Vinna á uppsagnarfresti

Uppsögn breytir ekki ein og sér efni ráðningarsamnings. Á uppsagnarfresti ber því að fara eftir ákvæðum samningsins, starfsmaður að vinna störf sín og atvinnurekandi að greiða laun.

Algengt er að atvinnurekandi taki um það ákvörðun, þegar hann segir starfsmanni upp störfum, að starfsmaður þurfi ekki að vinna út uppsagnarfrest. Verður að telja að í krafti skipunarvalds atvinnurekanda sé honum heimilt að mæla svo fyrir, enda greiði hann starfsmanni laun út uppsagnarfrest. Ráðningarsambandið helst þá út uppsagnarfrestinn en atvinnurekandi fellur frá því að krefja starfsmann um vinnuframlag hans. Meðan uppsagnarfrestur er að líða ber atvinnurekanda að greiða starfsmanni laun miðað við hvað ætla mætti að hann hefði haft í laun ef hann hefði unnið uppsagnarfrestinn. Þetta á m.a. við reglulega unna yfirvinnu, óunna yfirvinnu og fleira af slíkum toga en á einnig við t.d. um bakvaktir sem launamaður þarf ekki að standa og launakjör sem ekki eru bein endurgreiðsla útlagðs kostnaðar launamanns.