Þetta voru of fámenn félög fyrir nauðsynlega þjónustu

Rætt við bílasmiðina Ásvald Andrésson og Egil Þ. Jónsson um gamla daga og nýja

Meðal stofnfélaga FIT var Bíliðnafélagið-Félag blikksmiða, sem hélt utan um þær greinar sem komu að smíði og viðhaldi bifreiða, auk blikksmiða. Félag bifvélavirkja, Félag bifreiðasmiða, Félag bílamálara og Félag blikksmiða voru allt virk félög áður fyrr en ekki nægilega fjölmenn til að rekstur þeirra væri hagstæður fyrir félagsmenn. Þess vegna hafði Bíliðnafélagið verið stofnað, til að nýta hagkvæmni stærðarinnar. Félag iðn- og tæknigreina var síðan stofnað af Bíliðnafélaginu–Félagi blikksmiða og fimm öðrum iðnfélögum til þess einmitt að styrkja enn frekar afl þeirra og möguleika til að bæta hag félagsmanna. Aðildarfélögunum hefur fjölgað mikið síðan þá.

En öll þessi félög duttu ekki af himnum ofan eða hófu líf sitt með stofnun Bíliðnafélagsins. Bílasmiðafélag Reykjavíkur, sem síðar var breytt í Félag bifreiðasmiða, var þannig stofnað 18. mars 1938 af 22 einstaklingum sem störfuðu við bifreiðasmíði. Flestir höfðu réttindi í einhverri iðngrein, aðallega húsasmíði, trésmíði eða járnsmíði. Bílasmíði er mjög margþætt grein, sem gerði að verkum að mjög erfitt var fyrir félagið að fá starfið löggilt sem sérstaka iðngrein. Starfið fólst í trésmíði, járnsmíði, glerskurði, raflögnum, málningu og bólstrun. Þau iðnaðarmannafélög sem fyrir voru í landinu vildu því fremur fá bifreiðasmiði sem deild í eigin félagi en að leyfa þeim að vinna við þann verkþátt sem undir þau heyrði hvert um sig. Málarar neituðu bílasmiðum um málningarþætti, bólstrarar vildu ekki láta þá fá bólstrunina, glerið var vandamál vegna glermeistaranna og sama var að segja um járnsmíðina og rafmagnsvinnuna. Bílasmiðir vildu á hinn bóginn halda þessum þáttum innan síns félags, en vegna þess hve málið snerti margar iðngreinar varð það erfiðara en ella.

Sameiginlegt félag meistara og sveina

Það reyndist hins vegar erfitt að fá lærða iðnaðarmenn í einstaka þætti bílasmíðinnar. „Ef yfirbyggingafyrirtæki tók til dæmis raf- -virkja í vinnu við að tengja rafkerfi bílanna, endaði það ævinleg í starfinu. Rafkerfið var svo flókið í bílunum að þeir urðu alveg ruglaðir og fannst vera minnkun að því að spyrja óbreytta bilasmiði hvað þetta eða hitt héti. Þess vegna gáfust þeir upp,“ sögðu bifreiðasmiðirnir Gunnar Björnsson og Gunnar Stefánsson í viðtali við tímaritið Málm árið 1978. Þrátt fyrir erfiðleikana tókst þó að fá félagið viðurkennt á þingi Landssambands iðnaðarmanna árið 1942, eftir mikinn þrýsting, ekki síst af hálfu Gísla Jónssonar og meðmæla ýmissa „mætra manna og stofnana, t.d. Bifreiðaeftirlitsins, tryggingafélaga og vegamálastjóra“, eins og því er lýst í bókinni Hugvit þarf við hagleikssmíðar, þar sem fjallað er um sögu bifreiðasmíði á Íslandi. Á þessum árum var félagið sameiginlegur vettvangur meistara og sveina, sem fól í sér að innan þess störfuðu hlið við hlið atvinnurekendur, eigendur fyrirtækjanna, og launþegar sem hjá þeim unnu. Af þessu skipulagi leiddi að félagið var ekki stéttarfélag. Þetta skipulag leiddi til nokkurra vandræða þegar kom að launa- og kjaramálum. T.d. vildi verða erfitt um vik um hreinskilnar og opinskáar umræður um kjaramál og jafnvel samþykktir launakrafna á fundum, þar sem atvinnurekendur gátu verið meirihluti fundarmanna. En skipulagið varð einnig til þess að í lok fimmta áratugar síðustu aldar fór að örla á tregðu meðal eigenda stærstu fyrirtækja í bifreiðayfirbyggingum til að gera samninga og tók oft marga mánuði að semja um lagfæringar á kaupi og kjörum. Verkfallsvopnið var ekki notað vegna eðlis félagsins. Hluti skýringarinnar er að stærstu fyrirtækin voru félagar í Vinnuveitendasambandi Íslands og því bundin stefnu þess í launamálum.

