Lifir kjararáð í eigin heimi?

 

Ákvörðun kjararáðs um að hækka laun þingmanna og æðstu embættismanna ríkisins um allt að 45% vekur forundran. Með þessu grefur Kjararáð undan friði og stöðugleika á vinnumarkaði og kippir stoðum undan gildandi kjarasamningum. Að óbreyttu hlýtur kröfugerð í komandi kjaraviðræðum að taka mið af úrskurðinum.

Ákvörðun kjararáðs verði dregin til baka

Verkalýðshreyfingin hefur fordæmt niðurstöðu kjararáðs. Miðstjórn Samiðnar bendir á í ályktun að úrskurður kjararáðs sé ekki í samræmi við þann launaramma sem samið hefur verið um á almennum vinnumarkaði. Færa má rök fyrir því að óbreytt niðurstaða sé ekki í samræmi við þau lög sem kjararáði er ætlað að starfa eftir en þar segir meðal annars í 9. grein: „Kjararáð skal ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði.“ Ljóst má vera að þessu ákvæði er ekki framfylgt í úrskurðinum frá 29. október sl.

ASÍ bendir á í ályktun sinni vegna málsins að í stjórnmálaumræðum á nýafstöðnu þingi ASÍ ítrekuðu flestir stjórnmálaleiðtogar stuðning sinn við þá ábyrgu sýn sem felst í breyttum vinnubrögðum við gerð kjarasamninga og vinnu til að skapa sátt á vinnumarkaði og leggja grunn að efnahagslegum og félagslegum stöðugleika. ASÍ bendir á að úrskurður kjararáðs gengur þvert gegn slíkum sjónarmiðum. Síðan segir ASÍ: „Það er ekkert réttlæti í því að laun þingmanna, ráðherra og æðstu embættismanna hækki um allt að 75% á þremur árum á sama tíma og almenn laun í landinu hafa hækkað um 29%.“ ASÍ beinir í tilmælum til nýkjörins Alþingis að vilji það halda áfram samtali um stöðugleika og sátt á vinnumarkaði verði þingið að koma saman án tafar og draga hækkanirnar til baka ella verði óstöðugleiki og upplausn á vinnumarkaði í boði Alþingis.

Ég tek eindregið undir þau skilaboð og vænti þess að nýkjörnir þingmenn starfi með aðilum vinnumarkaðarins að því að viðhalda stöðugleika og sátt sem hefur verið í augsýn á vinnumarkaði en er nú teflt í tvísýnu.

Keðjuábyrgð án frekari tafar

Fleiri brýnar aðgerðir bíða nýrrar ríkisstjórnar og nýs Alþingis. Efst á blaði er að setja án tafar lög um keðjuábyrgð aðalverktaka og verkkaupa í tengslum við verklegar framkvæmdir. Frá 2011 hafa FIT og Samiðn lagt mikla áherslu á að setja þurfi skýr lagaákvæði um að aðalverktakar og verkkaupi beri ábyrgð á að starfsmenn undirverktaka njóti þeirra réttinda sem tryggð eru í kjarasamningum og lögum. Samiðn ályktaði einnig um þetta mál á miðstjórnarfundi sínum 14. þm. Þar er bent á að hvorki löggjafinn né SA hafi sýnt vilja til að verða við þessari kröfu, þrátt fyrir að mörg dæmi séu um brot gegn starfsmönnum erlendra undirverktaka sem starfa á vegum íslenskra verktaka. Miðstjórnin bendir einnig á að mikilvægt er að löggjöf um keðjuábyrgð taki bæði til verkefna almenna- og opinbera vinnumarkaðarins og fagnar því að Landsvirkjun, Akureyrarbær og Reykjavíkurborg hafa að eigin frumkvæði sett ákvæði um keðjuábyrgð í sína útboðsskilmála og hvetur ríki og önnur sveitarfélög til að gera það sama.

Talsmenn allra stjórnmálaflokka hafa margoft tekið undir okkar sjónarmið í þessum málum en aðgerðir hafa ekki fylgt þeim orðum. Vandamálið hefur vaxið í hlutfalli við fjölgun verkefna í byggingariðnaði. Sífellt berast fréttir af erlendu starfsfólki sem kemur hingað til lands og er hlunnfarið um réttindi sem lög og kjarasamningar tryggja öllu launafólki á íslenskum vinnumarkaði. Skýrar reglur um keðjuábyrgð og kennitöluflakk myndu leysa vandann, það er öllum ljóst.

Það er óskiljanlegt að stjórnvöld hafi í öll þessi ár valið að standa vörð um rétt fyrirtækja sem fara ekki að lögum og grafa undan réttindum launafólks og samkeppni á vinnumarkaði. M.a. með því að taka ekki á kennitöluflakki og svipta þannig opinbera sjóði skatttekjum til að standa straum af kostnaði við samrekstur þjóðfélagsins. Vonandi breytist það á nýju kjörtímabili.

Að lokum: Meðal efnis í blaðinu er launakönnun. Ég hvet félagsmenn til að fylgjast með því í sínu nánasta umhverfi hvernig kaupin gerast á eyrinni. Margt bendir til að launaskriðið sé ekki að skila sér til iðnaðarmanna enn. Því er rétt að vera á verði og sækja það sem upp á vantar sé þess er kostur. Einnig vek ég athygli á að ályktanir sem nefndar hafa verið ásamt fleirum eru á fit.is.

Ég óska öllum félagsmönnum og fjölskyldum þeirra ánægjulegrar aðventu og jólahátíðar.

Hilmar Harðarson, formaður FIT
Nóvember 2016