Áunnin réttindi

Við ráðningu í starf er mikilvægt að launafólk og atvinnurekendur hyggi að þeim réttindum sem starfsmaður flytur mögulega með sér, þ.e. hver áunnin réttindi launamannsins hans eru. Telja verður að á launafólki hvíli ríkari skylda í þessu efni en atvinnurekendum enda liggur það næst þeim sem er að ráða sig til starfa að gæta þess að hann glati ekki áunnum réttindum vegna aldurs eða fyrri starfa.

Almennt er íslenskur vinnumarkaður sveigjanlegur og atvinnuskipti tíð. Kjarasamningar og tryggingaréttindi eru því oft á tíðum sniðin að þeim þörfum sem það skapar.

Víða í kjarasamningum er því fjallað um ávinnslu og flutning tiltekinna réttinda sem samið hefur verið um. Það á m.a. við um launasetningu, orlof, veikindarétt og uppsagnarfrest. Kanna verður hvern og einn kjarasamning til þess að ganga úr skugga um hver þessi réttindi eru og hvernig þau ávinnast og flytjast.