Skipulagið til trafala

Af þessu leiddu efasemdir um að hægt væri að kalla félagið verkalýðsfélag. Heimildir vinnulöggjafarinnar til að beita verkfallsvopninu voru hins vegar bundnar við verkalýðsfélög, þ.e. samtök launafólks. Lögfræðingur ASÍ á þessum tíma var Egill Sigurgeirsson og í samræðum við hann kom fram að Félag bifreiðasmiða gæti vissulega farið í verkfall, en til þess yrðu félagsmenn að samþykkja það í allsherjaratkvæðagreiðslu sem stæði í tvo heila daga og kjósa þyrfti trúnaðarmannaráð, sem hefði umboð til að lýsa yfir verkfalli að fengnu leyfi félagsfundar. Á aðalfundi og framhaldsaðalfundi 1966 var lögum félagsins breytt í þessa veru. Árið eftir var svo samþykkt að taka þátt í þremur skæruverkföllum sem Félag járniðnaðarmanna hafði boðað til. Til að gera langa sögu stutta kom betur og betur í ljós að skipulag félagsins var bifreiðasmiðum til mikils trafala í baráttunni fyrir bættum kjörum. Því kom upp hugmynd um að bifreiðasmiðir segðu sig úr Landssambandi iðnaðarmanna, enda væri það að stofni til félagsskapur atvinnurekenda, en gengju þess í stað í Málm- og skipasmiðasambandið og þar með í Alþýðusamband Íslands. Það varð að veruleika þann 22. október 1968. Meistarar þeir sem verið höfðu félagsmenn samþykktu á svipuðum tíma að stofna með sér meistarafélag, en úr því varð þó ekki. Síðan hefur það gerst að Félag bifreiðasmiða sameinaðist Bíliðnafélaginu og Bíliðnafélagið–Félag blikksmiða varð síðar stofnaðili að Félagi iðn- og tæknigreina, FIT, þegar það var stofnað 2003. Þetta er vissulega löng saga þótt hér sé mjög stuttlega hlaupið yfir hana. Og það má velta því fyrir sér hvers vegna þessi saga er eins og hún er; hvers vegna lifðu bifreiðasmiðir ekki bara hamingjusamir við sitt félag í stað þess að vera ýmist að stofna ný samtök eða ganga í sambönd sem fyrir voru?

Þessi félög voru of lítil

Við fengum tvo bifreiðasmiði, Ásvald Andrésson og Egil Þ. Jónsson, til að spjalla við okkur um það. Þeir áttu báðir verulegan þátt í starfi Félags bifreiðasmiða um áratuga skeið. Báðir gegndu þeir stjórnarstörfum um langa tíð; Ásvaldur frá 1964 til 1985, þar af formaður síðustu 14 árin, Egill var í stjórn í 10 ár, þar af varaformaður í sjö ár. Báðir störfuðu auk þess í ýmsum nefndum og ráðum félagsins. Ásvaldur til dæmis í sveinsprófsnefnd þar til fyrir fáum árum. Þeir félagar eru sumsé öllum hnútum kunnugir. „Þessi félög voru einfaldlega of lítil til að geta veitt félagsmönnum þá þjónustu sem þeir þurftu og höfðu rétt á. Félagsmenn voru of fáir.

Við stofnuðum til dæmis sjúkrasjóð, en það var eiginlega ekkert gagn að honum. Eitt sinn veiktist einn félagsmaður og átti í miklum erfiðleikum, en sjúkrasjóðurinn var svo lítill að við gátum nánast ekkert hjálpað honum. Við vorum ekki nógu margir. Þess vegna var betra að sameinast öðrum félögum, nýta sér hagkvæmni stærðarinnar. Við stofnuðum líka orlofssjóð þegar þeir fóru að verða stór þáttur í starfsemi verkalýðsfélaganna. Keyptum þá hálft orlofshús í Svignaskarði á móti Ísfirðingum. Við urðum að taka lán til að geta keypt það og fórum í Iðnaðarbankann og báðum um þær 15.000 krónur sem helmingurinn kostaði. Bankastjórinn var ekki mjög trúaður á þessa lánveitingu þannig að við stjórnarmenn urðum að ganga í persónulega ábyrgð. Reyndar fór svo að við notuðum þennan bústað mun meira en Ísfirðingarnir, þeir komust ekki alltaf suður.

