og notendavænni.

Aukið hefur verið vægi margmiðlunarefnis. Félagsmenn geta skoðað myndir frá atburðum tengdum FIT á auðveldari hátt en áður. Einnig er komin myndbandaveita þar sem hægt er að skoða myndbönd frá FIT. Útgefið efni svo sem fréttablað FIT hefur einnig verið gert hærra undir höfði og slíkt efni mun koma inn í ríkari mæli.

Fréttir á forsíðu hafa nú aukið vægi, svo félagsmenn sjá auðveldlega hvað FIT er að gera í þeirra þágu. Viðburðadagatali hefur verið bætt á síðuna, þannig að nú geta félagsmenn fylgst með því helsta sem er um að vera hverju sinni. Einnig mun félagið vera í reglulegu sambandi við félagsmenn sína með tölvupósti og láta þá vita af því helsta sem er í gangi hverju sinni.

Efni síðunnar hefur verið yfirfarið og uppfært. Þær breytingar sem meðal annars hafa verið gerðar eru á yfirflokkum og eru nýjir flokkar kjaramál, útgefið efni og sjóðir. Með þessum breytingum er von um að félagsmenn FIT geti á auðveldari hátt nálgast upplýsingar af heimasíðunni.

palmi finnbogason
Pálmi Finnbogason, þjónustuskrifstofu iðnfélaga

Nokkrar umræður hafa verið um niðurstöður úrskurðarnefndar almannatrygginga og dómstóla sem fallið hafa launagreiðendum í hag í málum er varða vinnuslys og stöðu starfsmanna gagnvart bótum úr slysatryggingum. Dæmi eru um að starfsmenn hafi ekki fengið bætur t.d. vegna bakmeiðsla þar sem ekki hafi verið sýnt fram á að slysið hafi orðið af völdum "skyndilegs utanaðkomandi atburðar". Samkvæmt lögum um almannatryggingar (27 gr. nr. 100/2007) teljast slysatryggingar taka til vinnu, iðnnáms, björgunarstarfa, hvers konar íþróttaæfinga, íþróttasýninga og íþróttakeppna, enda sé sá sem fyrir slysi verður tryggður, en með slysi er átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur

meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist án vilja hans. Hvernig "skyndilegur utanaðkomandi atburður" er metinn felur því í sér, samkvæmt úrskurðarnefnd almannatrygginga og dómstólum, að ef starfsmaður heldur á þungri byrði og meiðist við það í baki þá telst það vera „innan mein“ eða vegna „venjulegrar notkunar“ en ekki „skyndilegur utanaðkomandi atburður“. Úrskurðarnefnd almannatrygginga og dómstólar hafa því lagt það til grundvallar úrskurðum sínum að eitthvað óvænt og utanaðkomandi þurfi að gerast í atburðarásinni til að um bótaskylt slys geti verið að ræða í skilningi laga um almannatryggingar.

Í ljósi þessa er ástæða til að hvetja starfsmenn til að gæta varúðar t.d. þegar þungum byrðum er lyft og kalla til aðstoð eða nota lyftubúnað því samkvæmt gengnum úrskurðum þá eru starfsmenn á eigin ábyrgð við þær aðstæður.

Hilmar Harðarson
Hilmar Harðarson, formaður FIT

Á fjölmennum fundi trúnaðarmannaráðs FIT þann 17. janúar kom fram mikil gremja í garð ríkisstjórnarinnar fyrir að standa ekki við þær yfirlýsingar sem hún gaf í tengslum við gerð kjarasamninganna 5. maí á síðasta ári.


Aðgerðir ríkisvaldsins til að efla atvinnulífið með atvinnusköpun og opinberum framkvæmdum hafa látið á sér standa. Ekki hefur orðið úr loforðum um að ljúka við gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Vilyrði um að ráðist yrði í aðgerðir til að jafna lífeyrisrétt hafa snúist upp í andhverfu sína. Nýir skattar ógna áunnum réttindum almennra lífeyrisþega en þyngja um leið þann kostnað sem launþegar og skattgreiðendur bera af lífeyriskerfi opinberra starfsmanna.

