Lög Félags iðn-og tæknigreina (FIT)

I KAFLI – HEITI FÉLAGSINS OG HLUTVERK

1. grein – Heiti félagsins, heimili, varnarþing og starfssvæði.

Félagið heitir Félag iðn- og tæknigreina, skammstafað FIT.

Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

Starfssvæði félagsins er Ísland. Félagið er aðili að Samiðn og Alþýðusambandi Íslands.

 

2. grein – Tilgangur

Tilgangur félagsins er:

Að sameina alla fagmenntaða starfsmenn í starfsgreinum félagsins, og gæta hagsmuna þeirra.

Að ákveða eða semja um kaup og kjör félagsmanna, tryggja öryggi við vinnu, vinna að bættum aðbúnaði við vinnu og gæta þess að ekki sé gengið á rétt félagsmanna.

Að stuðla að framförum og aukinni verkmenntun í starfsgreinum félagsins.

Að hafa nána samvinnu við félög innan Samiðnar og ASÍ og önnur félög er svipaðra hagsmuna hafa að gæta.

 

II KAFLI – FÉLAGSMENN, RÉTTINDI OG SKYLDUR

3. grein – Félagsmenn, skilgreining og skilyrði aðildar

Félagsmenn geta þeir orðið sem starfa í eftirtöldum iðngreinaflokkum sbr. reglugerð nr. 940/1999
um löggiltar iðngreinar:

  • Bygginga- og mannvirkjagreinum,
  • Náttúrunýtingu,
  • Farartækja- og flutningsgreinum,
  • Hönnun, listum, handverki,
  • Málm-, véltækni- og framleiðslugreinum,
  • Þjónustugreinum.

Iðnfræðingar, vélfræðingar, vélstjórar, vélaverðir, hársnyrtisveinar og tækniteiknarar geta einnig verið félagsmenn.

Félagsmenn geta einnig orðið þeir sem eru nemar, hafa aflað sér framhaldsmenntunar eða starfa í greinunum.

Ellilífeyrisþegar og öryrkjar, sem ekki greiða gjöld til sjóða félagsins af þeim sökum eru einnig fullgildir félagsmenn enda hafi verið að berast af þeim greiðslur til FIT þegar þeir fóru af vinnumarkaði. Um rétt þeirra til greiðslu úr sjóðum félagsins fer eftir reglugerðum sjóðanna.

Óheimilt er að hafna félagsaðild á grundvelli, þjóðernis, búsetu eða lögheimilisfesti.

 

4. grein – Innganga í félagið

Sækja skal skriflega um aðild að félaginu, á eyðublöðum sem félagið leggur til.

Leiki vafi á rétti umsækjanda til inngöngu í félagið skal bera það undir félagsfund til úrskurðar.

Berist félagsgjald til félagsins á grundvelli ákvæða kjarasamnings, skal innan sex mánaða frá því að fyrsta greiðsla barst óska skriflega eftir afstöðu einstaklingsins til fullrar aðildar að félaginu.

Skal það gert viðkomanda að kostnaðarlausu.

Heimilt er að skrá viðkomanda sem aðalfélaga, sinni hann ekki erindinu innan 30 daga, enda hafi verið gerð grein fyrir því að slíkt yrði gert.

 

5. grein – Aukafélagar

Aukafélagar geta þeir orðið, sem uppfylla skilyrði 3. gr. og greiða til félagsins, en starfa erlendis.

Einnig þeir sem hafna félagsaðild samkvæmt 4. grein.

Aukafélagar njóta réttinda sjóða félagsins til jafns við aðra félagsmenn nema öðruvísi sé ákveðið í reglugerð viðkomandi sjóðs eða lögum félagsins. Þeir hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum félagsins en ekki atkvæðisrétt og eru ekki kjörgengir.

Um þátttöku aukafélaga í atkvæðagreiðslu kjarasamninga fer samkvæmt lögum nr.80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

 

6. grein – Félagsskírteini

Hver fullgildur félagsmaður skal, þegar greiðslur hafa borist í þrjá mánuði, fá afhent félagsskírteini, sem hann skal hafa handbært, svo hann geti sannað félagsréttindi sín.

Á skírteininu skal koma fram nafn og kennitala félagsmanns.

Skylt er að sýna félagsskírteinið við inngöngu á fundi félagsins og á vinnustað að kröfu trúnaðarmanns eða eftirlitsmanns félagsins.

