Iðnaðarmenn ganga sameinaðir til kjarasamninga

SAMIÐN, Félag bókagerðarmanna, Rafiðnaðarsamband Íslands, MATVÍS, Félag hársnyrtisveina og VM – Félag vélstjóra og málmtæknimanna hafa 18.000 iðnaðarmenn innan sinna vébanda. Það er drjúgur meirihluti starfandi iðnaðarmanna í landinu.

Þessi félög og sambönd iðnaðarmanna hafa náð samkomulagi um samstarf sín á milli í komandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Iðnaðarmenn hafa lagt fram sameiginlega kröfugerð og munu stilla sama verkfallsaðgerðir sínar ef á þarf að halda. Einnig munu félögin hafa samráð sín á milli á vettvangi Alþýðusambands Íslands í þeirri lotu sem framundan er.

Á sama tíma og almennt launafólk hefur látið sér nægja 2,8% launahækkun til að skapa skilyrði fyrir stöðugleika í efnahagslífinu hafa einstakir hópar fólks sem vinna bæði hjá hinu opinbera og á almennum markaði sótt sér 20-40% launahækkun til sinna vinnuveitenda. Það er alveg ljóst að iðnaðarmenn munu ekki sitja hjá meðan aðrir hópar taka með þessum hætti fyrirfram út þann hagvöxt sem launafólki er ætlað að skapa á næstunni.

Á síðustu vikum hefur það einnig gerst að verslunin í landinu hefur tekið til sín að miklu leyti afraksturinn af lækkun vörugjalda og almenns virðisaukaskatts um síðustu áramót. Sú breyting hefði átt að skila sér í lægra vöruverði til heimilanna í landinu en er þess í stað að miklu leyti að hverfa í hina djúpu vasa verslunarinnar í landinu.

Eigum inni umtalsverðar kjarabætur

Ef launaþróun í landinu er skoðuð til lengri tíma sést að launavísitalan hækkaði um tæp 75% frá árinu 2006 en á sama tíma hækkaði launataxti iðnaðarmanns með fimm ára starfsreynslu aðeins um 64%.

Það eru þess vegna öll rök sem hníga að því að iðnaðarmenn eigi inni kjarabætur í viðræðunum sem eru framundan við okkar viðsemjendur. Jafnvel formaður Samtaka iðnaðarins hefur viðurkennt að innistæða sé fyrir meiri hækkun launa en nefndar eru í málflutningi atvinnurekenda og í villandi áróðursauglýsingum sem Samtök atvinnulífsins láta birta í fjölmiðlum til að reyna að grafa undan samstöðu launafólks.

Það er góðs viti við upphaf þessarar vegferðar sem framundan er, á leiðinni að nýjum kjarasamningi að félög iðnaðarmanna mæta sameinuð til leiks. Fréttir af samstarfssamningnum hafa fengið sterk og góð viðbrögð félagsmanna. Það er góður baráttuhugur innan okkar raða og viðhorfskannanir sýna að félagsmenn eru reiðubúnir að grípa til verkfallsaðgerða ef nauðsyn krefur.

Krafa okkar í þessum viðræðum byggist á að orðið er tímabært að segja skilið við launakerfi þar sem dagvinnulaun eru lág og launafólk neyðist til að vinna mikla yfirvinnu til að geta framfleytt sér og fjölskyldu sinni. Langur vinnudagur, léleg grunnlaun og mikil yfirvinna einkennir starfsumhverfi íslenskra iðnaðarmanna en það er starfsumhverfi sem fælir frá sér ungt fólk.

Það þarf að vinna markvisst að því að færa kjör og starfsskilyrði launafólks á Íslandi nær því sem tíðkast í okkar helstu nágrannalöndum og stefna í átt að fjölskylduvænu samfélagi þar sem hægt er að ná eðlilegu jafnvægi milli vinnutíma og fjölskyldulífs. Við viljum einnig taka höndum saman við atvinnurekendur um að gera átak til að efla nýliðun í iðngreinum og gera íslenskan iðnað aðlaðandi fyrir ungt, velmenntað fólk sem greinin þarf á að halda að komi til starfa.

