Uppsögn

Skilgreina má uppsögn sem tilkynningu annars aðila ráðningarsamnings, atvinnurekanda eða starfsmanns, til hins aðila um ráðningarslit.


Uppsögn er ákvöð

Yfirlýsing eða tilkynning um uppsögn er ákvöð í skilningi samningalaga nr. 7/1936, sjá hér Hrd. 1988:518. Með ákvöð er átt við yfirlýsingu sem ætlað er að skuldbinda móttakanda en ekki einungis þann sem yfirlýsinguna gefur. Það er meginregla í samningarétti að aðili getur ekki einhliða skuldbundið annan aðila en reglurnar um ákvöð eru undantekning frá því. Samkvæmt reglunum um ákvöð bindur uppsögn viðtakanda frá þeim tíma sem hún er komin til hans. Uppsögn er talin komin til viðtakanda þegar hún er komin þannig að hann á þess kost að kynna sér efni hennar, til dæmis bréf komið í bréfakassa eða tilkynning um ábyrgðarbréf hefur borist þannig að viðtakandi átti að hafa tækifæri til að nálgast bréfið. Telji atvinnurekandi sig hafa sagt upp ráðningarsamningi starfsmanns ber hann sönnunarbyrði þar um sbr. m.a. HRD 853/2017.

Réttaráhrif uppsagnar

Eins og að framan er greint er uppsögn tilkynning um ráðningarslit. Ráðningarslitin sjálf verða síðar, þegar uppsagnarfrestur er liðinn. Uppsögnin sem slík hefur ekki áhrif á réttarstöðu starfsmannsins í starfi, hann heldur áunnum veikindarétti og orlofsrétti og heldur áfram að ávinna sér rétt þann tíma sem uppsagnarfrestur er að líða.

Réttaráhrif uppsagnar verða fyrst í lok uppsagnarfrests, eða við ráðningarslit. Þá fellur ráðningarsamningurinn úr gildi með öllum þeim réttaráhrifum sem hann hafði. Meginskyldur aðila samkvæmt ráðningarsamningi eru þá ekki lengur til staðar, svo sem hlýðniskyldan og skyldan til greiðslu launa, en annars konar kröfur geta myndast, svo sem krafa til að fá áunnið orlof uppgert við ráðningarslit samkvæmt 7. gr. orlofslaga nr. 30/1987.

Hafi maðurinn veikst áður en til uppsagnar kemur á hann rétt á launum þar til hann hefur fullnýtt sér áunninn veikindarétt. Veikist maður hins vegar eftir að uppsögn er fram komin þá líkur ráðningarsambandinu við lok uppsagnarfrestsins þó veikindaréttur hafi ekki verið tæmdur. 1. mgr. 36. gr. sjómannalaganna nr. 35/1985 hefur hins vegar verið túlkuð þannig í Hæstarétti (Hrd. 1985:43 og Hrd. 1993:365) að jafnvel þótt búið sé að segja manni upp þegar hann veikist, eða ráðning tímabundin og ráðningarslit ákveðin, þá eigi sjómaðurinn rétt á launum eins og veikindaréttur hans kveður á um fram yfir fyrirhuguð starfslok. (Í Aukadómþingi Rangárvallasýslu 15. maí 1990, var talið að uppsögn manns hafi ekki getað tekið gildi fyrr en þremur mánuðum eftir að tveggja mánaða veikindaleyfi hans lauk en vart verður byggt á þeim dómi sem almennu fordæmi.)

Verði að starfsmaður hins vegar fyrir vinnuslysi ( slysi við vinnu eða á leið til eða frá vinnu ) á uppsagnarfresti, og ber þá að greiða honum laun eins og áunninn veikinda- og slysaréttur ( áunninn veikindaréttur + 3 mánuðir ) hans segir til um svo lengi sem hann er óvinnufær vegna slyssins.

Texti af vef ASÍ.