Reglugerð sjúkra- og styrktarsjóðs

1. gr. Heiti sjóðsins og aðsetur

1.1. Sjóðurinn heitir sjúkra- og styrktarsjóður FIT. Sjóðurinn er eign FIT. Heimili sjóðsins og varnarþing er í Reykjavík.

 

2. gr. Verkefni sjóðsins

2.1. Verkefni sjóðsins er að greiða dagpeninga vegna launataps sjóðfélaga í veikinda og slysatilfellum. Einnig greiðir sjóðurinn launatap vegna langvarandi veikinda maka eða barna undir 18 ára aldri. Eftirlifendur geta sótt um útfararstyrk frá félaginu vegna andláts sjóðfélaga.

2.2. Stjórn sjóðsins er heimilt að veita styrki til sjóðfélaga í formi forvarnar-, hjálpartækja- eða endurhæfingarstyrkja. Einnig er stjórninni heimilt að veita styrki vegna sjúkra- og slysakostnaðar. Sjóðurinn getur varið fé til að stuðla að bættu heilsufari félagsmanna til dæmis með framlögum til rannsókna og verkefna á sviði heilbrigðis- og öryggismála. Stjórn sjóðsins mótar starfsreglur um úthlutanir.

 

3. gr. Tekjur sjóðsins

3.1. Tekjur sjóðsins eru skv. kjarasamningum félagsmanna FIT, sbr. 7. gr. laga nr. 19/1979, samningsbundin gjöld atvinnurekanda til sjóðsins. Vaxtatekjur og annar arður, gjafir, framlög, styrkir og aðrar tekjur sem ákveðnar eru á aðalfundi félagsins hverju sinni.

 

4. gr. Stjórn og rekstur sjóðsins

4.1. Stjórn FIT fer með stjórn sjóðsins og ber ábyrgð á fjárreiðum hans. Stjórn sjóðsins skal halda gerðabók um allar ákvarðanir sínar. Stjórn sjóðsins setur sér vinnureglur samkvæmt reglum þessum. Stjórn sjóðsins og starfsmenn skulu fara með allar umsóknir og afgreiðslur úr sjóðnum sem trúnaðarmál. Stjórn sjóðsins ber að kynna félagsmönnum réttindi sín.

4.2. Þegar farsóttir geisa eða aðrar ófyrirséðar aðstæður ríkja getur stjórn sjóðsins leyst sjóðinn undan greiðsluskyldum sínum um stundarsakir. Stjórnin getur ákveðið að lækka dagpeninga um stundarsakir ef afkoma sjóðsins virðist hætta búin.

4.3. Sjóðnum er heimilt að eiga fasteign eða hlut í fasteign undir starfsemi sína enda komi eðlilegt endurgjald af slíkri fjárfestingu. Sjóðurinn greiðir hluta af sameiginlegum rekstrarkostnaði félagsins eins og hann er á hverjum tíma, þó aldrei hærri upphæð en sem nemur 20% af tekjum sjóðsins.

4.4. Til að ná markmiðum sjóðsins er stjórn sjóðsins heimilt að kaupa viðbótartryggingu í þágu sjóðsfélaga, sem tekur þá yfir þann hluta reglugerðar sjóðsins.

4.5. Stjórn sjóðsins áskilur sér rétt til þess að vísa félagsmönnum til trúnaðarlæknis félagsins teljist þess þörf að mati stjórnar. Sinni félagsmaður ekki boðun í viðtal frá trúnaðarlækni félagsins getur sjóðurinn synjað félagsmanni um greiðslur úr sjóðnum.

 

5. gr. Reikningar sjóðsins og endurskoðun

5.1. Reikningar sjóðsins skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda og félagslegum skoðunarmönnum reikninga á sama hátt og reikningar félagsins. Reikningsár sjóðsins er almanaksárið.

5.2. Fimmta hvert ár skal stjórn sjóðsins fá tryggingarfræðing eða löggiltan endurskoðanda til að meta framtíðarstöðu sjúkrasjóðsins með tilliti til þess að hann geti staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt reglugerð þessari.

 

6. gr. Ávöxtun sjóðsins

6.1. Sjóðnum er heimilt að ávaxta fé sitt með kaupum á ríkisskuldabréfum eða skuldabréfum sem tryggð eru með ábyrgð ríkissjóðs. Með kaupum á markaðs skráðum verðbréfum. Í bönkum og sparisjóðum.

6.2. Í fasteignum tengdum starfsemi sjóðsins. Á annan þann hátt er stjórn sjóðsins metur tryggan.