Við teljum að okkur geta náð þessum markmiðum með betra skipulagi, aukinni framleiðni og styttri vinnutíma. Við viljum ræða þessi mál við viðsemjendur okkar og ná niðurstöðu um hvernig við eigum að skipta aukinni framleiðni vegna styttri vinnutíma milli launamanna og atvinnurekenda. Við teljum að miklir möguleikar séu á að ná árangri á þessum sviðum og bjóðum atvinnurekendum til samstarfs um þessi mál enda eru sameiginlegir hagsmunir launafólks og atvinnurekenda í húfi.

20% almenn hækkun, byrjunarlaun verði 381.326 kr.

Helsta krafa okkar í þessum viðræðum verður sú að dagvinnulaun eigi að duga fyrir framfærslu og tímabært sé að kauptaxtar verði færðir að greiddum launum. Lægsta tímakaup samkvæmt taxta iðnaðarmanns er nú 1.601 króna. Rauntölur opinberra stofnana sýna að meðaltímakaup iðnaðarmanna í landinu er um 2.400 krónur og því mikil nauðsyn á að færa taxta nær greiddu kaupi.

Okkar krafa er sú að byrjunarlaun iðnaðarmanns með sveinspróf verði 381.326 krónur á mánuði og að laun hækki almennt um 20%.

Við viljum að bil milli launataxta verði þannig fyrir komið að laun eftir 1 ár í starfi verði 3% hærri en byrjunarlaunin. Eftir þrjú ár bætist 3% ofan á og önnur þrjú prósent eftir fimm ár í starfi. Nauðsynlegt er að kveða á um verðtryggingu launa til að tryggja þann aukna kaupmátt sem samið verður um, ef gera á kjarasamning til lengri tíma en eins árs. Slík krafa er gerð af okkar hálfu þrátt fyrir litla verðbólgu um þessar mundir vegna þeirrar óvissu sem ríkir um afnám gjaldeyrishafta og vegna þess að það er óhjákvæmilegt að íslenska krónan veikist verulega til lengri eða skemmri tíma við afnám haftanna.

Önnur atriði sem kröfugerðin tekur til fela í sér að orlofs- og desemberuppbætur samsvari hálfum mánaðarlaunum og að aðfangadagur- og gamlársdagur verði frídagar hjá því launafólki sem ekki býr nú þegar við þau kjör. Ennfremur verði sett skýrari ákvæði en eru í gildandi samningum um álag á laun flokksstjóra og verkstjóra og að við viljum að farið verði sérstaklega yfir launahlutföll milli hópa í launatöflu og launaflokkar verði tengdir við hæfnisþrep. Þá viljum við styrkja ráðningarsamninga, auka og samræma veikindarétt og ákvæði um orlofsávinnslu og töku orlofs yfir vetrarmánuðina.

Við höldum áfram baráttunni gegn kennitöluflakki og félagslegum undirboðum á íslenskum vinnumarkaði sem við höfum staðið fyrir síðustu ár. Kennitöluflakk getur leitt til þess að sá hluti réttinda launafólks sem tengist starfstíma hjá sama vinnuveitanda fari forgörðum. Þegar kemur að baráttu gegn kennitöluflakki og félagslegum undirboðum fara hagsmunir launafólks og atvinnurekenda saman í einu og öllu. Það skiptir miklu fyrir launamenn að launagreiðandi fylgi lögum og greiði öll gjöld sem vera ber til sameiginlegra sjóða, slíkt er forsenda fyrir heilbrigðri og eðlilegri samkeppni milli fyrirtækja. Það er óþolandi að fámennur hópur grafi undan réttindum launafólks og heilbrigðri samkeppni iðnfyrirtækja með skattsvikum og kennitöluflakki. Iðnarmenn vilja vinna gegn því með því að semja um eflingu vinnustaðaeftirlits.

Hilmar Harðarson, formaður FIT
Mars 2015