Öryggistrúnaðarmenn

Í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 eru ákvæði um öryggistrúnaðarmenn. Þar segir í 5. gr. að í fyrirtækjum, þar sem eru 10 starfsmenn eða fleiri, skuli atvinnurekandi tilnefna einn aðila af sinni hálfu öryggisvörð og starfsmenn skulu tilnefna annan úr sínum hópi öryggistrúnaðarmann.  Samkvæmt 4.gr. laganna skal í fyrirtækjum, þar sem eru 1 til 9 starfsmenn, atvinnurekandi og/eða verkstjóri hans stuðla að góðum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustað, í nánu samstarfi við starfsmenn fyrirtækisins og félagslegan trúnaðarmann þeirra.

Fyrir allan vinnustaðinn

Öryggistrúnaðarmaður er fyrir allan vinnustaðinn, en ekki fulltrúi einstaks verkalýðsfélags. Þeir skulu í samvinnu fylgjast með því að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustað séu í samræmi við lög nr. 46/1980.

Öryggisnefnd – 50 starfsmenn eða fleiri

Í stærri fyrirtækjum, þar sem 50 starfsmenn eru eða fleiri, skal stofna öryggisnefnd, sbr. 6. gr. laga nr. 46/1980. Starfsmenn kjósa úr sínum hópi tvo fulltrúa og atvinnurekandi tilnefnir tvo fulltrúa. Þessari nefnd er ætlað að skipuleggja aðgerðir varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi innan fyrirtækisins, annast fræðslu starfsmanna um þessi efni og hafa eftirlit á vinnustöðum með því að ráðstafanir komi að tilætluðum árangri. Nánar hér.