Vinnuslys og atvinnusjúkdómar

Réttur launafólks til greiðslu launa í forföllum vegna sjúkdóma og slysa sem atvinnurekandi ber ekki ábyrgð á, er eitt það mikilvægasta sem áunnist hefur í kjarabaráttu verkalýðshreyfingarinnar.

Tryggingin sem í því felst að njóta launagreiðslna í slíkum tilvikum hefur meðal annars verið keypt því verði að umsamdar launahækkanir hafi verið gefnar eftir. Því má segja að launafólk greiði þessa tryggingu sjálft. Þetta gerðist m.a. á árinu 1978, þegar lög voru sett á gildandi kjarasamninga, en stjórnvöld hétu launafólki í staðinn félagslegum umbótum. Lágmarksréttindi hér að lútandi er nú að finna í lögum um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla nr. 19/1979. Þessi réttindi eru óaðskiljanlegur hluti af launakjörum hvers og eins og ekki er hægt í ráðningarsamningi að semja sig frá reglum um þau eða afsala sér þeim.

Mikilvægt er að það launafólk sem lendir í slysum við störf sín eða á leið til eða frá vinnu kanni mjög vel rétt sinn vegna þeirra. Annars vegar vegna þess að afleiðingar slysa koma oft á tíðum fram á löngum tíma og skaði sem í upphafi virðist lítill getur leitt til verulega skerts aflahæfis síðar á ævinni.

Hins vegar vegna þess að ef orsakir slyss er að rekja til sakar atvinnurekanda eða aðila sem hann ber ábyrgð á getur launafólk átt rétt til skaðabóta sem ákvarðaðar eru skv. skaðabótalögum nr. 50/1993 og geta numið verulegum fjárhæðum. Tilkynna þarf öll slys til þess að tryggja sönnun og koma í veg fyrir fyrningu. Launafólki sem lendir i slysum er því ætíð bent á að leita til stéttarfélags síns til þess að fá rétt sinn kannaðan og eftir atvikum til þess að njóta aðstoðar frá lögfræðingum sem starfa á vegum félaganna.