Við þurfum refsiákvæði í iðnaðarmannalögin

Ný launakönnun

Í þessu tölublaði birtum við nýja launakönnun félagsmanna FIT og óhætt er að segja að upplýsingarnar sem þar koma fram séu lýsandi fyrir þá stöðu sem launamenn eru í um þessar mundir. Launakannanir eru gríðarlega mikilvægt vopn í sífeldri baráttu okkar fyrir sanngjörnum launum og afhjúpa um leið það misræmi sem oft á tíðum er uppi, sem gerir okkur kleift að ráðast gegn því og uppræta með afgerandi hætti. Góð þátttaka í launakönnunum er því afar mikilvæg fyrir alla okkar félagsmenn og það er gaman að geta sagt frá því að þátttaka FIT-félaga er ætíð góð og fyrir það ber að þakka enda ekki sjálfsagt að menn gefi sér tíma til að fylla út þessar þó bráðnauðsynlegu upplýsingar.

Ef draga á saman í stuttu máli niðurstöður þessarar nýjustu launakönnunar má segja að í byggingar- og málmiðnaðargeiranum hafi laun haldist í hendur við almennt launaskrið og er það vel. Meira áhyggjuefni er þó að laun í bílagreinum hafi setið eftir og þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Þarna þurfum við að taka okkur á og þarna munum við gera betur!

Óþolandi kennitöluflakk og gerviverktaka

Kennitöluflakk, svört atvinnustarfsemi og geriverktaka er einhver mesta ógn við heilbrigða atvinnustarfsemi sem við erum að glíma við. Félag iðn- og tæknigreina hefur um árabil verið leiðandi í baráttu gegn þessari vá og við höldum þeirri baráttu áfram svo lengi sem hún fær að viðgangast í íslensku þjóðfélagi. Þrátt fyrir að hafa tekið frumkvæðið að víðtæku samstarfi við Vinnumálastofnun, ríkisskattstjóra og fleiri opinberar stofnanir, kallað eftir því að stjórnvöld beiti sér af hörku gegn þessu vandamáli, verið með öflugt vinnustaðaeftirlit, gengur hægt að uppræta þessa ógn, aðallega vegna skilningsleysis opinberra aðila.

Það gleður okkur þó mikið að sjá að fjölmiðlar hafa tekið þetta baráttumál okkar upp og hefur umfjöllun um þessi mál verið áberandi í sjónvarpi og á síðum netmiðla. Alltof oft fáum við að heyra afsakanir á borð við að um sprotafyrirtæki sé að ræða sem þurfi svigrúm eða þetta sé nauðsynlegt til að geta byggt eitthvað upp. Þetta er nokkuð sem við hlustum ekki á, enda afsakar ekkert lögbrot og svik.

Refsiákvæði í iðnaðarmannalögin

FIT kallar eftir að hið opinbera hætti að sýna linkind í þessum málum og sýni þá hörku sem þeir aðilar sem stunda svikastarfsemi á borð við þessa virðast aðeins skilja. Við þurfum ekki fleiri nefndir, við þurfum efndir. Við þurfum refsiákvæði í iðnaðarmannalögin, tæki og tól sem duga til að kveða þessa óværu niður í stað þess að gefa þessum aðilum hvert tækifærið á fætur öðru til að pretta, stela og skilja allt eftir í rjúkandi rúst, jafnvel nokkrum sinnum, án þess að taka afleiðingum gjörða sinna.

FIT mun halda áfram að berjast í þessu máli með öllum þeim vopnum sem okkur bjóðast.

Illa farið með erlent vinnuafl

Ljót er sú hlið sem sumir atvinnurekendur hafa sýnt síðustu ár, með illri meðferð á erlendu vinnuafli sem hingað er flutt í stórum stíl. Lélegur aðbúnaður, lág laun, langur vinnutími og margvísleg brot á vinnulöggjöf er bara toppurinn á ísjakanum hjá alltof mörgum og mörg þessara mála enda inni á okkar borðum. Við sjáum fjölda dæma um erlenda starfsmenn sem skráðir eru sem verkamenn en ekki iðnaðarmenn og allar aðferðir sem þessum aðilum dettur í hug eru notaðar til að lækka kostnað og auka hagnað, án tillits til laga eða reglna, hvað þá mannúðar, öryggis og sanngirni.

FIT segir hingað og ekki lengra. Setjum þessum aðilum stólinn fyrir dyrnar, stöndum saman í þessari baráttu.

Jafngildingu fagnað

Búið er að leggja fram á Alþingi frumvarp um jafngildingu iðnnáms og stúdentsprófs. Verði frumvarpið að lögum þýðir það að sveinspróf verður jafngilt stúdentsprófi hvað varðar aðgang að háskólum. Þetta er gríðarleg viðurkenning á mikilvægi iðngreina og það skiptir okkur miklu máli að félagar okkar geti sótt sér frekari menntun enda verðmæti í því fyrir þjóðfélagið að fjölbreyttur bakgrunnur búi að baki háskólamenntun. FIT fagnar framkomnu frumvarpi og er fullvisst um að alþingismenn styðji þetta frumvarp og sjái til þess að það verði að lögum sem fyrst.

Kröfugerð lögð fram

Kröfugerð Samiðnar hefur nú verið lögð fram og er hún birt hér í blaðinu. Viðamikið starf hefur verið unnið við samræmingu kröfugerða allra félaganna og er óhætt að fullyrða að sú vinna endurspegli svo sannarlega þær áherslur sem félagsmenn FIT hafa látið í ljósi og eru bæði raunhæfar og sanngjarnar.

Við hjá FIT höfum haldið fjölda félags- og fagreinafunda, sest niður með trúnaðarmönnum, heimsótt vinnustaði og hlustað á raddir okkar fólks. Við hvetjum ykkur til að skoða kröfugerðina vel og sjá þær áherslur sem þar koma fram, enda endurspegla þær ykkar áherslur og skoðanir. Fyrir ykkar kröfum verður barist í komandi samningum.