Orlofstaka

Samkvæmt orlofslögum nr. 30/1987 skal veita orlof á tímabilinu frá 2. maí til 15. september. Í 5. gr. laganna segir að atvinnurekandi ákveði í samráði við launþega hvenær orlof skuli veitt. Hann skal verða við óskum launþega um hvenær orlof skuli veitt að svo miklu leyti sem unnt er vegna starfseminnar. Að lokinni könnun á vilja launþegans skal atvinnurekandi tilkynna, svo fljótt sem unnt er og í síðasta lagi mánuði fyrir byrjun orlofs, hvenær orlof skuli hefjast, nema sérstakar ástæður hamli.

Í samráði við starfsmann

Með samráði á að tryggja að sem best sátt sé um það hvenær starfsmaður fari í orlof. Samráð þýðir þó ekki að náðst hafi samkomulag. Vinnuveitandi á að kanna hverjar eru óskir starfsmanna og tilkynna síðan eins fljótt og unnt er hvenær orlof skuli hefjast en það er vinnuveitandinn sem hefur endanlegt úrskurðarvald um töku orlofs.

Ákvörðun byggir á starfsemi fyrirtækisins

Við ákvörðun atvinnurekanda um það hvenær orlof skuli veitt segir að hann skuli verða við óskum launþega að svo miklu leyti sem unnt er vegna starfseminnar. Því verða rekstrarlegar ástæður að liggja að baki ákvörðun atvinnurekanda.