 

7. grein – Úrsögn úr félaginu

Félagsmanni er frjálst að ganga úr félaginu, enda sé hann skuldlaus við það þegar úrsögnin tekur gildi. Félagsmaður telst skuldlaus geti hann sýnt fram á að félagsgjöld hafi verið dregin af launum hans.

Úrsögn á að vera skrifleg og afhendast skrifstofu félagsins.

Enginn getur sagt sig úr félaginu eftir að atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun hefur verið auglýst, eða ákvörðun um vinnustöðvun hefur verið tekin, og þar til vinnustöðvun hefur formlega verið aflýst. Einnig er óheimilt að segja sig úr félaginu til þess að taka upp störf félagsmanna í öðru
félagi sem lagt hefur niður vinnu vegna deilu.

 

8. grein – Réttindi félagsmanna

Með aðild öðlast félagsmaður:

  • Rétt til að vinna samkvæmt þeim kjörum sem samningar félagsins greina hverju sinni. Rétt til styrkja úr sjóðum félagsins samkvæmt reglugerðum þeirra. Rétt til afnota af orlofshúsum félagsins samkvæmt reglugerð orlofssjóðs.
  • Rétt til aðstoðar vegna vanefnda á kjarasamningum, ráðningarkjörum og til annarrar þjónustu sem félagið veitir.
  • Málfrelsi, atkvæðisrétt, kjörgengi og tillögurétt á fundum félagsins samkvæmt lögum þess og fundarsköpum.

 

9. grein

Þeir félagsmenn, sem vegna starfa í þágu félagsins tapa af atvinnutekjum sínum, eiga rétt á að félagið bæti þeim tjón þeirra.

 

10. grein – Skyldur félagsmanna

Öllum félagsmönnum er skylt að hlíta lögum félagsins, samþykktum þess og samningum í hvívetna.

Stjórn félagsins er heimilt að víkja hverjum þeim úr félaginu sem brýtur lög þess, reglur eða fundarsamþykktir.

Brottrekstur má hlutaðeigandi kæra til félagsfundar. Úrskurði félagsfundar má skjóta til miðstjórnar Samiðnar og ASÍ sem tekur endanlega ákvörðun.

 

11. grein – Félagsgjöld

Félagsgjald skal vera 0,8% af heildarmánaðarlaunum félagsmanns hvers mánaðar. Stjórn félagsins er heimilt að ákveða hámarks og lágmarks félagsgjald á ársgrundvelli. Endurgreiðsla á ofgreiddum félagsgjöldum fer fram fyrir 15. júní ár hvert. Heimilt er að takmarka í reglugerðum
sjóða félagsins greiðslur og réttindaávinnslu þeirra sem greiða minna en hálf viðmiðunarlaun iðnaðarmanna eins og þau eru árlega reiknuð út af ASÍ.

Standi félagsmaður í skuld við félagið í sex mánuði eða meira og geti ekki sannað að félagsgjöld hafi verið dregin af launum hans, eða sýnt fram á greiðslu til félagsins, missir hann réttindi sín þar til hann hefur samið um skuld sína við félagið.

Sé félagsmaður án atvinnutekna vegna, elli, örorku, veikinda eða náms er hann undanþeginn greiðslu félagsgjalds, enda sýni viðkomandi vottorð þar að lútandi.

Félagsmaður sem fellur af atvinnuleysisbótum samkvæmt reglum Vinnumálastofnunar skal undanþeginn greiðslu félagsgjalds þar til hann fer að afla tekna, eða í allt að 24 mánuði.

 

12. grein – Réttindi og skyldur félagsmanna meðan á vinnustöðvun stendur

Eigi félagið í verkfalli ber hverjum félagsmanni í viðkomandi starfsgrein eða svæði að leggja skilyrðislaust niður alla vinnu sem hann tekur greiðslu fyrir hjá öðrum í starfsgreinum FIT.

Óheimilt er félagsmönnum, meðan á verkfalli stendur, að hefja vinnu þar sem félagsmanni hefur verið vikið úr starfi, nema þær ástæður liggi fyrir sem stjórn félagsins tekur gildar.

Leiði þátttaka félagsmanns í vinnustöðvun á vegum félagsins til þess að félagsmaðurinn missi starf sitt, ber félaginu að veita honum fulltingi sitt við að fá hlut sinn réttan og aðstoða hann við að komast í vinnu á ný.