 

7. gr. Réttur til styrks úr sjóðnum

7.1. Rétt til styrks úr sjóðnum eiga fullgildir félagsmenn sem greiða lögboðið gjald til sjóðsins. Þeir sem vinna á eigin kennitölu (einyrkjar) og greiða til sjóða félagsins. Iðnnemar á námssamningi sem greitt er af til sjóðsins eiga rétt til greiðslna úr sjúkrasjóði án skerðingar. Þeir sem ekki eru félagsmenn en greitt hafa til sjóðsins a.m.k. sex síðast liðna mánuði geta átt rétt á greiðslum úr sjóðnum. Þeir sem á síðastliðnum 2 árum hafa átt rétt til greiðslu úr sjúkrasjóði stéttarfélags innan ASÍ öðlast rétt til greiðslu úr sjóðnum um leið og greitt hefur verið til sjóðsins enda hafi þeir ekki þegar fullnýtt bótarétt sinn.

7.2. Stjórn sjóðsins er heimilt að takmarka í starfsreglum greiðslur og réttindaávinnslu til þeirra sem greiða minna en lágmarkstaxta kjarasamnings viðkomandi félagsmanns segir til um. Hjá einyrkjum er fullt starfa miðað við lágmarksgjald sem stjórn sjóðsins ákveður hverju sinni.

7.3. Stjórn sjóðsins getur ákveðið að þeir sem ekki uppfylla skilyrði 2. eða 3. mgr. eigi rétt á hlutfallslegum greiðslum úr sjóðnum. Þeir sem fullnýtt hafa rétt sinn til sjúkradagpeninga og styrkja ávinna sér rétt að nýju þegar þeir hafa greitt til sjóðsins í 3 mánuði eftir að hafa hafið störf að nýju. Þeir sem öðlast hafa rétt til bóta úr sjóðnum halda áunnum réttindum sínum þótt iðgjaldagreiðsla falli niður tímabundið ef það stafar af atvinnuleysi, vegna veikinda, slysa eða barnsburðar enda hefst greiðsla iðgjalda að nýju innan 12 mánaða.

7.4. Dagpeningar greiðast ekki þegar bótaskylda vegna slyss eða atvinnusjúkdóms, þ.m.t. bifreiðaslysa, sem fellur á tjónvald og bætur fást greiddar skv. skaðabótalögum úr hendi hans eða á grundvelli ábyrgðartryggingar.

7.5. Greiðsla dagpeninga fyrnist sé þeirra ekki vitjað innan 12 mánaða frá því að réttur stofnaðist. Greiðsla annarra bóta fyrnist sé þeirra ekki vitjað innan 6 mánaða frá því að réttur stofnaðist.

7.6. Dagpeningar eru ekki greiddir ef óvinnufærni sjóðfélaga starfar af afleiðingum slyss sem er skaðabótaskylt, þannig að hann eigi rétt á bótum fyrir tímabundið atvinnutjón. Heimilt er við slíkar aðstæður að veita sjóðfélögum lán sem nemur að hámarki dagpeningagreiðslum sem þeir annars hefðu fengið.

Heimilt er að greiða dagpeninga í allt að 120 daga frá þeim tíma þegar launagreiðslum sleppir.
8. gr. Tilhögun greiðslna úr sjóðnum

8.1. Afgreiðsla sjóðsins skal vera á skrifstofu FIT. Sækja skal skriflega um bætur frá sjóðnum. Framvísa ber íslensku Sjúkradagpeningavottorði og leggja fram gögn um hvenær launagreiðslum lauk. Heimilt er að  senda umsækjanda til trúnaðarlæknis félagsins. Sjóðsstjórn er heimilt að hækka dagpeninga og styrki með hliðsjón af launaþróun FIT að teknu tilliti til afkomu sjóðsins. Iðgjöld til sjóðsins endurgreiðast ekki.

 

9. gr. Breyting á reglugerð

9.1. Reglugerð þessari má breyta á lögmætum aðalfundi félagsins, enda hafi þeirra verið getið á fundarboði. Einnig er heimilt að breyta reglugerðinni á félagsfundi, hafi breytingar áður verið ræddar á félagsfundi og þeirra getið í fundarboði. Til þess að breyting teljist samþykkt skal hún hljóta samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða. Tillögur um reglugerðarbreytingar frá einstökum félagsmönnum skulu hafa borist stjórn félagsins fyrir 1. janúar ár hvert.
10. gr. Styrkveitingar og bótagreiðslur

10.1. Greiðsla dagpeninga samkvæmt 1. mgr. 2. gr.

Dagpeningar úr sjúkrasjóði eru tekjutengdar og nema að lágmarki 80% af launatekjum þeim sem greitt var af og sjóðfélagi hafði áður en greiðslur úr sjóðnum hófust. Mánaðaleg greiðsla skal þó ekki nema hærri fjárhæð en kr. 1.016.298,- þessi upphæð skal endurreiknuð árlega miðað við launavísitölu 1.1.2021.

Óvinnufærni þeirra sem ekki eru launamenn (einyrkjar) þarf að hafa staðið samfellt í 31 dag að lágmarki áður en dagpeningagreiðslur hefjast. Dagpeningar eru greiddir mánaðarlega.

