Ráðningarsamningar

Hvað er ráðningarsamningur?

Þegar fólk er ráðið til vinnu er það gert með samkomulagi atvinnurekanda og launamanns. Þetta samkomulag er nefnt ráðningarsamningur og samband þeirra ráðningarsamband. Ráðningarsamning má skilgreina sem samning þar sem annar samningsaðilinn, launamaðurinn, skuldbindur sig til að starfa hjá hinum samningsaðilanum, atvinnurekandanum, undir stjórn hans og á ábyrgð hans, gegn greiðslu í peningum eða öðrum verðmætum.

Ráðningarsamningur getur hafa stofnast jafnvel þótt engin orðaskipti hafi átt sér stað milli aðila. Auglýst er eftir fólki til starfa og að þeir sem hug hafa á störfum mæti á tilteknum stað á tilteknum tíma. Þeir sem mæta eru síðan settir til starfa og ráðningarsamband komið á.

Þó það sé ekki skilyrði þess að ráðning komist á, að ráðningarsamningur sé gerður eða ráðning staðfest skriflega, geyma kjarasamningar ákvæði um að annað af tvennu skuli staðfesta ráðningu skriflega eða ganga frá skriflegum ráðningarsamningi. Að sjálfsögðu verða öll sönnunaratriði mun auðveldari hafi verið gerður skriflegur samningur, jafnvel þótt í honum sé aðeins vitnað í almenna kjarasamninga. Atriði eins og upphaf starfa og það hvort verið sé að semja um einhver afbrigði frá kjarasamningi getur verið nauðsynlegt að sýna fram á síðar. Lög geyma einnig í nokkrum tilvikum ákvæði um formbindingu tiltekinna ráðningarsamninga.

Ráðningarsamningur verður að vera í samræmi við kjarasamning og ákvæði í ráðningarsamningi um lakari rétt launamanns eru ógild samkvæmt 1. gr. laga um starfskjör launafólks nr. 55/1980.

Hér er dæmi um ráðningarsamning.

Tímabundinn eða ótímabundinn ráðningarsamningur?

Ráðningarsamningar geta verið annaðhvort tímabundnir eða ótímabundnir. Sé ekki sérstaklega tekið fram að ráðningarsamningur sé tímabundinn, er hann ótímabundinn. Sé samningur tímabundinn skal tilgreina gildistíma hans, þ.e. frá hvaða tíma og til hvaða tíma hann gildir. Tímabundinn samningur getur einnig verið bundinn ákveðnu verkefni, t.d. afleysing í fæðingarorlofi hjá tilteknum aðila o.s.frv.

Tímabundnir ráðningarsamningar eru öðruvísi en ótímabundnir að því leyti að aðilar þurfa ekki að segja slíkum samningum upp, það er fyrirfram búið að ákveða hvenær starfslokin verða með gildistíma samningsins. Samningnum einfaldlega lýkur á ákveðinni dagsetningu eða við lok einhvers ákveðins verkefnis. Við það tímamark falla niður réttaráhrif ráðningar.

Meðan á tímabundnum ráðningarsamningi stendur njóta starfsmenn allra almennra réttinda, s.s. veikindaréttar, orlofsréttar o.s.frv., í samræmi við ákvæði kjarasamninga.