Kjararáð hefur rofið friðinn

Trúnaðarmannanámskeið 2018

Mikilvægi trúnaðarmanna á vinnustöðum verður síst minna með árunum, en trúnaðarmaður gegnir nokkrum hlutverkum. Hann er fulltrúi FIT á þínum vinnustað. Hann er tengiliður milli ykkar á vinnustaðnum. Hann er tengiliður milli ykkar og atvinnurekandans og á sama tíma einnig milli ykkar og FIT. Trúnaðarmaðurinn fylgist með að samningar séu haldnir, ekki sé brotið á réttindum ykkar, hvorki borgaralega né félagslega. Það hvílir því mikil ábyrgð á trúnaðarmönnum. Framundan er trúnaðarmannanámskeið þar sem farið er yfir kjarasamninga, útreikninga á skattamálum, orlofsmál, réttindi gagnvart hinum ýmsu sjóðum og framhaldsmenntun, svo eitthvað sé nefnt.

Námskeiðið verður haldið í Borgartúni 30, 6. hæð, þann 15. og 16. febrúar og eru trúnaðarmenn FIT hvattir til að skrá sig á námskeiðið, öllum til hagsbóta.

Endurskoðun kjarasamninga

Óhætt er að fullyrða að úrskurðir kjararáðs hafi rofið þann frið sem ríkt hefur á vinnumarkaði og við félagar í FIT áttum þátt í að skapa. Við gerð síðustu kjarasamninga sömdum við til lengri tíma en áður og kröfurnar voru hóflegri, enda skilningur manna að framundan væri tímabil aukins kaupmáttar, stöðugleika og sátta. Það gekk að mestu eftir þar til kjararáð úthlutaði þingmönnum, æðstu ráðamönnum ríkisins og stofnana, mun ríflegri launahækkunum en aðrir áttu kost á. Sáttin hefur verið rofin og við getum ekki setið aðgerðarlaus hjá meðan íslenska yfirstéttin makar krókinn og tekur stærri skerf af kökunni en sátt ríkti um.

FIT og Samiðn fara nú ítarlega yfir þá stöðu sem skapast hefur á vinnumarkaði og þar með næstu skref í endurskoðun kjarasamninga.

Starfsmannaleigur og kennitöluflakk

FIT hefur lengi barist gegn kennitöluflakki, enda gríðarleg slóð skulda og ógreiddra launa sem eftir standa hjá slíkum fyrirtækjum, skuldir og ógreidd laun sem geta lent á okkar fólki. Því skiptir miklu máli að sem víðtækust samstaða náist um að sporna við slíku. Það er því mikið fagnaðarefni að stjórnvöld skuli nú slást í lið með okkur og áforma að vinna með aðilum vinnumarkaðarins að aðgerðum gegn kennitöluflakki. FIT skorar á stjórnvöld að ganga skrefinu lengra og lögbinda ákvæði um varnir gegn kennitöluflakki.

Á sama tíma fagnar FIT því að ríkisstjórnin taki á keðjuábyrgð og starfsmannaleigum. Það er skoðun FIT að keðjuábyrgð eigi að ná til alls vinnumarkaðarins, enda um meinsemd að ræða sem hefur alltof lengi fengið að þrífast í íslensku atvinnulífi. Starfsmannaleigur sem spretta upp eins og gorkúlur, flytja inn erlent vinnuafl og greiða laun langt undir því sem eðlilegt telst og rukka þá svo um óhóflega húsaleigu og fleiri gjöld, hafa ekkert erindi inn á vinnumarkaðinn. Þetta eru jákvæð skref hjá stjórnvöldum en við viljum ganga lengra. Mun lengra.

Skoðun sýnir betra ástand

Eftirlitsferðir FIT hafa síðustu misseri leitt í ljós að á alltof mörgum stöðum sé vandasömum verkefnum úthlutað til ófaglærðra og þess eru jafnvel dæmi að í stórum verkum sé ekki einn einasti fagmenntaður iðnaðarmaður. FIT hefur vakið athygli á þessu á opinberum vettvangi og það virðist hafa skilað árangri.

Í síðustu skoðunarferðum okkar hefur komið að í ljós að ástandið er mun betra en áður og fagmennskan sé að aukast, enda algjörlega út í hött að með því stranga og viðamikla eftirliti og regluverki sem hér ríkir, komist menn upp með slíkt. En betur má ef duga skal og FIT mun ekki gefa neitt eftir í þessum efnum og halda opinberri umræðu um þessi mál áfram, sem og að stunda virkt eftirlit með skoðunum á markaðnum. Fagmennskan á alltaf að vera í fyrsta sæti.

#MeToo

Vakningin sem orðið hefur um þá menningu sem ríkt hefur um heim allan, þar sem mismunun kynjanna hefur verið ráðandi, hefur ekki farið framhjá neinum. #MeToo byltingin teygir sig í alla anga þjóðfélagsins og á öll svið, þar með talið vinnustaði okkar. Það er endalaust hægt að ræða þetta mál, sem sumum finnst óþægilegt, en ekkert breytir því að við getum aldrei liðið né samþykkt kynferðislegt ofbeldi eða kynbundið misrétti.

Við eigum að hafa frumkvæði að því að taka til í okkar eigin garði, móta nýjar leiðir til að vinna gegn þessari óhæfu og leggja okkar af mörkum til að skapa eðlilegt ástand þar sem gagnkvæm virðing ræður ríkjum. Þessi inngróna „menning“ hefur fengið að viðgangast alltof lengi og nú er komið að leiðarlokum hvað þetta varðar. Sýnum styrk okkar í verki og verum í fararbroddi breyttrar hugsunar og framfara og hættum allri mismunun!

Hilmar Harðarson, formaður FIT
Janúar 2018