Samheldni og samstaða í kjaramálum

Viðræður þokast Viðræður um nýja kjarasamninga eru í fullum gangi og hverfist grunnurinn að nýjum samningum um nokkur mikilvægustu hagsmunamál okkar iðnaðarmanna. Má þar nefna styttingu vinnuvikunnar, svigrúm til launahækkana, húsnæðismál, skattamál, lífeyrismál og launakerfið sjálft. Reynsla við samningaborðið skiptir miklu og því fengur í þeim sterka hópi sem heldur fram málum okkar við fulltrúa atvinnulífsins.

Þó viðræður gangi hægt, miðar þeim hægt og bítandi áfram, ekki síst vegna þeirrar miklu vinnu sem þegar hefur verið unnin á skrifstofunni við undirbúning, gagnaöflun og útfærslu hugmynda okkar sérmála. Þó er staðan viðkvæm og ljóst að brugðið getur til beggja vona, enda ekkert í hendi fyrr en búið er að undirrita nýja samninga. Hins vegar er sú samheldni og samstaða sem iðnaðarmenn sýna í þessum viðræðum til mikillar eftirbreytni.

Jákvæðir hlutir í farvatninu

Ef litið er til nokkurra jákvæðra þátta, er hægt að segja að viðræður okkar iðnaðarmanna við Samtök atvinnulífsins um styttingu vinnuvikunnar hafi þegar komist lengra en margir bjuggust við. Vinnuvikan á Íslandi er með því lengsta sem þekkist og krafa okkar hvað þetta varðar er einföld; við viljum styttri vinnuviku án nokkurrar launaskerðingar. Þá hefur orðið jákvæð þróun hvað varðar aðgerðir í húsnæðismálum og skattamálum.

Loks er hægt að nefna að við höfum lagt á það áherslu að komandi kjarasamningar verði afturvirkir til áramóta og hafa samningsaðilar tekið undir það með fyrirvara. Þá má nefna að við iðnaðarmenn höfum opnað fyrir þann möguleika að gera styttri kjarasamning til að liðka fyrir langtímabreytingum, eins og með styttingu vinnuvikunnar, og er það raunhæfur möguleiki.

Kennitöluflakk og keðjuábyrgð á borðinu

Að sama skapi liggja sem fyrr ákveðnir hlutir þungt á okkar mönnum. FIT hefur verið í fararbroddi í baráttunni gegn því kennitöluflakki sem hefur alltof lengi fengið að þrífast á íslenskum vinnumarkaði með tilheyrandi skuldaslóða, ógreiddum launum og óreiðu. Hið sama má segja um keðjuábyrgðina. Við höfum ítrekað þá skoðun okkar að keðjuábyrgð eigi að ná til alls vinnumarkaðarins, enda um meinsemd að ræða sem ætti að vera fyrir löngu búið að uppræta úr okkar þjóðfélagi.

Starfsmannaleigur, sem spretta upp eins og gorkúlur, flytja inn erlent vinnuafl og greiða laun langt undir því sem eðlilegt telst og rukka starfsmenn svo um óhóflega húsaleigu og fleiri gjöld, hafa ekkert erindi inn á vinnumarkaðinn. Baráttan gegn þessum þáttum heldur áfram.

Jafngildi og launajafnrétti

Framlagning frumvarps um jafngildingu iðnnáms og stúdentsprófs er fagnaðarefni og gott að sjá þetta baráttumál okkar komið inn á borð Alþingis. Það væri mikilvægt innlegg í framtíðarsýn aðila vinnumarkaðarins að sjá þetta verða að veruleika og slík viðurkenning á mikilvægi iðngreina staðfestir þau verðmæti sem felast í fjölbreytni í bakgrunni þeirra sem hafa háskólamenntun. Þá hefur orðið afar jákvæð þróun hvað varðar fjölgun kvenna í námi í bílgreinum.

Æ fleiri konur sækja sér nú nám í þessari grein og nú skiptir miklu að halda vel á spöðunum og tryggja áfram það sjálfsagða launajafnrétti kynjanna í iðngreinum sem ríkt hefur.

Vinnustaðaeftirlit ber árangur

Að sama skapi ber að fagna að ekki verður betur séð en að öflugt og skilvirkt vinnustaðaeftirlit okkar sé að bera árangur. Æ færri brot koma upp við þetta eftirlit, þó vissulega séum við enn að standa menn að verki við ótrúlegustu hluti. Við höldum þessu mikilvæga eftirliti að sjálfsögðu áfram og hvetjum félagsmenn okkar til að vera á varðbergi og aðstoða okkur við að uppræta þessa óværu á okkar vinnustöðum.

Endurnýjun í stjórn og trúnaðarmannaráði

Talsverð endurnýjun verður í stjórn FIT á næsta aðalfundi og er það vel. Endurnýjun er alltaf nauðsynleg og ferskleiki í hugsun og nálgun þeirra verkefna sem bíður hverrar stjórnar er mikilvæg. Áhugi félagsmanna á að koma að stjórn félagsins er þakkarverður. Hið sama má segja um trúnaðarmannaráð, en þar mun einnig verða talsverð endurnýjun.

FIT er lifandi félag þar sem breytingar í þjóðfélagi og fjölskyldumynstri koma fram, yngri félagsmenn koma með sínar áherslur og sjónarmið og slíkt endurspeglast í endurnýjun þeirra sem koma að stjórn félagsins. Áhugi félagsmanna á félaginu hefur alltaf verið mikill og í því liggur mikill styrkur okkar, bæði út á við og inn á við. Við byggjum á samheldni, samstöðu og samvinnu, því við vitum að þannig eru okkur allir vegir færir.