Hópuppsagnir

Lög um hópuppsagnir nr. 63/2000 byggja á tilskipun EB nr. 98/59 (sjá nánar hér ) og gilda um hópuppsagnir atvinnurekanda á starfsmönnum af ástæðum sem ekki tengjast hverjum einstökum þeirra þegar fjöldi starfsmanna sem sagt er upp á 30 daga tímabili er sbr. 1.gr. laganna:

  • að minnsta kosti 10 starfsmenn í fyrirtækjum sem venjulega hafa fleiri en 20 og færri en 100 starfsmenn í vinnu,
  • að minnsta kosti 10% starfsmanna í fyrirtækjum sem venjulega hafa hið minnsta 100 starfsmenn en færri en 300 starfsmenn í vinnu,
  • að minnsta kosti 30 starfsmenn í fyrirtækjum sem venjulega hafa 300 starfsmenn eða fleiri í vinnu.
  • Við útreikning á fjölda þeirra sem sagt er upp skal litið á uppsögn ráðningarsamnings einstakra starfsmanna sem jafngilda hópuppsögnum að því tilskildu að um minnst fimm uppsagnir sé að ræða.

Starfsmenn sem ráðnir eru tímabundið teljast með þegar metið er hvort fyrirtækin séu “venjulega” með þann starfsmannafjölda sem tilgreindur er í 1.gr. laganna eða ekki. Jafnframt telst það til uppsagna þegar ráðningarkjörum er breytt einhliða af atvinnurekanda án þess að þær breytingar tengist viðkomandi starfsmönnum sérstaklega.