Sögulegur áfangi í lífeyrismálum

Kjarasamningurinn sem ASÍ og Samtök atvinnulífsins undirrituðu þann 21. janúar sl. og gildir frá áramótum til loka ársins 2018 er sögulegur vegna þess að með honum næst mikilvægur áfangi í baráttumáli sem verkalýðshreyfingin hefur lagt mikla áherslu á frá árinu 2011, ekki síst við í Félagi iðn-‐ og tæknigreina og Samiðn.

Þar er um að ræða stærstu skref sem stigin hafa verið til að jafna lífeyrisréttindi á almennum markaði og réttindi starfsmanna ríkis og sveitarfélaga. Það er gert með því að hækka framlag atvinnurekenda. Það hækkar frá 1. júlí 2016 úr 8% í 8,5% og síðan í 10% 1. júlí 2017 og aftur í 11,5% 1. júlí 2018. Þetta felur í sér að þau réttindi sem launafólk ávinnur sér úr lífeyrissjóðum á starfsævinni til 67 ára aldurs aukast um 35% frá því sem nú er. Fólk mun geta vænst þess að fá 76% af meðalævitekjum sínum úr lífeyrissjóði en það hlutfall er nú 56%.

Útfærslan verður þannig að einstaklingum verður kleift að ráðstafa þessum auknu réttindum að hluta eða öllu leyti í bundinn séreignarsparnað en ekki eingöngu í samtryggingarsjóð. Þetta er umtalsverður árangur að okkar mati. Launaliður samningsins felur einnig í sér hækkanir sem eru talsvert meiri en gert var ráð fyrir í gildandi samningi. Hækkunin verður að minnsta kosti 6,2% frá 1. janúar sem þýðir 15.000 króna hækkun lágmarkslauna.

Í eldri samningnum var gert ráð fyrir 5,5% hækkun sem ýmist var kölluð launaþróunartrygging eða baksýnisspegill. Þann 1. maí 2017 munu laun hækka um 4,5% en ekki 3,0% eins og eldri samningur gerði ráð fyrir. Þá verður hækkunin 1. maí 2018 3,0% en ekki 2,0%. Það er okkar mat að með þessum samningi hafi fengist bætur fyrir þá launaþróun sem orðið hefur frá því samið var í maí á síðasta ári.

Atkvæðagreiðsla á næstunni

Sameiginleg atkvæðagreiðsla allra aðildarfélaga um þennan samning mun fara fram og verður kynnt á næstu dögum en henni þarf að vera lokið fyrir 26. febrúar næstkomandi. Atkvæðagreiðslan mun eingöngu ná til þeirra sem taka laun samkvæmt kjarasamningum við Samtök atvinnulífsins og Meistarafélögin innan Samtaka iðnaðarins. Samningar við aðra viðsemjendur, svo og Bílgreinasambandið og Meistarafélag pípulagningamanna, verða væntanlega uppfærðir til samræmis. Það er athyglisvert að atvinnurekendur undirrituðu samninginn án þess að hafa fengið skriflega yfirlýsingu frá ríkisstjórninni um hennar aðgerðir til að greiða fyrir samningunum. Hins vegar liggur fyrir loforð frá fjármálaráðherra um að tryggingagjald verði lækkað á næstunni í því skyni að auðvelda atvinnurekendum að mæta auknum launakostnaði.

Þessi samningur og sú atkvæðagreiðsla sem fram fer á næstunni snertir á engan hátt samkomulag SALEK‐hópsins svokallaða frá því í október um forsendur fyrir því að móta nýtt samningslíkan fyrir íslenskan vinnumarkað. Þau mál, sem verða áberandi innan okkar raða á næstunni eru nýtt samningalíkan, vinnutímabreytingar og lífeyrismál. Það má gera ráð fyrir að þessi mál verði efst á baugi á þingi Samiðnar í vor og að þau muni setja mikinn svip á starfið á næstu mánuðum og misserum hjá FIT, en endanlegrar niðurstöðu er í fyrsta lagi að vænta í þessum málum vorið 2017 og verður þá borin undir atkvæði félagsmanna. ENGAR

Launahækkanir í Straumsvík

Nú þegar samið hefur verið við Samtök atvinnulífsins og beðið er atkvæðagreiðslu er kjaradeilan í álverinu í Straumsvík stærsta óleysta verkefnið í kjaramálum okkar félagsmanna. Þar er við að eiga alþjóðlegan auðhring, Rio Tinto Alcan, sem sýnir meiri óbilgirni gagnvart íslensku launafólki en nokkur annar viðsemjandi verkalýðshreyfingarinnar í landinu hefur gert svo lengi sem elstu menn muna. Á þriðja ár er nú liðið síðan starfsfólk í Straumsvík fékk síðast launahækkanir. Enn sem komið er bendir ekkert til raunverulegs samningsvilja hjá fyrirtækinu. Framkoma þessa erlenda auðhrings er óþolandi en hann er alræmdur víða um heim fyrir erfiðleika í samskiptum við starfsmenn og verkalýðsfélög. Það er engan bilbug að finna á starfsfólki í Straumsvík né okkur sem förum með samningsumboð fyrir þeirra hönd, enda er þar um að ræða baráttu sem snertir grundvöll verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi.

Hilmar Harðarson, formaður FIT
Janúar 2016.