Vítaverð afstaða ráðherra

Nýir kjarasamningar við Samtök atvinnulífsins, Meistarasamband byggingamanna, Samband garðyrkjubænda, Bílgreinasambandið og Félag pípulagningarmeistara voru samþykktir með miklum yfirburðum í lok febrúar. Þeir félagsmenn sem taka laun samkvæmt þessum kjarasamningum fengu 6,2% launahækkun, afturvirka til 1. janúar. Mótframlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð hefur einnig verið hækkað, fer í 8,5% 1. júlí á þessu ári og hækkar svo um 1,5% 1. júlí 2017 og aftur 2018 og verður þá hlutur launagreiðenda kominn í 11,5%. Á næstunni verður farið í að vinna við uppfærslu kjarasamninga sem tengdir eru samningum við SA með bókun og er vonast til að þeir samningar verði undirritaðir á næstu vikum með sambærilegum hækkunum.

Góðar horfur eru nú á því að markmið þessara samninganna um lága verðbólgu og efnahagslegan stöðugleika nái fram að ganga. Samkvæmt því stefnir í umtalsverða kaupmáttaraukningu launafólks á þessu ári en til að svo verði, skiptir máli að verslunin skili ávinningi af hagstæðara rekstrarumhverfi vegna tollalækkana um áramótin og styrkingu krónunnar til neytenda í gegnum vöruverðið.

Samiðnarþing

Næsta mál framundan hjá Félagi iðn- og tæknigreina er undirbúningur Samiðnarþings, sem haldið verður 22.-23. apríl. Aðalmál þingsins verður að vinna að því að setja markmið og móta afstöðu til lífeyrismála og hugmynda um breyttan lífeyrisaldur. Einnig verður nýtt vinnumarkaðsmódel rætt og skoðað sérstaklega. Þetta er gert í samræmi við þá bókun sem gerð var samhliða nýjum kjarasamningi.

Álversdeila

Eins og kunnugt er hefur enginn árangur náðst í deilu starfsmanna í álverinu í Straumsvík og fátt er í spilunum sem bendir til þess að samið verði í deilunni á næstunni. Afstaða hins erlenda auðhrings sem hefur svipt íslenska dótturfélagið samningsumboði í deilunni er jafnósveigjanleg og áður. Sú óbilgirni sem fyrirtækið sýnir fámennum hópi lægst launuðu starfsmanna fyrirtækisins er óskiljanleg og einsdæmi í samskiptum aðila á íslenskum vinnumarkaði.

Síðasti kaflinn í baráttu Rio Tinto Alcan gegn íslensku launafólki birtist í því að forstjóri og nokkrir stjórnendur á skrifstofu fyrirtækisins hafa fengið samþykki sýslumanns fyrir því að þessir aðilar gangi í störf starfsmanna og taki að sér að lesta flutningaskip með áli til útflutnings. Það þarf ekki að hafa frekari orð um þann ásetning sem þarna býr að baki og er augljóslega sá að brjóta niður það skipulag sem ríkir á íslenskum vinnumarkaði og sátt hefur verið um í grundvallaratriðum áratugum saman. Verkalýðshreyfingin mun ekki láta undan síga í þeirri baráttu.

Stjórnvöld hagnast á kennitöluflakki

Félag iðn- og tæknigreina hefur lengi verið í fararbroddi baráttunnar gegn kennitöluflakki, svartri atvinnustarfsemi og undirboðum á íslenskum vinnumarkaði. Við höfum tekið þátt í vinnustaðaeftirliti og átt samstarf um þetta við Vinnumálastofnun, Ríkisskattstjóra og fleiri opinberar stofnanir. Ítrekað hefur verið kallað eftir því að stjórnvöld stuðli að skilvirkara vinnustaðaeftirliti og betri árangri í þessari baráttu með því að endurskoða lög og setja skýrar refsiheimildir við brotum þar sem lögð verði áhersla á að skilgreina meðal annars ábyrgð aðalverktaka á því að undirverktakar starfi í samræmi við lög og reglur á íslenskum vinnumarkaði.

Stjórnvöld hafa lengi dregið lappirnar í þessum málum og í skjóli aðgerðarleysisins hefur vandamálið haldið áfram að vaxa í hlutfalli við fjölgun verkefna í byggingariðnaði síðustu misseri.