 

III. KAFLI – STJÓRN FÉLAGSINS OG STOFNANIR ÞESS

13. grein – Aðalfundur

Aðalfund skal halda eigi síðar en 1. maí ár hvert. Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Allir félagsmenn eiga rétt á að sitja aðalfund.

Aðalfundur er lögmætur ef til hans er boðað með minnst viku fyrirvara með fundarboði í fjölmiðli og vefmiðlum FIT eða með öðrum rafrænum hætti til félagsmanna. Á aðalfundi skulu þessi mál tekin fyrir:

  • Skýrsla félagsstjórnar um starf félagsins á liðnu starfsári.
  • Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til afgreiðslu.
  • Ákvarðanir um ávöxtun sjóða félagsins.
  • Laga- og reglugerðabreytingar ef þeirra hefur verið getið í fundarboði.
  • Kjöri stjórnar lýst.
  • Kosningar í nefndir, fulltrúaráð og þing.
  • Önnur mál.

 

14. grein – Félagsfundir

Milli aðalfunda hafa félagsfundir æðsta vald í öllum félagsmálum.

Félagsfundi skal halda þegar stjórn þykir ástæða til eða þegar minnst 1% félagsmanna óska þess skriflega og tilgreina fundarefni. Ber þá stjórn að halda fund innan hálfs mánaðar.

Félagsfundur er lögmætur ef til hans hefur verið boðað með minnst þriggja sólarhringa fyrirvara með sama hætti og kveðið er á um í 13. grein laga þessara. Þó er stjórn heimilt að boða til fundar á annan hátt ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Í þeim tilvikum skulu tilkynningar ítrekaðar í hljóðvarpi og/eða sjónvarpi.

Ekki skulu önnur mál rædd á félagsfundi en þau sem getið er í fundarboði, nema meirihluti fundarmanna samþykki og brýnar ástæður eru til. Slík mál er þó ekki hægt að afgreiða endanlega fyrr en á næsta fundi enda verði þeirra getið í fundarboði þess fundar.

Einfaldur meirihluti ræður úrslitum nema öðruvísi sé ákveðið í lögunum.

 

15. grein – Fundargerðir

Halda skal fundagerðir á öllum fundum félagsins. Þar skal geta dagskrár og allra mála sem tekin eru fyrir, færa inn allar tillögur sem fram koma í hverju máli og geta um afgreiðslu þeirra. Bóka skal nöfn ræðumanna og afstöðu þeirra til viðkomandi dagskrárliða. Rita má fundargerð í tölvu. Sé það gert skal hún prentuð út, árituð á hverja síðu og undirrituð af fundarstjóra og ritara.

Fundargerðir aðalfunda og félagsfunda skulu liggja frammi á skrifstofu félagsins í fjórtán daga eftir fund. Komi ekki fram skriflegar athugasemdir við fundargerð á því tímabili telst hún samþykkt og staðfestir formaður eða fundastjóri ásamt ritara með áritun sinni fundargerðina. Komi fram athugasemdir skal geta þeirra í upphafi næsta félagsfundar og færa þær inn í fundargerð þess fundar.

 

16. grein –Stjórn

Stjórn félagsins skipa 14 aðalmenn: Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og tíu meðstjórnendur. Varamenn eru fimm. Varamenn skulu boðaðir á alla stjórnarfundi og hafa þar málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt nema aðalmaður forfallist. Falli atkvæði jafnt í stjórn ræður atkvæði formanns.

Stjórn félagsins hefur yfirstjórn allra félagsmála milli funda.

Aðalstjórn félagsins er jafnframt stjórn allra sjóða.

Stjórn félagsins er samninganefnd við gerð kjarasamninga. Stjórn er heimilt að framselja samningsumboð sitt.

 

17. grein – Kosningar í embætti

Fyrir 1. febrúar ár hvert skal stjórn félagsins gera tillögu um uppstillingarnefnd sem starfar milli aðalfunda.

Fyrir aðalfund ár hvert skal kjósa hluta stjórnar. Kosningu skal skipt milli ára þannig að annað árið sé kosinn formaður, sex meðstjórnendur og tveir varamenn en hitt árið sjö meðstjórnendur og þrír varamenn. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum, samkvæmt ákvæðum 16. greinar.

Á aðalfundi skal árlega kjósa uppstillinganefnd, tvo skoðunarmenn reikninga, helming trúnaðarráðs og fulltrúa í fulltrúaráð lífeyrissjóða sem FIT á aðild að. Auk þess skal kjósa fulltrúa á þing ASÍ og Samiðnar þau ár sem þau eru haldin.