 

Engu að síður var það mat trúnaðarmannaráðsfundarins að ekki væri rétt að nýta heimild í endurskoðunarákvæði til að segja upp kjarasamningum frá og með 20. Janúar og þrátt fyrir vanefndir ríkisvaldsins yrði ekki fram hjá því litið að forsendur samningsins hafa staðist varðandi það sem snertir samskipti launafólks og atvinnurekenda.

 

Kaupmáttur launa hefur þrátt fyrir allt aukist lítillega á samningstímanum meðal okkar félagsmanna og ljóst að mikil verðmæti liggja í þeim launahækkunum sem framundan eru um næstu mánaðamót og síðar á samningstímanum.

 

STÖNDUM VÖRÐ UM KAUPMÁTTINN
Sömu sjónarmið voru ríkjandi á miðstjórnarfundi Samiðnar þann 19. janúar. Þrátt fyrir að skorti á efndir ríkisstjórnarinnar lagði miðstjórn Samiðnar það til við samninganefnd ASÍ að kjarasamningunum yrði ekki sagt upp að svo komnu máli.

Miðstjórnin samþykkti jafnframt áskorun til ríkisstjórnarinnar um að taka sér tak og standa við gefin fyrirheit. Hafi ríkisstjórnin ekki pólitískan kraft og vilja til að takast á við jafn brýnt verkefni og eflingu atvinnulífsins, beri henni að víkja og boða til kosninga sem fyrst. Þjóðin hafi ekki efni á að bíða lengur eftir aðgerðum.

Á fundi samninganefndar ASÍ kom svo í ljós að eftir miklar umræður innan allra aðildarfélaga ASÍ var yfirgnæfandi stuðningur við þessi sjónarmið. Þau atriði samninganna sem snerta samskipti milli launafólks og fyrirtækja hafa gengið eftir. Einnig eru nú skilyrði til þess að kaupmáttur almennra launa geti hækkað þriðja árið í röð. Það er mikilvægt að verkalýðshreyfingin standi vörð um það markmið. Því er ekki forsvaranlegt að segja upp kjarasamningnunum þrátt fyrir vanefndir ríkisstjórnarinnar.

Kjarasamningarnir munu því halda gildi sínu og umsamdar launahækkanir koma til framkvæmda frá næstu mánaðamótum.

TÆKIFÆRI FRAMUNDAN SEM ÞARF AÐ NÝTA
Það hefur gengið á ýmsu í samskiptum verkalýðshreyfingarinnar við ríkisvaldið síðustu mánuði og er óhætt að segja að samskipti þessara aðila hafi verið með verra móti en mörg undanfarin ár. Sú staða er mikið áhyggjuefni. Hins vegar má það ekki dragast frekar að ríkisstjórnin snúi sér að þeim mikilvægu verkefnum í atvinnumálum sem þola ekki lengri bið. Það er ástæða til að ætla að ýmsir möguleikar opnist á næstunni til að koma þjóðfélaginu tiltölulega fljótt á rétta braut, koma atvinnulífinu á skrið og draga verulega úr því mikla atvinnuleysi sem hér hefur verið í rúmlega þrjú ár. Þá möguleika þarf að nýta og þeim má ekki glutra niður vegna óeiningar og ómarkvissra vinnubragða á Alþingi og í ríkisstjórn.

Mestu skiptir að ríkisstjórnin og Alþingi láti það ekki tefjast frekar að staðfesta rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem unnið hefur verið að í tíu ár. Áætlunin getur lagt grunn að atvinnuuppbyggingu í sátt við náttúruna næsta áratug. Sú uppbygging getur verið á næsta leiti. Ef ríkisstjórnin heldur vel á spöðunum og lýkur við þau verk sem hún þarf að vinna í vetur getum við horft fram á bjartari tíma í atvinnu- og efnahagslífinu strax í vor.

Hilmar Harðarson
Hilmar Harðarson, formaður FIT

Um síðustu mánaðamót náðist áfangi sem lengi hefur verið unnið að varðandi vinnustaðanám. Lengi hefur verið þrýst á stjórnvöld um að standa við fyrirheit að að efla iðn- og starfsnám. Margir nemar hafa ekki komist í starfsþjálfun að loknu bóknámi til að ljúka námi sínu með fullum réttindum.

