Iðnaðarmenn urðu fyrir verulegri kjararýrnun í hruninu

Meiri þátttaka var nú en nokkru sinni fyrr í skoðanakönnun um afstöðu félagsmanna Félags iðn- og tæknigreina til áherslumála í komandi kjarasamningum. Rétta þarf hlut iðnaðarmanna í þeim kjarasamningum sem eru framundan. Flestir leggja mesta áherslu á kaupmáttaraukningu og stöðugleika , allir vilja stöðugleika en hann fæst ekki nema að allir landsmenn taki þátt.

Mikil áhersla er lögð á að færa taxta að greiddum launum, en stór hópur leggur líka þunga áherslu á prósentuhækkun launa. Að lokum eru þeir sem vilja krónutöluhækkun og benda á að stundum hafa verið tvær krónutölur þ.e. ein hjá verkafólki og önnur hjá iðnaðarmönnum svo þeir hækki hlutfallslega í taxtaumhverfinu.

Baráttuvilji félagsmanna – 70% tilbúnir í átök

Yfir 70% félagsmanna segjast tilbúnir í átök ef samningar takast ekki. Sá baráttuvilji sem þarna kemur fram er gott veganesti fyrir samningamenn okkar. Þetta eru skýr skilaboð um að sækja eigi sambærilegar hækkanir og ríki og sveitarfélög hafa samið um á síðustu vikum og mánuðum. Þar hafa stjórnvöld gefið tóninn og sent skilaboð sem hljóta að hafa talsverð áhrif á gang viðræðna á almennum vinnumarkaði.

Enn er verið að safna upplýsingum frá aðildarfélögum Samiðnar til að nota við frágang kröfugerðar okkar. Þeirri vinnu mun ljúka á næstu dögum og stefnt er að því að kröfugerðin verði endanlega afgreidd af miðstjórn og samninganefnd Samiðnar um miðjan febrúar. Væntanlega kemst skriður á kjaraviðræðurnar næstu vikur þar á eftir.

Bankarnir taka ábatann af stýrivaxtalækkun

Um mitt síðasta ár var vaxtamunur stærstu banka Norðurlandanna 1-1,5% en í íslenskum bönkum var vaxtamunur þá 2,6-3,6%. Með þetta í huga hefur verið ótrúlegt að fylgjast með framgöngu bankanna eftir að Seðlabanki Íslands lækkaði loksins stýrivexti sína í lok síðasta árs. Þvert á allar efnahagslegar röksemdir hafa bankarnir tekið til sín allan ábata vegna þessarar vaxtalækkunar. Viðskiptavinir bankanna njóta ekki góðs af því að fjármögnunarkostnaður bankanna hafi lækkað úr 6% í 5,25%.

Þvert á móti greiða heimilin meira fyrir lánsfé og fá minni ávöxtun á sparifé nú en áður. Græðgi þeirra virðast engin takmörk sett því auk þessa hafa þeir líka hækkað þjónustugjöld sín þó verðbólga hafi ekki mælst lægri síðan fyrir hrun. Segja má þó að bankarnir hafi bitið höfuðið af skömminni gagnvart almenningi þegar þeir hækkuðu breytilega vexti verðtryggðra húsnæðislána um áramótin.

Eigendur og stjórnendur hækka sín laun en vilja að aðrir axli ábyrgð

Nú eins og oft áður hefur það gerst í aðdraganda kjarasamninga að talsmenn atvinnurekenda stíga fram og vara launafólk við að gera sér vonir um kjarabætur. Slíkar kröfur ógni stöðugleika og geti kveikt mikið verðbólgubál. Atvinnurekendur bera jafnan fyrir sig að ekki megi gera miklar kröfur vegna þess að framleiðni og framlegð í rekstri fyrirtækja sé lakari hér á landi en í nágrannalöndunum. Þessi málflutningur kemur íslenskum iðnaðarmönnum undarlega fyrir sjónir því kannanir sýna að gríðarleg eignatilfærsla hefur verið frá þeim sem minna eiga til hinna ríkari.

Rétt er að benda atvinnurekendum á að starfskraftar íslenskra iðnaðarmanna eru mjög eftirsóttir á alþjóðlegum vettvangi. Ef raunin er sú að framleiðni og framlegð sé lakari í íslenskum fyrirtækjum en í nágrannalöndunum er rétt að vísa ábyrgð á því á hendur þeirra sem stjórna fyrirtækjunum. Um leið er rétt að stjórnendur og eigendur fyrirtækja útskýri hvernig það gat gerst að stjórnendur fyrirtækja sem hafa óviðunandi framleiðni, lélega framlegð og litla samkeppnishæfni hafa tekið til sín stærri skerf af aukinni verðmætasköpun en nokkrir aðrir á almennum vinnumarkaði.

Hilmar Harðarson, formaður FIT
Janúar 2015