Við gengum úr samstarfinu í Svignaskarði þegar ákveðið var að reisa þar þjónustumiðstöð. Þær framkvæmdir þótti okkur alltof dýrar. Við keyptum þess í stað gamlan bústað í Hraunborgum, Grímsnesi, með öllu innbúi. Sá bústaður reyndist hins vegar argasta hrákasmíði svo við seldum hann og byggðum annan í Fljótshlíðinni. Hann lögðum við í púkkið þegar við gengum í Bíliðnafélagið.

Tregablandið að leggja félagið niður

Við vorum eiginlega furðu brattir, ekki fjölmennara félag; náðum aldrei að verða nema rétt rúmlega hundrað talsins. En við létum félagið standa undir sér í daglegum rekstri og tókum aldrei bankalán nema í þetta eina skipti, þegar við keyptum orlofshúsið hálfa í Svignaskarði.

Félagsmenn hafa verið nokkuð sammála þegar við höfum gengið í samtök eða sameinast félögum. Það er helst að hitnað hafi í kolunum þegar við gengum í Málm- og skipasmiðasambandið. Þá fylgdi með aðild að Alþýðusambandi Íslands. Þar með gátu eigendur fyrirtækjanna ekki verið áfram í félaginu með okkur starfsmönnunum, þótt sumir þeirra vildu það gjarnan. Margir eru óánægðir enn þann dag í dag. Þegar við á hinn bóginn gerðumst aðilar að Bíliðnafélaginu var það óneitanlega ansi tregablandið. Okkur þótti vænt um félagið, enda hafði það verið stór hluti af lífi okkar. Kannski fannst okkur við vera að tapa einhverju með því að leggja niður Félag bifreiðasmiða og ganga í félag með öðrum iðnaðarmönnum. En við gerðum okkur ljóst að þetta var nauðsynlegt vegna félagsmannanna, sem fengu sáralitla þjónustu frá félaginu sínu. Hræddir um að verða gleyptir af hinum félögunum? Nei, við vorum ekkert hræddir við það. Það ríkti algjört traust á milli félagsmanna einstakra félaga. Sama var þegar Bíliðnafélagið–Félag blikksmiða gerðist stofnaðili að Félagi iðn- og tæknigreina. Það ferli gekk mjög vel og engir eftirmálar að neinu leyti. Allir voru sáttir og eru enn, enda var það mjög skynsamleg aðgerð og öllum til góðs. Síðan hafa fleiri félög gengið í hópinn, þannnig að FIT er nú með stærstu stéttarfélögum landsins og ástæða til að óska því góðs á komandi árum. Einn af kostum þess að sameina svona mörg félög er sá möguleiki að halda námskeið fyrir félagsmenn um ýmsa þætti félagsstarfsins, styrkur þeirra í kjaramálum eykst líka til muna. Fyrir utan hvað allur rekstrarkostnaður verður mun lægri en ef hvert og eitt félag væri að stússast fyrir sig.

Nýir tímar, nýtt skipulag

En hvað um tengsl þeirra Egils og Ásvaldar við FIT í dag; mæta þeir til dæmis á fundi? Já, báðir mæta á fundi í félaginu. Egill segist hafa mætt á aðalfundi í 54 ár í röð, allt frá því hann gekk í Félag bifreiðasmiða. Þeir eru hins vegar sammála um að margt hafi breyst í félagsmálum síðan þeir voru í forystu. „Á sínum tíma voru kröfur félagsins í kjaramálum samþykktar á félagsfundum. Félagsmenn ræddu það á fundum hvaða kröfur ætti að leggja fram og þær sem samþykktar voru urðu kröfur í kjaraviðræðum. Það voru launakröfur, kröfur um aðbúnað á vinnustöðum og annað sem snerti starfsumhverfið.

Þessi persónulegu tengsl eru ekki lengur fyrir hendi. Nú eru kröfurnar samþykktar í stofnunum sameiginlegra félaga og síðan samþykktar á félagsfundi. En félagsfundir eru ekki mjög fjölmennir nú til dags, í breyttu þjóðfélagsmynstri. Þannig að hinn almenni félagsmaður kemur ekki mjög mikið að þessum ákvörðunum. Félag iðn- og tæknigreina gefur félagsmönnum á eftirlaunum kost á að leigja orlofshús félagsins og árlega er eldri félagsmönnum boðið í dagsferðalag, sem báðir segjast taka þátt í.