Undanfarna mánuði hefur verið unnið að þessu máli í ágætu samstarfi milli ráðuneyta og aðila vinnumarkaðarins. Það starf leiddi til þess að í lok október voru í fyrsta skipti veittir styrkir til vinnustaðanáms og starfsþjálfunar á vinnustað samkvæmt nýrri reglugerð um Vinnustaðanámssjóð.

Fimmtíu og sjö milljónum króna var úthlutað til fimmtíu og fjögurra fyrirtækja og stofnana. Öll standast þau kröfur til vinnustaðanáms samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla og hafa á að skipa hæfum tilsjónaraðila á vinnustaðnum. Ríkið greiðir 20.000 krónur á viku fyrir hvern nemanda í allt að 24 vikur.

Þessi lausn tryggir að 174 nemendur úr ýmsum greinum komast í starfsþjálfun fá vinnustað nú í haust.

Ríkisstjórnin hefur einnig ákveðið að leggja fram 450 milljónir króna til að efla vinnustaðanám á árunum 2012-2014. Undirbúningur að stofnun sjóðs, sem á mæta kostnaði fyrirtækja af kennslu eða þjálfun nemenda í starfsnámi, er vel á veg kominn og lýkur væntanlega fyrir áramót.

Ástandið í þessum málum hefur verið óviðunandi en misjafnlega slæmt eftir greinum. Óformleg könnun sýnir að 25% nema í húsamálun við Tækniskólann er með samning.

Verst virðist ástandið vera í bílgreinum. Einungis 14% bílgreinanemenda við Borgarholtskóla eru komnir á samning, samkvæmt óformlegri könnun.

Atvinnulífið hefur hins vegar kvartað undan því að ekki væri nægilegt framboð á fagfólki til starfa í greininni. Þetta útspil Vinnustaðnámssjóðs ætti því að vera kærkomið tækifæri fyrir fyrirtækin til að ráða fólk til starfa og nýta þann mannauð sem bíður eftir að komast á samning í greininni.

Á samdráttartímum er hlutverk ríkisvaldsins ekki síst það að örva atvinnulífið og draga úr atvinnuleysi með opinberum framkvæmdum. Það er nauðsynlegt að ríkisstjórnin sinni því hlutverki og hysji upp um sig buxurnar í þessum málum sem allra fyrst. Ennþá hefur ekki bólað á umfangsmiklu átaki í viðhaldi á opinberum byggingum sem boðað hafði verið.

lífeyrissparnaðar mun skerða réttindi og auka misrétti

Verkalýðshreyfingin hefur lýst mikilli andstöðu við þær hugmyndir sem koma fram í fjárlagafrumvarpinu um að leggja skatt á séreignarsparnað og við aðrar hugmyndir um skattlagningu lífeyrissjóða. Þar eru á ferð tillögur um alvarlegt inngrip í frjálsa kjarasamninga og brot á því samkomulagi sem stjórnvöld gerðu við stéttarfélögin í aðdraganda gildandi kjarasamninga.

Slík skattlagning mundi þýða að almennu sjóðirnir þyrftu að skerða réttindi sinna félaga. Ólíkt réttindum á almennum markaði eru lífeyriséttindi opinberra starfsmanna hins vegar tryggð af ríki og sveitarfélögum. Skattlagning lífeyrissparnaðar mun ekki kalla á skerðingu hjá opinberum starfsmönnum heldur einungis þyngja byrðina sem skattgreiðendur bera nú þegar vegna mikils halla á lífeyrissjóðum opinberra stafsmanna.

Skattlagning lífeyrissparnaðar mun þess vegna auka það bil sem nú er á réttindum lífeyrisþega eftir því hvort þeir eiga réttindi í almennum sjóðum eða í sjóðum opinberra starfsmanna.

Þessar hugmyndir ganga þess vegna í þveröfuga átt við það sem ríkisstjórnin lofaði að beita sér fyrir í yfirlýsingu við gerð kjarasamninganna síðastliðið vor.

