Starfslok vegna brota
Aðilum, sem bundnir eru af ráðningarsamningi, er skylt að virða samninginn og vinna samkvæmt honum. Sé það ekki gert hefur annar hvor aðilinn gerst sekur um vanefndir á samningi. Vanefndir geta verið mismiklar; allt frá því að starfsmaður mætir 5 mínútum of seint einn daginn til þess að hann hleypur fyrirvaralaust úr starfi og allt frá því að atvinnurekandi fyllir ekki rétt út launaseðil og til þess að rekur starfsmann án ástæðu og fyrirvaralaust.
Úrræði vegna vanefnda
Úrræði gagnaðila vegna vanefnda af þessu tagi geta verið allt frá því að gera athugasemd vegna vanefndarinnar og til riftunar samnings eða kröfu um skaðabætur. Fer það eftir því hversu veruleg vanefndin er hversu alvarlegt brot er og einnig skiptir máli hvernig aðilar bregðast við broti.
Þau tilvik geta orðið að starfsmanni er heimilt að hætta störfum fyrirvaralaust og rifta ráðningarsamningi. Sömuleiðis getur atvinnurekandi átt til þess fullan rétt að víkja manni úr starfi á stundinni. Þetta gerist ef annar hvor aðili brýtur á hinum veigamikil atriði ráðningarsamnings. Skilyrði þess að rifta megi ráðningarsamningi eru almennt hin sömu og skilyrði þess að rifta megi öðrum tegundum samninga. Vanefnd verður að vera veruleg. Það verður að meta hverju sinni hvort um verulega vanefnd er að ræða eða ekki. Dómstólar eiga um það endanlegt mat.