Vítaverð afneitun ráðherra

Afneitun stjórnvalda gagnvart stöðu þessara mála náði nýjum hæðum með yfirlýsingu Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra fyrir skömmu. Þar lagðist hún gegn samþykkt þingmannafrumvarps sem kynnt hefur verið á Alþingi og felur í sér þær helstu aðgerðir sem verkalýðshreyfingin hefur kallað eftir. Ráðherrann sagði að þær aðgerðir myndu bitna óþarflega harkalega á frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun í landinu og þrengja að afhafnafólki. Ráðherrann segist óttast að íslenskt samfélag missi af mikilvægum tækifærum með því að stöðva kennitöluflakk, gerviverktöku, undirboð og svarta atvinnustarfsemi. Þessi afstaða er með algjörum ólíkindum og hreinlega vítaverð frá ráðherra í ríkisstjórn Íslands.

Hvaða frumkvöðlar eru í raun að nýta tækifærin sem við þeim blasa vegna aðgerðarleysis og afneitunar ráðherrans og þeirra stjórnmálamanna sem styðja sömu afskiptaleysisstefnu?

Jú, það er fremur fámennur hópur Íslendinga sem sitja efst í keðjum fyrirtækja í byggingariðnaði. Þar hefur svört atvinnustarfsemi fengið að þróast mikið á undanförnum árum vegna lélegs regluverks og er farin að bera mörg einkenni skipulagðar glæpastarfsemi. Fjöldi starfsmannaleiga og erlendra þjónustufyrirtækja með starfsemi í íslenskum byggingariðnaði hefur margfaldast á nokkrum mánuðum. Aðalverktakinn ábyrgðarlausi hefur ekki eigin starfsmenn, en nýtir sér svo vinnuafl frá starfsmannaleigum og undirverktökum. Oft koma við sögu neðar í keðjunni erlendir starfsmenn sem eru skemur en 183 daga við vinnu á Íslandi en þá þarf ekki að greiða af þeim skatta og skyldur til íslensks samfélags. Þessi 183 daga undanþága flækir mjög allt eftirlit með þessari starfsemi. Vitað er um 300 slíka menn sem voru við vinnu hér á landi árið 2015 en enginn veit hve margir voru hér við vinnu án þess að lenda nokkru sinni á skrá.

Sumir undirverktakar í keðjunni eru með skráða starfsemi á Íslandi og nýlegar kennitölur en önnur eru erlend þjónustufyrirtæki með stinga niður fæti hér í skamman tíma. Í sumum tilvikum vakna spurningar um mansal. Markmiðið með keðjunni er ljóst frá upphafi og það er það að komast undan því að greiða skatta og skyldur til íslensks samfélags. Verkkaupinn telur sig vera að greiða fyrir vinnu faglærðra iðnaðarmanna en ljóst er að stór hluti þessara erlendu starfsmanna hefur yfir lítilli eða alls engri fagkunnáttu að ráða. Erlendu starfsmennirnir fá iðulega lágmarkslaun ófaglærðra verkamanna fyrir vinnu sína og stundum er ástæða til að draga í efa að launin nái þeim fjárhæðum.

Hverjir eru það sem grípa „tækifærin“?

„Athafnarmennirnir“ sem standa að baki keðjum af þessu tagi fá í dag mikið olnbogarými á Íslandi vegna þess að eftirlitskerfið á vinnumarkaði er ekki að virka vegna þess að lögin eru ekki nægilega skýr og stjórnvöld skortir vilja til að taka á málinu. Núverandi staða gagnast þessum aðilum. Það eru þeir sem eru að nýta tækifærin sem aðgerðaleysi ráðherrans skapar en ekki íslenskt samfélag.

Íslenskt samfélag er hins vegar að verða fyrir víðtæku samfélagslegu tjóni vegna þessa ástands þótt bæði ríki og sveitarfélög hafi talið sér samboðið að hagnast á undirboðum þessara aðila með því að gera við þá samninga um opinberar framkvæmdir þekkjandi rekstrarsögu viðkomandi. En fyrst og síðast bitnar þetta ástand á tekjuöflun ríkisins í gegnum skattkerfið sem tapar á skattsvikum, kennitöluflakki og gjaldþrotum, það bitnar á réttindum launafólks og það bitnar á samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem leggja áherslu á að fylgja lögum og reglum. Þetta grefur líka undan öryggi neytenda og almennings sem leggur í miklar fjárfestingar í fasteignum og opinberum mannvirkjum en fær svikna vöru sem unnin er af vanefnum af fólki sem oft kann lítið til verka.

Athafnamennirnir og frumkvöðlarnir í þessari starfsemi eru nefnilega ekki fagmenn í neinu öðru en svartri atvinnustarfsemi og kennitöluflakki og það er starfsemi sem skaðar þjóðfélagið. Það er stórundarlegt að standa frammi fyrir því að ráðherra sem hefur það hlutverk að gæta hagsmuna almennings vill ekki skilja hve alvarleg þessi staða er og neitar að grípa til nauðsynlegra aðgerða.

Hilmar Harðarson, formaður FIT
Mars 2016