Félögin á bakvið FIT

Félag iðn- og tæknigreina var stofnað 12. apríl 2003. FIT á þó rætur sínar að rekja miklu aftar því félögin sem mynduðu FIT eiga sér rúmlega 100 ára sögu. Þessi félög eiga hvert um sig athygliverða sögu sem ekki má gleymast.

Félög iðnaðarmanna sem mynduðu FIT eru eftirfarandi í aldursröð.

Nafn félags og stofnár

Múr og steinsmiðafélag Reykjavíkur var stofnað 23. febrúar 1901. Það var þá fyrsta stéttarfélagið sem stofnað var á 20. öld á Íslandi. Stefán Egilsson var fyrsti formaður félagsins. Félagið lognaðist út af 1912.

Múrarar voru hins vegar ekki af baki dottnir því Múrarafélag Reykjavíkur var stofnað árið 1917 í Bárufélagshúsinu. Þar með var með voru stéttarsamtök múrara á Íslandi endurvakin. Aðalhvatamenn að félagsstofnuninni voru þeir Óli Ásmundsson, Kornelíus Sigmundsson og Ólafur Jónsson.

Fyrsti formaður félagsins var Einar Finnsson. Frumkvöðlarnir höfðu allir unnið við nýbyggingu Nathans og Olsens, Reykjavíkurapótek, og byggt var á árunum 1916 til 1918. Inntökugjaldið var þrjár krónur og árgjaldið 20 krónur fyrta árið. Á þessum tíma máttu múrarar gera ráð fyrir a.m.k. tveggja til þriggja mánaða atvinnuleysi hvern vetur.

Í 16 ár var Múrarafélag Reykjavíkur sameiginlegt félagi sveina og meistara en með stofnun Múararameistarafélags Reykjavíkur 16. mars 1933 varð það eingöngu sveinafélag. Þá tók Sigurður Pétursson við formennsku og kom það í hans hlut að greiða farsællega úr öllum ágreiningi vegna skiptingar stéttarinnar. Félögin tvö áttu í nánu og farsælu samstarfi eftir það.

Ákvæðisvinna hefur frá fyrstu tíð átt rík tök hjá sttéttinni. Á undirbúningsfundi að stofnun Múr og steinsmiðafélagsins, síðla árs 1900, var samþykkt verðskrá yfir alla múr og steinsmiði. Hún var svo samþykkt á félagsfundi í apríl 1903 og er ein elsta ákvæðisvinnuverðskrá hér á landi. Um þetta má lesa í söguágripi í fréttabréfi Múrarafélags Reykjavíkur frá árinu 1997.

Múrarar unnu lengst af í mælingu. Ólafur Pálsson var kosinn mælingafulltrúi árið 1942 og unnu múrarar upp frá því nær eingöngu eftir ákvæðisvinnuverðskránni.

Árið 1943 gekk Múrarafélagið í Alþýðusamband Íslands. Félagið náði þeim langþráða áfanga árið 1956 að eignast sitt eigið húsnæði, ásamt Félagi íslenzkra rafvirkja, þegar félögin keyptu Freyjugötu 27. Þar var félagið til húsa til ársins 1978 þegar félagið eignaðist aðstöðu í Síðumúla.

Lífeyrissjóður múrara var stofnaður á árinu 1965. Hann stóð ekki undir væntingum og var lagður niður í lok árs 1994, þegar hann rann inn í Sameinaða lífeyrissjóðinn.

Í maí 1968 eignaðist Múrarafélagið ásamt meistarafélaginu jörðina Öndverðarnes 1 í Grímsnesi. Hugmyndin var að gefa félagsmönnum kost á landi undir byggingu eigin sumarhúsa auk annarrar orlofsaðstöðu sem félögin höfðu hug á að reisa á jörðinni. Fyrir aldamótin höfðu ríflega 200 félagsmenn fengið lóðir undir sumarhús á jörðinni.

Árið 1973 var Múrarasamband Íslands stofnað. Stofnfélög voru fimm: Múrarafélag Reykjavíkur, Múrarafélag Akureyrar, Múrarafélag Suðurnesja, Múrarafélag Skagafjarðar og Múrarafélag Vesturlands.

Múrarasambandið sótti þá þegar um aðild að ASÍ en þremur árum síðar var þeirri umsókn synjað. Síðar bættust í hópinn Múrarafélag A-Skaftfellinga, Múrarafélag Suðurlands og Múrarafélag Ísfirðinga. Árið 1994 sameinaðist Múrarafélag Suðurlands Múrarafélagi Reykjavíkur.

Múrarafélag Reykjavíkur hefur staðið fyrir ýmis konar útgáfu í gegn um tíðina. Múrarasaga Reykjavíkur, skrifuð af Birni Sigfússyni, kom út árið 1951 í tilefni af fimmtugsafmæli múrarasamtakanna. Múraratal- og steinsmiða var gefið út árið 1967, bókin Líf og hugur kom út 1977, sem var starfssaga Múrarafélags Reykjavíkur á árunum 1950-1975 - rituð af Brynjólfi Ámundasyni. Múrartal- og steinsmiða var gefið út 1993. Steypa lögð og steinsmíð rís eftir Lýð Björnsson kom út 1990 og Safn til sögu Öndverðarness gefin út af Brynjólfi Ámundasyni 2013.

Múrarafélag Reykjavíkur sameinaðist Félagi- iðn og tæknigreina 1. janúar 2009.

Heimildir: Fréttabréf Múrarafélags Reykjavíkur 30. janúar 1997, Múrarasaga Reykjavíkur ofl.

null
Málarameistarafélag Reykjavíkur var stofnað þann 26. febrúar 1928 í baðstofu iðnaðarmanna við Vonarstræti. Stofnfélagar voru 16 að tölu.

Tilgangur félagsins skyldi m.a. vera að efla samvinnu meðal málarameistara og stuðla að menningu og menntun stéttarinnar, gæta í hvívetna hagsmuna félagsmanna og vera málsvari félagsmanna gagnvart almenningi og hinu opinbera.

Á fyrsta fundi félagsins var stjórn kosin, lög félagsins samþykkt og árgjaldið ákveðið 10 kr. og innborgunargjald kr. 15. Fyrstu stjórn félagsins skipuðu þeir Einar Gíslason formaður, Ágúst Lárusson ritari og Helgi Guðmundsson gjaldkeri. Undanfari stofnunarinnar voru bein og óbein áhrif er lögin um iðju og iðnað, svo og lögin um iðnnám voru samþykkt árið 1927, að iðnaðarmenn skipa sér í sérfélög meistara og sveina.

Ekki er hægt að segja annað en að ötullega hafi verið unnið að hagsmunamálum félagsins frá upphafi og margir menn hafa lagt þar hönd á plóg í hinum ýmsu trúnaðarstörfum fyrir félagið. Mannaskipti í stjórn félagsins hafa ekki verið mjög tíð í gegnum árin, því einungis 15 félagar hafa gegnt t.d. formennsku í félaginu frá stofnun þess og þar af hafa 3 af þessum 15 stjórnað félaginu í samtals 48 ár, en það eru þeir Einar Gíslason, fyrsti formaður félagins og jafnframt aðalhvatamaður að stofnun þess, hann gegndi formennsku samtals í 21 ár.

Ólafur Jónsson samtals í 17 ár og Jón E. Ágústsson samfellt í 10 ár.