„Sterkt og öflugt félag á réttri leið“

Fimmtán ár eru liðin frá því að 5 félög sameinuðust undir merkjum FIT en á næstu árum fjölgaði félögum og í dag stendur FIT á grunni 17 félaga. Elsta félagið í þessum hópi var Múrarafélag Reykjavíkur en það var stofnað 2. febrúar 1917 og því getum við með sanni sagt að þó saga FIT sé 15 ára, séu rætur og heildarsaga félagsins mun lengri og teygi sig yfir heila öld og ári betur.

„Þetta voru stór skref sem stigin voru þann 12. apríl 2003 þegar af þessari sameiningu varð og óhætt að fullyrða að þetta hafi verið gæfuspor í íslenskri atvinnusögu. Við erum nefnilega miklu sterkari saman en sundruð,“ segir Hilmar Harðarson, formaður FIT, en mikið vatn hefur runnið til sjávar á þessum 15 árum. „Menn vissu sem var að styrkurinn lá í breiddinni og samstöðunni og það hefur verið okkar gæfa hversu öflugt félagið hefur verið frá fyrsta degi. Félagsmenn eru á fimmta þúsund og þeir vita sem er að fátt er mikilvægara í hagsmuna- og launabaráttu en vel skipulagt félag sem stendur þétt að baki sínu fólki og hefur það eitt að markmiði að tryggja velsæld sinna félagsmanna,“ segir Hilmar.

Við stofnun FIT árið 2003 var einmitt það haft að leiðarljósi og það leiðarljós logar enn glatt á skrifstofunni í Borgartúni. „Hver dagur er helgaður baráttunni fyrir bættum kjörum, öryggi félagsmanna, réttindamálum, endurmenntun, tryggingamálum, félagsmálum og svo mætti áfram telja. Grunnurinn að þeim styrk sem FIT býr yfir er að finna í þeim félögum sem sameinuðust og höfðu þá góðu framtíðarsýn að stórt og sameinað félag væri sterkara mörgum minni félögum,“ segir Hilmar. Hann bendir á að sameiningin hafi einmitt verið grunnurinn að hinum mikla styrk FIT.

„Sameiningin kom í veg fyrir innbyrðis deilur mismunandi félaga, hún endurspeglar ólíkar greinar og ólík landsvæði þar sem sameiginlegir hagsmunir hafa betur en skammtímahugsun sem grefur ætíð undan langtímahagsmunum allra. Það er engin tilviljun að orðatiltækið „Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér“ á vel við um kjarnastarfsemi og tilgang FIT. Við stöndum sameinuð að verki og náum þannig þeim árangri sem við stefnum að.“

Það er gríðarlegur auður í þeirri þekkingu sem FIT býr yfir, þekking sem hvergi er að finna annars staðar og hana nýta félagsmenn FIT í vinnu sinni á hverjum degi, hvort sem er á þeim fjölmörgu vinnustöðum sem FIT félagar starfa á, eða í baráttunni sem stjórnað er frá skrifstofunni. „FIT stendur á þessum tímamótum afar vel. Sjúkrasjóður félagsins er öflugur en tilgangur hans er fyrst og fremst að koma sjóðfélögum okkar til aðstoðar þegar þeir verða fyrir slysum eða sjúkdómum og detta af launaskrá. Endurmenntunarsjóður stendur afar vel, verkfallssjóður er sterkur og orlofssjóðurinn sömuleiðis.

Félagsmenn hafa þannig aðgang að liðlega 30 orlofshúsum sem FIT á og rekur víða um land. Svona mætti áfram telja og ber þetta allt vitnisburð um það öfluga starf sem unnið er hjá FIT. „Starfið er hins vegar þess eðlis að aldrei má sofna á verðinum. Árvekni er lykilatriði í öflugu félagi eins og FIT.

Sífelld hagsmunagæsla félagsmanna er til staðar. Vinnustaðaeftirlit, vinnustaðaheimsóknir, samstarf og samvinna við fyrirtæki og opinbera aðila, öflugt innra starf, launakannanir, félagsstarf, harka þegar hörku er þörf í kjaraviðræðum, skilningur á sífellt breytilegu landslagi og þróun starfa, alþjóða samstarf til að tryggja að við séum alltaf með á nótunum; allt þetta gerir FIT að því öfluga félagi sem það er“ segir Hilmar. Á 15 ára afmæli FIT er gaman að líta um öxl og sjá að draumar þeirra félaga iðnaðarmanna sem stóðu að sameiningunni, hefur ræst. Við erum sterkt og öflugt félag á réttri leið.

Fullgreiðandi félagsmönnum FIT hefur fjölgað frá stofnárinu 2003 úr 1.624 í 3.920 félagsmenn í dag. Þannig að fjölgun félagsmanna hefur verið rúmlega 140% á þessum 15 árum.

Birtist í fréttabréfi FIT í desember 2018.