Hlutverk trúnaðarmanns

Trúnaðarmenn eru eins og fyrr segir fulltrúar viðkomandi stéttarfélaga á vinnustaðnum. Hlutverk þeirra er skilgreint í 9. gr. laga nr. 80/1938. Þar segir: „Trúnaðarmaður skal gæta þess, að gerðir vinnusamningar séu haldnir af atvinnurekanda og fulltrúum hans og að ekki sé gengið á félagslegan eða borgaralegan rétt verkamanna. Þetta ákvæði nær þó ekki til landbúnaðarverkafólks né áhafna skipa eða báta, sem ekki er skylt að lögskrá á.“ Um réttastöðu þeirra sem lögin ná ekki til er samið um í kjarasamningum.

Að vinnusamningar (kjarasamningar) séu haldnir.

Þetta er meginhlutverk trúnaðarmanna þ.e. að gæta þess að kjarasamningar stéttarfélagsins séu haldnir á vinnustaðnum. Verkamenn skulu snúa sér til trúnaðarmanns með umkvartanir sínar og trúnaðarmanni ber að sinna þeim þegar í stað.

Félagsleg réttindi virt

Félagsleg réttindi eru í dag m.a. skilgreind í Félagsmálasáttmála Evrópu. Þeim má skipta í tvo flokka. Annars vegar vinnuskilyrði, þar á meðal bann við nauðungarvinnu, jafnrétti á vinnustöðum, réttur til að vera í stéttarfélagi, bann við vinnu barna undir 15 ára aldri og vernd vinnandi fólks á aldrinum 15 til 18 ára, jafn réttur farandverkafólks og annarra o.s.frv. Og hins vegar félagsleg samheldni, þar á meðal rétturinn til heilbrigðis, félagslegs öryggis, heilbrigðisþjónustu, réttur aldraðra á félagslegri vernd o.s.frv.

Borgaraleg réttindi virt

Borgaralegu réttindin sem einnig eru friðhelg eru einfaldari og eru opinbers réttarleg svo sem kosningaréttur og kjörgengi og væri atvinnurekanda allskostar óheimilt að meina starfsmönnum að neyta kosningaréttar eða beita þá þrýstingi í þeim efnum.