Uppstillinganefnd skal skila tillögum að framboðum í stjórn, nefndir og fulltrúaráð ár hvert og þing Samiðnar og ASÍ þau ár sem þau eru haldin, og skal stjórn fyrir 1. febrúar kynna framkomnar tillögur á heimasíðu félagsins og í rafrænu fréttabréfi.

Félagsmenn geta boðið sig fram til formanns eða stjórnar hafi þeir aflað sér undirskrifta 30 félagsmanna FIT sem meðmælenda og skilað framboði fyrir 15. febrúar. Hver félagsmaður getur einungis mælt með einum frambjóðanda í hvert embætti. Komi aðeins ein tillaga fram er stjórnin
sjálfkjörin, en ef fleiri tillögur koma fram skal viðhöfð póstatkvæðagreiðsla eða rafræn kosning.

 

18. grein – Verkefni einstakra stjórnarmanna

Verkefni formanns:

  • Formaður félagsins er fulltrúi þess og félagsstjórnar út á við. Hann boðar til stjórnar- og trúnaðarmannaráðsfunda, semur dagskrá fyrir þá og stjórnar þeim.
  • Formaður ritar undir fundargerðir ásamt ritara.
  • Formaður hefur umsjón með starfsemi félagsins og eftirlit með því að fylgt sé lögum, reglum og samþykktum þess.
  • Formaður stjórnar er jafnframt formaður trúnaðarráðs og samninganefndar.
  • Í forföllum formanns gegnir varaformaður öllum skyldum hans.

Verkefni ritara:

  • Ritari annast bókun fundargerða.
  • Ritari ber ábyrgð á færslu félagatals, það sé uppfært og til reiðu.
  • Ritari stjórnar er jafnframt ritari trúnaðarráðs og samninganefndar.

Verkefni gjaldkera:

  • Gjaldkeri hefur eftirlit með fjármálum félagsins nema annað sé ákveðið í lögum þess.
  • Gjaldkeri annast um að sjóðir félagsins séu varðveittir í samræmi við fyrirmæli stjórnar og
    aðalfunda.
  • Gjaldkeri hefur eftirlit með því hvenær og fyrir hvaða tímabil félagsmaður greiðir gjöld sín.
    Að öðru leyti skipta stjórnarmenn með sér verkum.

 

19. grein – Starfsmenn

Stjórn félagsins ræður framkvæmdastjóra og framkvæmdastjóri ræður aðra starfsmenn fyrir félagið. Skal framkvæmdastjóri hafa á hendi allan daglegan rekstur félagsins eftir skipunarbréfi stjórnar.

 

20. grein – Trúnaðarráð

Trúnaðarráð skal starfa í félaginu.

Í trúnaðarráði skulu eiga sæti, auk félagsstjórnar, 41 félagsmaður og 41 til vara, sem kjörnir eru á sama hátt og félagsstjórn. Skulu þeir númeraðir frá 1 upp í 82 og kjörnir þeir sem hafa oddatölu annað árið og jafna tölu hitt árið. Þeir skulu endurspegla sem flestar starfsgreinar og svæði
félagsins. Auk þess eiga trúnaðarmenn félagsins á vinnustöðum sæti í ráðinu sem og þeir sem kjörnir eru til trúnaðarstarfa fyrir félagið.

Þegar mikilvæg mál liggja fyrir og stjórn félagsins telur erfitt eða of tafsamt að ná saman félagsfundi skal formaður kalla saman trúnaðarráð og leggja málið fyrir það. Slík mál skal þó einnig leggja fyrir næsta félagsfund.

Við undirbúning kjarasamningsgerðar skal kalla trúnaðarráð til starfa í samræmi við ákvæði laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Trúnaðarráðsfundur er lögmætur þegar löglega er til hans boðað samkvæmt 14. grein laga þessara.

 

21. grein – Kjörstjórn

Kjörstjórn skal vera starfandi í félaginu. Hlutverk hennar er að annast um atkvæðagreiðslur um kjarasamninga, verkföll og allsherjaratkvæðagreiðslur samkvæmt lögum félagsins.

Tveir kjörstjórnarmenn og tveir til vara skulu kjörnir á sama hátt og félagsstjórn. Vegna atkvæðagreiðslna um kjarasamninga og verkföll skipar samninganefnd þriðja kjörstjórnarmanninn og skal hann vera formaður kjörstjórnar.