Láti ríkisstjórnin verða af hugmyndum um að skattleggja lífeyrissparnað er viðkvæmum stöðugleika á almennum vinnumarkaði teflt í mikla tvísýnu nú þegar endurskoðun kjarasamninganna frá því síðastliðið vor er framundan.

Hilmar Harðarson
Hilmar Harðarson, formaður FIT

Atvinnuleysi í landinu mældist 7,2% í janúarmánuði og hafði minnkað úr 8,5% í janúarmánuði 2011. Í atvinnugreinum þar sem okkar félagsmenn starfa helst hefur ástandið því miður ekki batnað á sama hátt og þær tölur gefa til kynna. Þótt það sé of snemmt að fullyrða nokkuð bendir samt ýmislegt til að það muni rofa til með hækkandi sól.

Fjölmargir atvinnulausir félagar úr okkar röðum sóttu Atvinnumessu, sem haldin var í annað skipti nú í byrjun mánaðarins með þátttöku FIT og fleiri stéttarfélaga. Þar voru kynnt um eitt þúsund ný tækifæri í störfum og starfsþjálfun á höfuðborgarsvæðinu. Atvinnumesssa var liður í átakinu Vinnandi vegur á vegum Vinnumálastofnunar sem ætlunin er að skapi 1.500 ný störf fyrir byrjun sumars. Rætt hefur verið um að samdráttur í atvinnulífinu undanfarin ár hafi neikvæð áhrif á vinnuumhverfi og starfsánægju. Umræðan hefur fram að þessu fyrst og fremst verið byggð á getgátum og tilfinningum. Það var meðal annars þess vegna sem IÐAN ákvað að ráðast í umfangsmikla skoðanakönnun og kanna hug iðnaðarmanna til ýmissa þátta í starfi sínu.

Könnunin fór fram í nóvember og desember og nú liggja fyrir niðurstöður sem byggðar eru á svörum frá meira en 2.100 iðnaðarmönnum sem luku sveinsprófi á árunum 1980-2009. Tveir þriðju hlutar þessa hóps er starfandi við sína faggrein í dag. Þegar niðurstöður þessarar könnunar eru skoðaðar kemur í ljós að áhyggjur þeirra svartsýnustu eru ekki á rökum reistar. Starfsánægja er almenn og mikill faglegur metnaður er ríkjandi meðal iðnaðarmanna. Um 90% segjast bæði vera stolt og ánægð með það starf sem þau gegna. Um tveir af hverjum þremur hafa lokið viðbótarnámi eftir sveinspróf og um átta af hverjum tíu hafa mikinn áhuga á að kynna sér nýjungar í faggreininni.

Langflestir eru ánægðir með þá möguleika sem þeim bjóðast til að þróast í starfi og flestir segjast búa við góða möguleika til starfsþróunar á sínum vinnustað. Þrír af hverjum fjórum segjast mæla með því við ungt fólk að það hefji nám í iðngreininni sem þeir hafa lokið sveinsprófi í.

Iðnarmenn framtíðarinnar voru í sviðsljósinu á Íslandsmeistaramóti iðn- og verkgreina sem var haldið um síðustu helgi. Íslandsmeistaramótið hefur fest sig í sessi og hefur aldrei verið glæsilegra en nú. Um 170 ungir iðnaðarmenn sýndu faglega færni sína og kunnáttu í tuttugu og fjórum iðn- og verkgreinum.

Þátttakendurnir voru allir undir 21 árs aldri og annað hvort nýútskrifaðir eða langt komnir í námi sínu í iðn- og verkgreinaskólum landsins.

Keppendur voru skólum sínum og iðnmenntun í landinu til sóma og góð fyrirmynd fyrir þá um það bil 2.000 grunnskólanemendur sem fylgdust með keppninni en hún er fyrst og fremst haldin til að vekja athygli á þeim tækifærum sem bjóðast til náms og starfs í iðngreinum.

Þessi atriði sem ég hef nefnt hér að ofan sýna okkur það að þótt ástandið í atvinnumálum hafi verið betra standa iðn- og tæknigreinar á sterkum grunni, faglega og félagslega.