Réttur til dagpeninga miðast við 12 síðast liðna mánuði og er réttur til bóta í 120 daga á hverju 12 mánaða tímabili.

Stjórn sjóðsins er heimilt að setja í starfsreglur að lengja megi bótatímabil um allt að 60 daga ef sjóðfélagi á ekki kost á bótum frá lífeyrissjóði vegna tímabundinnar örorku.  Einnig er heimilt að vega upp tekjutap sjóðfélaga vegna mismunar örorkubóta og dagpeninga sjóðsins í jafnlangan tíma.
Stjórn sjóðsins er auk fyrrgreindra 120 daga heimilt að lengja bótatímabil um allt að 90 daga ef sjóðfélagi á ekki kost á bótum frá lífeyrissjóði vegna tímabundinnar örorku.

Heimilt er að greiða félagsmönnum sem vinna í hlutastarf samkvæmt læknisráði dagpeninga í samræmi við hlutfall af skerðingu vinnutíma.
Missi félagsmaður laun vegna langvarandi veikinda maka eða barna undir 18 ára aldri er heimilt að greiða viðkomandi dagpeninga í allt að 90 daga á ári, enda liggi fyrir læknisvottorð um þau veikindi.

10.2 Greiðsla vegna kostnaðar samkvæmt 2. mgr. 2. gr.

Vegna sjúkraþjálfunar samkvæmt læknisráði er heimilt að greiða sjóðfélaga hlutfall af kostnaði en þó aldrei hærri upphæð en hann greiðir. Vegna endurhæfingar samkvæmt læknisráði eftir sjúkdóm / slys er heimilt að greiða sjóðfélaga hlutfall kostnaðar en þó aldrei hærri upphæð en hann greiðir. Rétt til greiðslu úr sjóðnum vegna sjúkraþjálfunar skal sanna með læknisvottorði um að viðkomandi þurfi tiltekna endurhæfingu og kvittun frá löggiltum sjúkraþjálfara.

Sjóðnum er heimilt að taka þátt í óhjákvæmilegum ferðakostnaði sjóðsfélaga innanlands ef hann, maki og eða barn hans undir 18 ára aldri, þarf læknismeðferð eða sjúkrahúsvist utan heimabyggðar og Tryggingastofnun ríkisins greiðir ekki ferðakostnað. Sjóðnum er heimilt að veita sjóðsfélögum dvalarstyrk (hlutfall húsaleigu eða annars gistikostnaðar) vegna sjúkrahúsdvalar eða læknisaðgerðar maka eða barns undir 18 ára aldri sem sækja verður út fyrir heimabyggð innanlands og Tryggingastofnun ríkisins greiðir ekki.

Rétt til greiðslu úr sjóðnum vegna veikinda skal sanna með læknisvottorði. Einnig þarf staðfestingu frá atvinnurekanda á því hvenær viðkomandi fór af launaskrá og yfirlýsingu frá. Tryggingastofnun ríkisins um að ekki sé tekið þátt í ferðakostnaði eða veittur húsnæðisstyrkur.

10.3 Greiðsla dánarbóta samkvæmt 2. gr.

Félagið greiðir eingreiddar dánarbætur við andlát virks og greiðandi sjóðfélaga sem nemi að lágmarki 650.000.- krónum m.v. starfshlutfall hans. Bótafjárhæð breytist árlega miðað við launavísitölu pr. 1.1. 2013 og tekur sömu breytingum og hún. Heimilt er að greiða dánarbætur vegna þeirra sem látið hafa af störfum. Stjórn sjóðsins setur nánari starfsreglur um úthlutanir.

Rétthafar dánarbóta eru: Eftirlifandi maki, börn hins látna (lögráðamenn f.h. barna undir 18 ára aldri) eða sá sem annast framfærslu barna að fullu. Sækja þarf um útfararstyrk á þar til gerðum eyðublöðum og leggja fram dánarvottorð um andlát viðkomandi.

10.4 Stuðlað að bættri heilsu sjóðfélaga samkvæmt 4. mgr. 2. gr.

Heimilt er stjórn sjóðsins að veita styrki til sjóðfélaga í formi forvarnar- hjálpartækja- og endurhæfingar styrkja og styrkja vegna sjúkra- og slysa-kostnaðar. Sjóðurinn getur varið fé til að stuðla að bættu heilsufari félagsmanna til dæmis með framlögum til rannsókna og verkefna á sviði heilbrigðis- og öryggismála. Stjórn sjóðsins tekur ákvarðanir þar að lútandi. Stjórn sjóðsins móti starfsreglur um úthlutanir.

Reglugerðin þannig samþykkt á tveimur félagsfundum 8.11.2007.

Reglugerðin þannig samþykkt á tveimur félagsfundum 25.11.2021.