Við aðrar allsherjaratkvæðagreiðslur skipar miðstjórn ASÍ þriðja kjörstjórnarmanninn og skal hann vera formaður kjörstjórnar.

 

22. grein – Aðrar starfsnefndir og ráð

Stjórn félagsins eða félagsfundi er heimilt að skipa starfsnefndir og fela þeim ákveðin verkefni eftir nánari fyrirmælum hverju sinni. Fastanefndir og ráð skulu kjörnar á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund.

 

IV. KAFLI – FJÁRMÁL

23. grein – Tekjur félagsins og gjöld

Af tekjum félagsins skal greiða öll útgjöld þess og annan kostnað er stafar af samþykktum félagsfunda eða stjórnar. Meiriháttar ráðstafanir á eigum félagsins krefjast samþykkis félagsfundar.

 

24. grein – Endurskoðun reikninga

Reikningsár félagsins er almanaksárið.

Félagslegir skoðunarmenn reikninga skulu yfirfara reikninga félagsins fyrir liðið reikningsár og leggja fram athugasemdir sínar, ef nokkrar eru, fyrir aðalfund. Hlutverk þeirra er m.a. að hafa eftirlit með því að fjármunum félagsins sé í öllu ráðstafað í samræmi við félagsvenjur og gildandi
heimildir.

Að lokinni skoðun skulu þeir árita reikningana.

Félagslegir skoðunarmenn skulu hafa aðgang að bókum, fylgiskjölum og verðmætum félagsins hvenær sem þeir óska, en gjaldkeri og starfsmaður hafa rétt til að vera viðstaddir alla talningu á fé og öðrum eignum.

Reikningar félagsins skulu jafnframt endurskoðaðir og áritaðir af löggiltum endurskoðanda, sem stjórn félagsins ræður hverju sinni.

 

25. grein – Sjóðir í eigu eða vörslu félagsins

Helstu sjóðir í eigu og vörslu félagsins eru: félagssjóður, sjúkrasjóður, vinnudeilusjóður, orlofsheimilasjóður og menntasjóður.

Um alla sjóði félagsins, aðra en félagssjóð, skulu gilda sérstakar reglugerðir samþykktar á aðalfundi og verður þeim aðeins breytt á sama hátt og félagslögum. Reglugerð hvers sjóðs skal tilgreina hlutverk sjóðsins, hverjar tekjur hans skuli vera, hvernig verja skuli fé hans og hvernig
honum skuli stjórnað.

Sjóðir félagsins skulu ávaxtaðir á tryggan hátt að mati stjórnar félagsins og í samræmi við ákvörðun aðalfundar.

 

V. KAFLI – ÖNNUR ÁKVÆÐI

26. grein – Lagabreytingar

Lögum þessum má breyta á aðalfundi félagsins enda hafi breytinganna verið getið í fundarboði.

Einnig er heimilt að breyta lögunum á félagsfundi, hafi lagabreytingar áður verið ræddar á félagsfundi og breytinganna getið í fundarboði.

Til þess að breyting teljist samþykkt skal hún hljóta samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða.

Tillögur um lagabreytingar frá einstökum félagsmönnum skulu hafa borist stjórn félagsins fyrir 1. janúar ár hvert.

Lagabreytingar taka gildi að fenginni staðfestingu miðstjórnar ASÍ.

 

27. grein

Kjör fulltrúa á þing ASÍ skal fara fram samkvæmt 30 gr. laga ASÍ.

 

28.grein – Félagsslit

Félaginu verður ekki slitið nema tillaga þar að lútandi hljóti 2/3 hluta greiddra atkvæða í allsherjaratkvæðagreiðslu. Úrsögn úr Samiðn og ASÍ skal fara fram með sama hætti. Verði samþykkt að leggja félagið niður skal Samiðn eða Alþýðusamband Íslands varðveita eignir þess þar til annað stéttarfélag er stofnað með sama tilgangi. Fær það félag þá umráð eignanna að áskildu samþykki miðstjórnar Alþýðusambandsins.

 

29. grein – Sameining félaga

Um sameiningu félagsins við annað stéttarfélag skal fjallað á sama hátt og lagabreytingar samkvæmt 26. grein.

 

30. grein – Starfsemi leggst af

Leggist starfsemi félagsins af, skal fara með eignir félagsins með sama hætti og kveðið er á um í 28. grein.

 

Þannig samþykkt á aðalfundi 23. mars 2024.

Lög á PDF-formi – Ef ósamræmi er á milli texta þá gildir PDF-skjalið