Veikindi
Til að eiga rétt á greiðslu launa í veikindum þarf að vera ráðningarsamband milli launamanns og atvinnurekanda þ.e. gildur ráðningarsamningur. Engar formkröfur eru um ráðningar almenns launafólks og lög nr. 19/1979 ná með örfáum undantekningum til alls launafólks á almennum vinnumarkaði.
Gildur ráðningarsamningur getur þannig komist á milli launamanns og atvinnurekanda með óformlegum hætti þ.e. munnlega eða skriflega. Fólk sem kann að vera lausráðið samkvæmt ákvæðum í ráðningarsamningi á sama rétt til greiðslna í veikindum og annað fólk ef það hefur áunnið sér veikindarétt skv. kjarasamningi og er veikt þá daga eða á því tímabili sem ákveðið hafði verið að það starfaði hjá atvinnurekanda.